Í norðvestra Jämtland

 
 
Við erum í húsi við vatn sem heitir Ankarvattnið og er aldeilis norðvestast í fjöllunum í Jämtland. Húsið nefnist Rödingen, Bleikjan. Vatnið hefur skógi vaxna umgjörð aldeilis allan hringinn og það er í 448 metra hæð yfir sjó. Því miður náði ég engri góðri mynd af því húsi.
 
 
 
Á leiðinni hingað vorum við á ferðinni um mikil vatnasvæði sem eru álíka norðarlega og miðhálendi Íslands og vöttnin þar eru í þetta 530 til allt að 550 metra hæð yfir sjó. Hér er ég að tala um fleiri tugi kílómetra þar sem vatn er alltaf á aðra hvora hönd við veginn, allt frá bænum Vilhelmina og langt norðvestur á bóginn.

Þessi vötn eru líka umvafin skógi vöxnum fjöllum, víða með litlu undirlendi. Lægri fjöllin skógi vaxin yfir fjallatoppana og þau hærri skógi vaxin langt upp eftir hlíðunum. Svona landssvæði heilla mig gerssamlega. Víðfeðmu akurlöndin kringum Sólvelli, umgirt víðáttumiklum skógum, eða skógareyjum, jafnvel með stóru eikartré mitt út í akri, heilla mig einnig, en hið stórfenglega landslag hér upp í norðrinu sem er vaxið svo miklum skógi og gróðri almennt er andstaða heimasvæðisins og tilbreytingin heillar.
 
 
 
En ferðin frá Vilhelmina og norðvestur á bóginn endaði svo á hásléttunni Stekenjokk þar sem vegurinn byrjar að liggja suður á bóginn. Á Stekenjokk liggur vegurinn upp í 876 metra hæð eða svipað Sprengisandi sýnist mér og álíka norðarlega. Allt er þetta malbikaðir vegir.

Fyrir tveimur árum kom ég í fyrsta skipti á Stekenjokk og þá var rigningarhraglandi, aðeins örfárra stiga hiti og vindur. Síðar bloggaði ég um heimsóknina á Stekenjokk og lýsti svæðinu sem ógrónu, grýttu og kuldalegu.
 
Núna kom ég þangað eftir ærlegt þrumuveður og skýfall niður í byggð en fékk að upplifa þar uppi fallegan sumardag með yfir tuttugu stiga hita. Þá komst ég að því að þessi háslétta er alls ekki svört auðn. Þar er mikill gróður, svo sem fjallablóm, mikið af víði og krækiberjalyngi og grasflákar inn á milli.

Þar var mikið af fólki sem var hljóðlátt og við vorum hljóðlát. Við hölluðum okkur góðum stundum upp að bílnum og töluðum bæði lítið og lágt. Við gengum um, stóðum aftur kyrr og héldum áfram að tala bæði lítið og lágt. Þegar við vorum þar fyrir tveimur árum vorum við þar ein í kalsaveðrinu sem ég hef þegar lýst. Samt höfðum við góðar minningar frá þeirri heimsókn okkar til Stekenjökk utan bara að mér fannst sem staðurinn væri nánast eyðimörk.
 
 
 
Eftir dágóða stund á Stekenjokk héldum við svo suður á bóginn að húsinu við  Ankarvattnið. Kjarrið varð smám saman hærra og hærra og síðan tóku við lágvaxin og kræklótt birkitré. Svo tóku við barrskógar blandaðir lauftrjám. Þéttvaxnir skógar sem eru ómissandi til að halda vorri jörð byggilegri.

Efter að hafa sofið eina nótt við Ankarvattnið sunnan hásléttunnar unnum við það til að aka um 30 km norður á bóginn aftur til að upplifa á ný nánast heilaga kyrrðina þar uppi. Þá var þar aftur mikið af fólki, jafn hljóðlátu og daginn áður og staðurinn var ennþá heillandi. Nú hefur Stekenjokk hásléttan mótað sig inn í huga okkar  með kyrrð sinni og heillandi landslagi, með einföldum fjallagróðri sínum og útsýninu til grannlandsins Noregs
 
Það eru víðáttumiklar andstæður milli hásléttunnar annars vegar og skógarins og vattnanna báðu megin við hins vegar, en hvort tveggja heillar mig og ég verð nánast ölvaður av að sitja hér á bekk utan við húsið við Ankarvattnið og skrifa um þetta.
 
 
 
Ég hreinlega elska þessa skóga, seiðmagn þeirra er svo áþreifanlegt, og ég er þeim þakklátur fyrir það sem þeir gera fyrir mig. Eftir bestu getu taka þeir til sín úrganginn sem ég anda frá mér ásamt svo mörgum öðrum úrgangi sem ég skil eftir mig með lifnaðarháttum mínum en þeir hafa bara ekki undan. Án þeirra væru lífsmöguleeikar mínir litlir. Ég elska þá.

Stundum finnst mér sem ég skilji hvers vegna það er gróðurlaust á stöðum á Íslandi sem liggja á sömu breiddargráðu og í sömu hæð og skógrnir hér í Svíþjóð en ef ég ætti að útskýra það fyrir einhverjum núna þegar ég er að skrifa þetta norður undir Lapplandi, þá mundi ég ekki geta gert það.
 
 
 
Við Susanne erum á vel heppnuðu ferðalagi um ókunnar slóðir.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0