Að kynnast ókunnum manni

Það er föstudagur og við sitjum í dagstofu á fjallahótelinu Kolåsen og erum svo sem ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Og þó. Ég sit með tölvuna mina og skrifa niður það sem mér dettur í hug og Susanne situr líka með sína tölvu og fer í gegnum tölvupóst og skilaboð af ýmsu tagi sem henni ber að fara í gegnum. En það eru engar tímasetningar og það er ekkert ógert sem óróar okkur og við erum sátt við að vera að gera ekki neitt. Vikan okkar hér er brátt á enda, þetta er næst síðasti dagurinn.
 
Við höfðum stórar væntingar til þessarar ferðar okkar og rétt áðan vorum við sammála um að væntingarnar hefðu gengið eftir. Það hefur margt einfalt rekið á fjörur okkar og það er það sem við erum ánægð með.
 
 
 
Við vorum stödd í Saxnesi í syðra Lapplandi fyrir nokkrum dögum og það var tími til kominn að heimsækja Marsliden, sögulegt svæði þar í nágrenninu, hinu megin við vatnið Kulten. Við komum þar að húsi sem virtist vera einhver blanda af kaffihúsi og pinulítilli verslun. Við ókum inn á lítið bílastæði og horfðum upp til þessa húss sem stóð í talsverðum halla. Við dyrnar var verönd eða pallur með nokkrum borðum og þar sátu menn og spjölluðu saman. Mér datt í hug Jóa Árna tröppurnar í Hrísey þar sem menn, stundum margir, hittust gjarnan, sátu í tröpunum og ræddu gang mála. Rétt þegar við höfðum lagt bílnum kom maður á reiðhjóli sem hann stillti upp við grindverk.
 
Þessi maður hafði höfuðfat sem við vorum ekki vön við og gerði okkur svolítið undrandi. Ég skal viðurkenna að mér fannst sem ekki gætu orðið mikil samskipti milli mín og hans. Hann virtist bara af svo allt öðru sauðahúsi. Hann var á undan okkur upp að húsinu og inn á veröndina þar sem mennirnir sátu. Þá varð augljóst að hann var þeim ekki ókunnur og að hann var samþykktur af þeim, hann varð samstundis einn úr hópnum.
 
Við komum upp á pallinn, gengum inn og svipuðumst um. Það var ekki um mikið annað að velja þar en kaffi og ís enda ekki neitt af verra taginu. Við settumst með veitingarnar við borð á öðrum og lægri palli þar sem miðaldra maður sat og af einhverri ástæðu fannst mér sem hann væri Ástrali. Ögn seinna kom kona sem virtist tilheyra honum. Við sleiktum ísinn og spjölluðum saman okkar megin við borðið en þau töluðu saman hinu megin. Nú kom maðurinn með einkennilega höfuðfatið og mér var spurn hvað væri eiginlega inni í því.
 
Þeir virtust málkunnugir Ástralinn og maðurinn með höfuðfatið. Hvað þeim fór á milli hvorki heyrði ég eða skildi eða reyndi að heyra. Svo virtist mál fyrir Ástralann og konuna að stefna eitthvað annað og þau kvöddu og hurfu af vetvangi. Stuttu síðar sneri maðurinn með höfyuðfatið sér að okkur og ávarpaði okkur á sænsku. Úr því varð heil mikið samtal.
 
Ég gekk smám saman hreint til verks og spurði hann frá hvaða heimshorni hann kæmi. Hann sagðist koma frá lítilli eyju á Karabiska hafinu. Pabbinn hefði stugnið af þegar hann hafði gert mömmu mannins ólétta og meðan hann ennþá var barn hefði mamma hans dáið. Þrettán ára hafði hann verið orðinn þreyttur sem götubarn og ásamt öðrum jafnaldra sínum tóku þeir sig um borð í stórt flutningaskip og földu sig í einhverri kaðalhrúgu. Þar kúrðu þeir þar til skipið var komið svo langt á haf út að þeir vissu að það yrði ekkert gert meira í málinu fyrr en þeir kæmu aftur í land. Þeir höfnuðu í Englandi og hann síðar í Svíþjóð.
 
Hvernig allt gekk fyrir sig var ekki tími til að tala um en hann byrjaði í grunnskóla og gekk svo í gegnum menntaskólann. Þar á eftir skrifaðist hann inn í háskóla og vann nú sem tónlistarkennari og kennari í myndlistum. Þarna nálægt í Marsliden átti hann sumarbústað og var á sumrin leiðsögumaður fyrir ferðafólk sem kom til að skoða landið og til að veiða fisk. Hann var greinilega landfræðilega vel að sér. Við þekktum nógu vel til til að skilja það.
 
Ég spurði hann hvernig það eiginlega væri fyrir þrettán ára strák að koma inn í ókunnugt land þar sem maður kynni ekki málið og þekkti alls engan, bara hreinlega hvernig maður gengi fyrstu skrefin. Ég get ekki haft neitt eftir honum um það en að lokum sagði hann nokkuð sem ég man vel.
 
Hann sagði að það snerist um að vilja vera ábyrgur, að taka ábyrgð á eigin lífi og sem meðlimur í samfélaginu.
 
Við fengum góða tilfinningu fyrir honum og þegar við sáum að kallarnir á efri pallinum sáu hann sem góðkunningja sinn, þá varð hann góðkunningi okkar líka. Hann kenndi mér lexíu með sinni þægilegu framkomu og með því sem hann hafði að segja.
 
Við Susanne getum engan vegin munað nafnið á eyjunni sem hann kom frá og alls ekki hans nafn heldur, þó að hann reyndar stafaði það fyrir okkur. Ef það er sett "h" inn í þitt nafn sagði hann við mig, þá eru nöfnin á okkur ekki svo ólík. Hann gaf góðfúslega leyfi til að taka myndina. Hvað var svo í höfuðfatinu? Jú, það var alveg óhemja af hári.
 
Þetta skrifaði ég á dagstofu fjallahótelsins Kolåsen.
 
 
Séð frá Marsliden suður yfir vatnið Kulten

 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0