Af hverju að blogga?

Mér datt þetta bara allt í einu í hug, af hverju að blogga? Það var alls ekki á dagskránni þegar ég opnaði bloggið en þegar ég ætlaði að skrifa fyrirsögn skaut spurningunni upp í huga mér. Upphaflega gerði ég þetta til að þeir sem vildu vita af okkur Valdísi gætu kíkt á bloggið en seinna varð þetta líka dægradvöl. Alls ekki dægrastytting því að mér nægja ekki dagarnir til að gera það sem mig langar að gera.

Ég byrjaði daginn á því að sleppa tíkinni Sölku út út búrinu. Ég held að henni hafi verið orðið mál. Hún byrjaði með að flaðra upp um mig í kæti og þegar hún dró loppurnar niður eftir berum fótleggjunum á mér skildu klærnar eftir hvítar rendur á húðinni. Síðan sleppti ég henni út á lóðina til að viðra sig. Ég forðaðist svo að taka eftir því hvort hún gerði eitthvað óleyfilegt eftir að hún kom út og kannski voru líka húsráðendur búnir að fara með hana á þarfagöngu. Þegar svo Valdís sleppti henni inn rétt í þessu kom hún hlaupandi til mín, stakk hausnum upp á milli læranna á mér og vildi þrálát komast upp á lyklaborðið. Þá bauð ég henni að fara inn í búrið aftur og það var eins og hún skildi það og hún lagði niður lyklaborðskröfuna.

Einhvers staðar minntist ég á Eldfell í gær, á bloggi eða feisbókinni. Í fyrsta sinn sem ég kom til Eyja í janúar 1991 lét ég mér nægja að horfa á Eldfell (fer ekki út í þann sljóleika minn nánar). Síðan hefur það verið regla að fara minnst einu sinni á Eldfell á ferðum mínum til Eyja og í hverri ferð hef ég setst á vikurþekjuna þarna uppi. Þegar ég kom þar upp í fyrstu ferðinni varð ég fljótlega volgur á rassinum og ég átti varla von á því. Þá gróf ég hendina í vikurinn og fann hitann samstundis. Síðast kom ég upp 2004 og þá var þetta minna áberandi en daufir gufuflákarnir liðu þó upp eftir hlíðunum. Eftir fyrstu ferðina var ég svo hugfanginn að ég skrifaði í sæluvímu ferðalýsingu og sendi sænskum vini mínum og vinnufélaga. Ég held næstum að hann hafi verið öfundsjúkur yfir að ekki hafa verið með í för. Stuttu síðar sýndi ég sænskri konu bréfið, konu sem hefur mjög oft verið á Íslandi og kann  íslensku það mikið að það er betra að segja ekki hvað sem er í návist hennar. Ég sá á henni að hún renndi augum hvað eftir annað yfir hluta bréfsins og síðan spurði hún hvort hún mætti fara með það heim og senda leiðrétt il baka. Ég var dauðfeginn að hún vildi gera þetta en svo sagði hún: Maður sem skrifar svona á að skrifa bók.

Eftir eina af Eldfellsferðum mínum skammaðist ég mín. Þá spurði Valgerður dóttir mín hvort dæturnar tvær, barnabörnin mín, mættu ekki koma með. Það kom á mig og svo sagði ég nei. Ég var löngu búinn að ákveða að eiga kyrra stund þarna uppi og láta hugann reika. Toppurinn á Eldfelli er kjörinn staður fyrir svoleiðis. Svo fór ég á Eldfell og tókst að hugsa ekki um þessa neitun mína og var í tíma þar uppi. Ég horfði yfir Vestmannaeyjabæ, upp til Heklu, austur til Eyjafjallajökuls, til jökla sem ég ekki þekkti, upp til íslenska hálendisins sem hafði gefið hugmyndaflug til svo margra sagna, þjóðsagna og útilegumannaævintýra í ellefu hundruð ár. Ég horfði einnig niður til hraunsins kringum Eldfell og fann svo vel að ég sat á einstökum stað. Ég sat á fjalli sem hafði orðið til í manna minnum fyrir flesta íslendinga og sama með hraunið þar í kring. Því næst allt land á þessari jörð er hundruð þúsunda, miljóna eða hundruð miljóna ára gamalt. Ég horfði niður til hússins þar sem dóttir mín bjó með sjölskyldu sinni. Ef ekki svona staður gefur tilefni og aðstæður til andlegra hugleiðinga, þá veit ég ekki hvar sá staður finnst. Svo þegar ég kom niður fann ég fyrir skömmini yfir að hafa ekki tekið barnabörnin með. Samt fannst mér sem ég hefði gert eitthvað sem fólk, og þar með talinn ég sjálfur, gerir of sjaldan.

Þegar ég við góð tækifæri segi svíum frá svona löguðu verða þeir sérkennilegir, kannski næstum vandræðalegir. Þeir mundu svo gjarnan vilja vera með í einni svona ferð.

Ég ætlaði að skrifa meira um Eldfell og lífið þar uppi en það sem ég skrifaði núna varð öðru vísi en ég hugsaði í fyrstu. Klukkan er orðin tíu og Valdís spyr hvort ég ætli ekki að borða morgunverð. Jú, það er best að ég renni mér í buxurnar og borði morgunverð. Þessi dagur hefur byrjað vel.


Kommentarer
Rósa

Oj bara. Ertu að blogga á nærbuxunum?



;-)



Kveðja,



R

2009-04-30 @ 15:13:03
Guðjón

Já, dóttir mín góð, ég er dálítið agalaus maður.

2009-04-30 @ 21:46:42
URL: http://gudjon.blogg.se/


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0