Vorkoman

Sólin skín frá austri þvert yfir Suðurbæjarskóginn sem er bara fáein hundruð metra hérna sunnan við mig. Yfir skóginn en mun lengra burtu sé ég skýjafar á hraðri austurleið. Hér heima er þó logn og hitinn er sex stig núna klukkan hálf níu að morgni. Þó að ekkert laufverk sé enn farið að sýna sig er skógurinn þó breyttur. Þetta hef ég séð frá fyrstu tíð hér í Svíþjóð, þessa breytingu áður en skógarnir laufgast, og skildi fyrst ekki hvað það snerist um. En það er auðvitað ekkert skrýtið þegar hugsað er til þess að miljarðar brumhnappa eru farnir að lifna við og þrútna að það verði sjáanleg breyting á. Fólk talar mikið um vorið og ef fólk hittist verður bara að segja eitthvað um vorið.

Fyrir nokkrum dögum talaði ég um stóra fugla sem lentu í óvæntu kuldakasti eftir komu sína til Svíþjóðar frá hlýrri löndum. En þessi mikli skari af svönum, trönum og gæsum sem voru snemma á ferðinni voru bara fyrsti dropinn af niklu flóði farfugla. Áður en ég fór í vinnu á laugardagsmorguninn las Valdís í blaðinu að það væru eitthundrað miljón farfuglar á leiðinni til landsins allt frá Suðurafríku. Oj oj, svo mikið, og svo margir komnir áður, og svo margir sem voru um kyrrt allan veturinn. Það er synd að hafa ekki fjölgað fuglahúsum á Sólvöllum en áherslan þar hefur verið lögð á mannahús.

Dýralíf á og við Sólvelli hefur auðgast síðan við komum þangað. Ekki er það okkur að þakka heldur er það árangur af breyttum háttum í landbúnaði. Þó höfum við gert eitt jákvætt, og það er að það eru nokkrar hrúgur af greinum sem við höfum skilið eftir í skóginum við grisjun. Þessar greinahrúgur eru svo sem ekki fallegar en þær auðga lífríkið. Til dæmis eru þessar greinahrúgur eftirsóttar sem bústaðir af broddgöltum sem eru vinsælir nágrannar. Broddgeltir sáust ekki í okkar nágrenni á Sólvöllum en eru nú algengir. En við höfum fengið annan nágranna. sem er ekki eftirsóknarverður. Hann heitir greifingi. Greifinginn étur upp öll egg sem hann kemst yfir. Hann tekur líka vesalings broddgeltina og veltir þeim á hrygg. Síðan étur hann þá. Ég er búinn að tala um þetta við hann Lars nágranna okkar í sveitinni. Þá þurfum við eina gildru hér líka, sagði Lars. Það eru nefnilega tvær gildrur ekki svo langt frá okkur því að það eru fleiri sem hafa orðið varir við greifingja. Þessar gildrur eru nokkurs konar vírnetshús sem lokast þegar greifinginn kemur inn í þau. Svo kemur til þess valinn maður og sér um afganginn.

Nágrannabóndi, Arnold, var í bílskúrnum sínum að bardúsa. Allt í einu sá hann greifingja koma lallandi inn í bílskúrinn. Greifingi bítur harkalega og sagan segir að þegar hann bíti sleppi hann ekki takinu fyrr en hann heyri bein bresta. Þetta skeður mikið sjaldan en þegar hann kemur lallandi inn í bílskúr verður mönnum auðvitað um og ó. Bóndinn lagði til greifingjans með hamri og sló af alefli. En greifingjar eru svínsterkir á skrokkinn og það þurfti mörg högg innan greifinginn féll í valinn. Bóndinn var ögn skjálfhentur eftir atburðinn og einhverjir svitadropar runnu niður andlit hans. Hann hafði samband við manninn sem sér um eftirleikinn þegar greifingjar hafa orðið fastir í búrum. Hann rannsakaði bílskúrinn og nágrenni hans og viti menn. Í sjálfum bílskúrnum fann hann tvo yrðlinga. Það má því fullyrða að greifinginn hefur haft fullan hug á að sigra Arnold bónda til að verja unga sína. En nú er saga þessara greifingja öll og ef einhver skyldi vilja kíkja við á Sólvöllum í sumar get ég lofað því að þar verða engir greifingjar á ferð undir veisluborðunum. Þar mun bara lifa sagan um greifingjana.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0