Læknisferð

Ég hef bloggað um löngu liðna óheilsu fyrir einhverjum mánuðum veit ég, en ég ætla að byrja þetta blogg á því að endurtaka þetta gmala blogg. Þetta var um það þegar ég var búinn að vera fyrstu mánuðina í Svíþjóð og var búinn að ganga svo mikið um skógana upp í Dölum að ég var orðinn alveg frá í hnjánum. Svo var ég á leið til Íslands til að sækja Valdísi og búslóðina. Ég gisti þá eina nótt hjá Rósu og Pétri og var þá bæði haltur og aumur og hafði átt erfitt með svefn í margar nætur. Ég var því þreyttur þegar ég kom þangað. Ég fékk að hringja hjá Rósu til sjúkranuddara í Reykjavík sem heitir Kristján Ívar. Kristján er maður sem veit lengra nefi sínu. Komdu sæll Kristján, sagði ég, þegar hann svaraði í símann og gætti þess að kynna mig alls ekki. Hann svaraði án umhugsunar; komdu sæll Guðjón. Þetta byrjaði vel fannst mér þar sem hann þekkti mig alveg á sugnablikinu. Svo bar ég upp erindi mitt og það var ákveðið að ég kæmi til hans svo fljótt sem hægt var eftir komuna til Íslands. Eftir þetta samtal fann ég ekki meira fyrir verknum í hnjánum og um nóttina svaf ég alveg dásamlegum svefni. All nokkuð varð ég undrandi.

Nú undanfarið hef ég stundum bloggað um það að ég sé haltur á köflum og haltur hef ég verið -á köflum. Nú hef ég oft fengið ítrekaðar áskoranir frá fólki sem ekki er sama um heilsu mína, áskoranir um að fara nú í mjaðmaaðgerð þar sem helti mín kemur út frá slitinni mjöðm. Eftir eigið japl og jaml og fuður og skipulagningar á hvenær það mundi henta mér best að fara í þessar aðgerð, sendi ég heimilislækni mínum e-póst. Þar þakkaði ég þessari ágætu konu, Gunillu, fyrir síðustu og einu heimsókn mína til hennar. Hún fór þá almennt yfir heilsu mína, leit sérstaklega á mjöðmina, lét taka mörg blóðpróf og kvaddi mig svo með virktum. Hún komst líka að því að mig vantaði fólinsýru og síðan hef ég tekið inn fólinsýru og það hefur gert mér mikið gott. En eftir að hafa komið þessu þakklæti mínu á framfæri talaði ég um mína slitnu mjöðm og óskaði nú eftir að hún hugaði að aðgerð. Nokkrum dögum síðar fékk ég bréf frá Gunillu og þar fékk ég tíma hjá henni. Það er nú ekki að orðlengja það að mér fór að batna í mjöðminni og í morgun var ég orðinn svo góður að það verkaði fáránleiki að eiga að hitta Gunillu klukkan þrjú í dag til að ræða mjaðmaaðgerð.

Nú er ekki að orðlengja það að klukkan rúmlega þrjú í dag om Gunilla fram á biðstofuna og að venju prýdd sínum góðlátlega svip. (ég hef oftar séð hana en þegar ég fór til hennar í fyrra) Hún kallaði upp nafn mitt og svo gengum við hlið við hlið eftir löngum gangi að stofudyrum hennar. Gunilla er álíka há og ég og gengur rösklega. Ég sá hvernig hún horfði lítillega til hærgi eimitt í þá áttina þar sem ég gekk álíka rösklega við hlið hennar. Mér fannst þetta neyðarlegt þar sem ég gerði mér vel grein fyrir því að ég var algerlega óhaltur. Þegar inn á stofunar kom byrjuðum við á að ræða um mjöðmina. Þar notaði ég orðalagið; þegar ég er haltur. Ert þú einhvern tíma haltur? sagði hún bæði með smá undrun og kankvísi. Það lá við að ég stamaði. Án orðalenginga varð niðurstaðan sú að aðgerð væri ekki á dagskrá ennþá og bæklunarlæknirinn mun nú verða á sama máli, sagði Gunilla. Hins vegar fer ég í röntgenmyndatöku á miðvikudag fyrir hádegi.

Hugsið þið ykkur hvað heilinn þarna upp í höfði mínu hefur mikið með heilsu mína að gera. Nú er það bara spurningin hvort það er heltin eða óheltin sem kemur frá höfðinu.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0