Að kvöldi skal dag lofa

Í gærmorgun lýsti ég veðrinu næstum þunglyndislega. Í gærkvöld var annar gáll á mér þó að ég hafi ekki gefið neina lýsingu á því fyrr en núna. Veðrið varð nefnilega mjög gott síðdegis þótt það væri ekkert sérstakt vorveður. Í gærmorgun sveifluðust hæstu trén svo mikið að ég er nokkuð viss um að ég hefði orðið mikið sjóveikur ef ég hefði verið þar uppi. Í gærkvöldi var svo mikil kyrrð þar að hreyfingin var varla merkjanleg. Sólin settist mun norðar á Kilsbergen en hún gerði fyrir minna en viku. Sólsertrið í gærkvöldi var mikil listasýning sköpunarverksins án allra afskipta mannanna. Það fór nú best á því. Sem sagt; að kvöldi skal dag lofa.
 
Nú er klukkan hálf sjö að morgni þess fyrsta maí og ég er búinn að draga frá austurglugganum. Það er ótrúlegt að svo mörg tré sem eru yfir tuttugu metrar á hæð skuli geta staðið svo grafkyrr sem þau gera. Ég er búinn að horfa á marga toppa og miða þá við eitthvað í glugganum og það er ekki hægt að merkja hina minnstu hreyfingu. Ekki hina minnstu. Sólin styrkist frá mínútu til mínútu þar sem hún er að fikra sig gegnum trjá og greinaverk í austri. Kyrrðin er algjör utan fuglasöng með löngum hléum og hin sérstöku ástarhljóð spætunnar. Svo heyri ég líka öðru hvoru önnur hljóð frá spætunni, en það eru hljóðin sem heyrast þegar hún heggur sig inn í tré. Annars er allt kyrrt.
 
Bráðlega höldum við af stað til Stokkhólms, ég og Valgerður. Í öll fyrri skipti var Valdís ferðafélagi minn en nú heyrir hún kyrrðinni til. Hljóð baráttunnar í rúminu við hlið mér hafa þagnað og friðurinn hefur tekið Valdísi að sér. Um leið og ég segi þetta minnist ég fyrstu ferðar okkar frá Örebro til Stokkhólms í mars 1997. Það var ferð góðra minninga fyrir okkur bæði og sem betur fer á ég hana skrifaða, skrifaði hana niður þegar á því sama ári. Sú ferð er einhver sú besta sem við höfum farið um dagana.
 
Þessi byrjun á degi lofar góðu þó að ég hafi komið inn á svæði sorgarinnar sem ég þó ætlaði ekki að gera. En það er svona með það að skrifa, að hið óvænta grípur allt í einu frammí og vill vera með. Nú er það gert. Það verður gaman að láta Hannes sýna sér nýja eldhúsið heima hjá mömmu og pabba, eða þá nýjasta legóverkið sitt. Kannski förum við á kaffihús. Það er nefnilega gaman að fara með Hannesi á kaffihús. Foreldrar hans voru farnir að æfa hann í svoleiðis þegar í Uppsala þegar han var ekki einu sinni orðinn ársgamall. Hann er stilltur og prúður á kaffihúsum og vökull er hann þar fyrir umhverfi sínu.
 
Enn hækkar sólin þennan morgun eins og hún hefur gert í miljarða ára og ég fæ að vera með um það. Þó að hitamælirinn hafi verið neðarlega klukkan hálf sjö er hann farinn að hækka og eitthvað innra með mér hvíslar gætilega "vor". Eftir Stokkhólmsferðina síðdegis á morgun taka við verkefni hér heima. Ég kom nokkru skipulagi á huga minn í gær og ég finn að það verður gaman að sinna því sem sinna þarf hér á Sólvöllum. Það er af mörgu að taka og ég minnist orða eldri manns í sjónvarpi í vetur þegar hann sagði að uppi í höfðinu á honum væri líffæri sem þyrfti að halda lifandi og það væri best gert með því að hafa eitthvða fyrir stafni. Hann var á áttræðis aldri og enn í hlutastarfi. Það var hluti af því að halda heilanum í gangi.
 
Mér féll vel við að hlusta á þennan mann. Svo verða kyrru stundirnar á milli þess að sinna verkefnum sínum að verðmætum stundum hugleiðinga og að njóta þeirrar fegurðar sem okkur býðst. Bókin Kyrrð dagsins segir fyrsta maí að "Þumlungur tíma er þumlungur gulls. Varðveittu hann vel. Lærðu að meta hverfulleika hans." Nafn höfundarins er svo flókið að ég finn hann ekki einu sinni á Wikipedia, en ég get hugsað mér kínverskan speking frá því fyrir þúsundum ára eða svo. En alla vega, ég var farinn að gæla við þessi orð þegar í gær. Ég skal taka þau til mín á þessum fagra sólskinsdegi.


Kommentarer
Björkin.

Kærar kveðjur og líði ykkur öllum sem best.Krammmmmmmmmm

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-05-01 @ 16:06:21
Dísa gamli nágranni

Gangi ykkur öllum vel.
Kærar kveðjur

Svar: Takk sömuleiðis.
Gudjon

2013-05-01 @ 22:28:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0