Myndir frá 2005

 
Ég hef verið að fara í gegnum gamlar myndir og grisja og jafnframt að leita að vissum myndum sem ég þarf að vista annars staðar. Þetta fékk mig til að hugsa um það sem við vorum að gera hér áður, til dæmis þann 19. júní 2005. Þann dag sóttum við tvær kerrur af þökum á bóndabæ spölkorn hér norðan við. Við vorum að snurfusa kringum húsin á Sólvöllum.
 
 
Kringum bæinn þar sem við fengum þökurnar voru nokkrar gamlar eikur. Þær hafa sjálfsagt verið nokkur hundruð ára gamlar. Við spurðum ábúendur hvort þeir vissu um aldurinn á þeim en það vissu þeir ekki og virtist þykja það hálfgert aukaatriði. En eikur deyja innan frá og það tekur langan tíma. Inni í þessari eik hefði verið hægt að koma fyrir góðum hægindastól og sitja þar í honum. Ég var búinn að stinga höfðinu inn í sprunguna þarna og virða fyrir mér þetta undur. Svo kom Valdís og meðan hún var að gera sína athugun kom fleira fólk og setti sig í biðröð. Við sjáum konu þarna lengst til hægri sem bíður eftir að röðin komi að henni.
 
 
En heim komust þökurnar og ég man að það var gaman að þökuleggja og sjá þá stóru breytingu sem varð við hverja rúllu sem var lögð út. Þetta var framan við Sólvallahúsið eins og það var þá. Þá var það bara lítið huggulegt sumarhús og það var gaman að fínisera kringum það. Líklega hefur aldrei verið jafn fínt á Sólvöllum og þetta sumar. Það þarf að fara að verða fínt Sólvöllum aftur. Aðeins hef ég velt því fyrir mér hvort búið sé að gera staðinn of stóran og erfiðan að hirða, hvort búið sé að byggja of stórt. En, nei. Við gátum ekki haft Sólvelli og líka íbúð inn í Örebro. Við urðum að velja á milli og valið var Sólvellir. Eftir Íslandsferðina byrja ég að snyrta og snurfusa hér í kring og þá hugsa ég að gamla tilfinningin komi upp. "Það er nú fínt á Sólvöllum og alltaf má aðeins bæta það, með smá natni og þolinmæði."
 
 
Þannig leit matarborðið út þann 19. maí 2005. Lítur vel út og svo hafa líka verðið jarðarber í eftirrétt má greina. Full skál af jarðarberjum er þarna á borðinu.
 
 
Það var líka snurfusað kringum útihúsin. Svo máluðum við þetta hús rautt eins og annað á staðnum og ári seinna komu svo hellur á gólfið.
 
 
Valdís hirti vel bíla á þessum tíma. Þeir glönsuðu heldur betur og urðu sem nýir hjá henni.
 
Ég ætlaði að skrifa svolítinn eftirmála en er orðinn of syfjaður til að ráða við það. En alla vega. Ég er ánægður með Sólvelli eins og þeir eru í dag þó að mér detti stundum í hug að markið hafi verið sett óþarflega hátt. En sjáum til um miðjan ágúst eða svo þegar búið verður að fara snyrtilegri hönd um hlutina og grænu fingurnir hafa fengið að njóta sín.


Kommentarer
Rósa

Mikið glanar bíllinn vel þarna!

Kveðja,

R

Svar: Já, þeir glönsuðu oft hjá henni.
Gudjon

2013-05-25 @ 23:02:14


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0