Ég gældi pínulítið við vini mína

Skipulagningar mínar fara gjarnan út um þúfur þessa dagana. Ég er gjarnan að, en það er margt sem kemur upp sem ég gerði ekki ráð fyrir. Samt gerði ég góðan díl í dag við hann Gústav hjá Ford. Þeir þurfa að líta á bílinn því að tölvan í honum segir að það sé bilun í mótor og bíllinn þarfnist viðgerðar. En svo þegar þeir fara að lesa af tölvunni segir hún ekkert um hvað sé að og þó að þeir skoði bílinn gaumgæfilega finna þeir heldur ekkert. Ég hef stungið upp á að henda tölvunni en þá ansa þeir mér ekki. Hún sagði jú eitt um daginn. Hún sagði að þaklúgan væri biluð. Þá litu kalla greyin upp og sáu að það var engin þaklúga. Bíllinn hlýtur að vera oftæknivæddur.
 
Snemma í fyrramálið átti ég að koma með bílinn og leggja hann inn. Svo átti ég að fá lánsbíl á meðan þeir klóruðu sér í höfðinu yfir vandanum. En í dag datt mér snjallræði í hug. Ég bíð fram á föstudag með að koma með bílinn og legg hann einfaldlega inn þegar ég legg af stað í Íslandsferðina. Þá yrði bíllinn læstur inni hjá þeim allan tímann og líka fengi ég þannig auðvelt far á járnbrautarstöðina. Þetta fannst Gústav einhver besta hugmynd sem skotið hefur upp kollinum í lengri tíma, alveg lýsandi sagði hann. Já, og fyrir mig líka, sagði ég, ef þið skutlið mér á járnbrautarstöðina frá verkstæðinu. Við tókumst í hendur símleiðis og samningur var staðfestur.
 
Inn á milli í dag var ég að snyrta hér í kringum mig á Sólvöllum. Reyndar líka í gær. Búi ég á Sólvöllum þá stend ég líka undir því. Ég var að blogga um það hér um daginn að fyrir all nokkrum árum hefðum við gert svo fínt í  kringum okkur. Svo fórum við að byggja og þetta fína varð framkvæmdunum að bráð. Við vorum búin að bíða eftir þeirri stund þegar hægt yrði að fara aftur að gera fínt. Nú er það byrjað og óneitanlega finnst mér það vera of seint en við það verður ekki ráðið. Ég fór með heila kerru á endurvinnslustöð í dag og eina kerru fer ég með á morgun til manns sem vill taka við dóti hjá mér sem ég hef ekki not af lengur.
 
Þegar ég var búinn að hlaða því á kerruna var klukkan að ganga níu. Ég gekk rólega fram og til baka og sá að tiltektin hafði skilað árangri. Þá vildi ég verðlauna mig með rólegri hringferð í skóginum. Ég stoppaði hjá mörgum kunningjum, spjallaði við þá, gældi pínu lítið við þá og dró meira að segja upp tommustokkinn til að mæla vöxt. Ungu beykitrén mín eru búin að breikka um 45 til 80 sentimetra, misjafnt milli einstaklinga. Ég gekk í kringum þau og horfði á þau með stolti. Þau gera meira en að standa undir væntingum mínum og það er greinilegt að sumarið sem ég verð 75 ára verða þau orðin hátt í tíu metrar.
 
Það var alltaf meiningin að við Valdís sætum saman á ellilífeyrisþegabekk undir krónum þeirra það ár. Hún verður ekki með mér á bekknum en hún mun heimsækja mig í anda og vekja með mér fagrar minningar. Vinnustundirnar á Sólvöllum hafa skilað sér í mörgu, ekki bara nýjum bústað fyrir ellilífeyrisþega, heldur hafa þær líka gert staðinn að athvarfi þar sem er gott og friðsælt að vera. Ekki veit ég um neinar heimsóknir í sumar utan fjölskylduna í Stokkhólmi sem ætlar að koma til að njóta staðarins í sumarleyfinu sínu.
 
Ég á von á að hann nafni minn muni stöku sinnum hoppa upp í hjólbörurnar hjá mér og fara með mér í rannsóknarferðir um skóginn og kynnast með mér hinum hljóðlátu vinum mínum þar. Ég yrði ekki hissa þó að hann færi smám saman að finna þessa vini mína sem sína vini einnig. Mér hefur ekki enn tekist að fá broddgöltinn til að skilja það að með matnum sem ég legg út handa honum, er ég líka að bjóa honum vináttu mína. Ég yrði stoltur ef ég gæti sýnt nafna fram á það að það væri hægt að eignast dýr að vinum, einungis með því að reynast þeim vel.
 
Ég hélt um daginn að ég væri búinn að vinna hylli broddgaltarins en sá sem át matinn hans var fugl sem kallaður er skata. Ég stóð skötuna tvisvar að verki um fimm leytið á morgnana. Þá minnkaði ánægja mín því að skatan er fugl eins og hrafninn sem hrifsar til sín, hvort heldur það eru egg eða ósjálfbjarga ungar. Broddgölturinn er hins vegar eitthvað friðsamasta dýr sem hrærist á jörðinni. Samt hræðir hann höggorma með broddum sínum, étur sniglana sem vilja éta jarðarberin mín og þrífur almennt kringumm hýbýli manna.
 
Klukkan ert tíu og mál að bursta og pissa. Það eina sem ég heyri er suðan í eyrum mér og stöku sinnum falla regndropar mjúklega. Ég er búinn að skipuleggja morgundaginn og eitt verkefna minna er að kaupa fjórar jarðarberjaplöntur og gróðursetja í þar til gerðar körfur. Hann nafni minn hefur gott af því að sjá að ef maður gerir góða hluti, þá getur maður líka uppskorið eitthvað gott. Sama er það með grænmetisræktina sem Rósa, og reyndar Valgerður líka, hafa komið af stað bakvið húsið. Það er gott fyrir borgarbarnið að sjá að þetta er hægt. Gulrætur líka, gulrætur líka, sagði hann um daginn þegar við Rósa vorum að setja niður kartöflur. Svo sáðu þau fyrir gulrótum og þær eru komnar upp.


Kommentarer
Björkin.

Gaman að fá fréttir af þér mágur minn. Kveðja frá Gbæ.

2013-05-28 @ 14:12:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0