Stokkhólmur er góður heim að sækja

Stokkhólmsferðir eru jafnan góðar og ferðin þangað í vikunni var engin undantekning frá því. Við Valgerður komum heim þaðan um það sem kalla mætti kvöldmatarleytið í gær. Ég ætlaði að setja saman nokkur orð um það í gær en úthald mitt brást og Óli lokbrá vann öruggan sigur yfir mér. Áður en mér tókst að komast í bólið var ég farinn að dotta þar sem ég skoðaði myndirnar á tölvuskjánum. Ég lét undan og þótti skynsamlegra að leggja mig í stað þess að velta sofandi út úr stólnum. Ég hefði getað fengið kúlu á höfuðið af einhverjum hörðum hlut en koddinn minn tekur alltaf vel á móti mér. Hann gerði það líka í gær. Nú er ég að komast í gang um átta leytið á föstudagsmorgni.
 
Hér eru nokkrar myndir frá Stokkhólmsferðinni.
 
Á leið út í eyjuna Djurgården með ferju í frekar svölu vorveðri en fallegu. Hannes Guðjón er mikill mömmustrákur og vildi bara hjúfra sig að henni og láta sem hann sæi ekki afa með myndavélina. Rósa mamma hans bendir honum hins vegar árangurslaust á að horfa á mig. Valgerður móðursystir er í bakgrunninum og okkur ókunnugt par ennþá lengra í bakgrunninum.
 
 
Úti á Djurgården, á Skansinum, er margt hægt að taka sér fyrir hendur. Meðal annars að aka bíl. Hann nafni minn tók hlutverkið mjög alvarlega og stýrði ábyrgðarfullur en svona bílferðir taka bara allt of fljótt enda. Hann fékk að fara aftur og svo vildi hann fara enn aftur. Þá var gerður við hann samningur; ein ferð enn og svo búið. Hann stóð við samninginn.
 
 
Í gær fórum við Valgerður í Gamla Stan. Við heimsóttum meðal annars fallega kirkju, mjög fallega. Hvort Guði var það þóknanlegast af öllu að menn legðu svo mikil verðmæti og vinnu í þessa kirkjubyggingu í stað þess að hlú að fólki sem var í nauð, ætla ég ekki að dæma um. En það verður ekki hjá því komist að þessar kirkjur skilja eitthvað eftir hjá manni eftir svona heimsókn. Það var byrjað á þessari kirkju á þrettándu öld og svo var hún að fá á sig mikið af núverandi svip á næstu 550 árunum. Hér er mynd af Valgerði í Dómkirkjunni í Gamla Stan.
 
 
Þau eru býsna þröng sum húsasundin í Gamla Stan.
 
 
Við Valgerður heimsóttum Rósu í vinnuna á Karolinska sjúkrahúsinu i Huddinge. Þær systur sýna þarna glatt yfirbragð en alvaran er samt ekki langt undan á þessari stundu. Hún Uhsa, indverskættuð kona og vinkona þeirra systra og nánast mín líka, lá þá á stofu ekki svo langt undan. Í gær fékk hún tilkynningu um að hún væri með krabbamein. Við hittum Uhsa en hún lét ekki deigan síga og talaði um að koma með Rósu í heimsókn á Sólvelli fljótlega.
 
Þetta sjúkrahús er svo stórt að það er eins og það sé sama hvar maður er þar staddur í gangi, þá er alltaf gríðarlega langt í enda ganganna. Margir svona gangar eru á hverri hæð og í lyftunni eru sýndar sjö eða átta hæðir. Starfsfólkið er sjö þúsund manns.
 
 
Þokkalega tímanlega í gærmorgun gengum við Valgerður undir þessa pílviði og þá voru þeir sannarlega líflausir. Þegar við gengum undir þá á leiðinni til baka þremur tímum síðar voru þeir sannarlega ekki aldeilis líflausir. Hreint ótrúlegt en svona bara var það.
 
Ég held að ég mundi ekki vilja eiga heima í Stokkhólmi en hann er góður heim að sækja. Ég þarf að taka margar svona gönguferðir þar og kynnast staðnum betur. Ellilífeyrisþegi ætti að geta látið það eftir sér.


Kommentarer
b

Gott blogg eins og alltaf kæri mágur.

2013-05-03 @ 12:14:25


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0