Lífið springur út

Ég fylgdist ekki nógu vel með í gær. Svo voru grannarnir að segja mér í dag að það hefði verið 22 stiga hiti. Af manni sem er jafn oft búinn að tala um þrá sína til vorsins og ég hef gert, þá er þetta auðvitað bara kæruleysi og vanþakklæti að taka ekki eftir þessu. Að vísu var ég að mála dyra og gluggaáfellur og gerefti innan húss í gær en það er engin afsökun. Nú er þessari málningu lokið og vel var það unnið. Í dag var hin árlega hátíð hjá mér (eða hitt þó heldur) að raka þykku lagi af rotnuðu laufi úr skurðinum þar sem frárennslið frá húsinu fer eftir hreinsunarferlið. Ekki fannst mér það frítt við lykt en ég veit ekki hvað var rotnunarlykt af laufi eða lykt af frárennsli.
 
Ekki er það nú sjarmerandi tal þetta, og þó. Ég var á skyrtunni og svitnaði. Það var góðs viti. Svo þegar ég var búinn að fara vandlega í sturtu og komin í hrein föt leið mér eins og ég væri nýr maður. Skítverkinu var lokið og ég tók eftir því að trén hafa laufgast afar mikið í gær og í dag. Ég var aldeilis hugfanginn af góðleika tilverunnar og tókst nokkurn veginn að helga mig því að það væri gott að vera til. Svo fórum við Lennart nágranni inn í Marieberg til að kaupa fataskápa í Bjargsherbergið.
 
 
En meðan við vorum í Marieberg héldu þessi vinalegu og hreinlegu blóm að brosa við sólu og þau heita skógarsóleyjar. Ég veit ekki alveg hvað ég á að segja en eitthvað á þá leið að mér dettur í hug vinátta þegar ég horfi á breiðurnar af skógarsóleyjunum. Að draga upp gardínurnar á morgnana og sjá úti á skógarbotninum að þær eru mun fleiri en í gær, það bara hlýjar hjartanu. Vitsippa heitir þetta blóm á sænsku.
 
 
Horfandi yfir stærra svæði getur skógarsóleyjabreiðan litið þannig út. Ég þorði ekki að bíða til morguns, en þó grunar mig að þessi breiða verði ennþá þéttari á morgun. Rauða húsið sem við sjáum í þarna er geymsluhús hjá nágrönnunum.
 
 
Svo er komið að beykinu, þessu eftirlætistré mínu. Ég heimsótti nokkur þeirra í dag. Brumið sem liggur þarna á fingrum mér er orðið yfir fimm sentimetra langt. Þá fer alveg að koma að því að það bresti. Ég tók nokkrar myndir til að fá eins og eina góða mynd og þegar ég var búinn að spígsspora hringinn í kringum tréð tók ég eftir nokkru.
 
 
Græni liturinn var að brjóta sér leið út og mér fannst á svipaðan hátt og kjóaungarnir fyrir sextíu árum á aurunum fyrir neðan Kálfafell. Ég reyndi einu sinni að hjálpa unga að komast út úr eggi og braut svolítið af skurn frá nefinu á honum af mikilli nærgætni. En það passaði ekki að grípa svoleiðis inn í feril náttúrunnar og sá ungi drapst. Í dag horfði ég bar á þetta með lotningu í lófa mér og gerði engar tilraunir til að hjálpa við fæðinguna. Myndin er hreifð eða ekki í fókus, en á þremur brumum má þó greina græna litinn á oddinum á bruminu. Og vitið þið bara; þetta var á sömu grein og ég sá fyrstu brumin springa út í fyrra. Það verður gaman að ganga út í fyrramálið og fylgjast með þessari hljóðlátu fæðingu.
 
Þannig er það hér á Sólvöllum. Það er margt fallegt að upplifa þessa dagana. Stóru bjarkirnar tvær sem eru sitt hvoru megin við bílageymsluhurðina á Bjargi og skurðgrafan sleit svo margar rætur af í fyrra, þær eru báðar í óða önn að laufgast. Það gladdi mig líka að sjá að þær stóðust raunina, alla vega enn sem komið er. Ég mun gauka að þeim góðgæti eftir bestu getu í vor til að bæta þeim upp skaða og kannski líðandi, hver veit.
 
 
*        *        *
 
 
 
Og nú allt annað. Efni þessarar myndar hefur leikið við huga minn í gær og í dag. Þetta er altaristaflan í Stórkirkjunni í Stokkhólmi sem við Valgerður heimsóttum í síðustu viku. Ég ætlaði að lesa um altaristöfluna en svo skrýtið sem það nú var, þá tókst mér ekki að sjá hversu gömul hún er. Helst vildi ég að hún væri mörg hundruð ára gömul því að þá gæti ég dáðst að handverki fyrri alda. Ég hef oft gert það í ýmsum kirkjum, en hef ekki getað gert það þarna. Þess eldri sem þessir vönduðu hlutir eru, þess meiri veður aðdáun mín. Með nútíma tækni er þetta svo einfalt, eða svo virðist mér alla vega.
 
Það er gefandi að fylgjast með vorkomunni og það er svo áhugavert að velta fyrir sér hvernig fólk hreinlega gat gert svo fallega og vandaða hluti fyrir mörg hundruð eða jafnvel þúsundum ára.


Kommentarer
Björkin.

Takk fyrir Sólvallafréttirnar mágur minn.Hugsum mikið til þín .Góða nótt og sofðu vel. Kveðja..

Svar: Góða nótt.
Gudjon

2013-05-08 @ 23:09:19
Björkin.

Takk fyrir Sólvallafréttir kæri mágur.Knús frá okkur.

2013-05-08 @ 23:21:49


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0