Að takast á við hlutina

I morgun renndi ég af einhverri rælni auga yfir fyrirsagnir að bloggunum mínum síðustu vikurnar. Ég man innihanld þeirra nokkuð þegar ég les fyrirsagnirnar, að minnsta kosti nokkra mánuði aftur í tímann. Þann 16. apríl var fyrirsögnin Ferðalok. Ég stoppaði við, vildi opna það en þorði ekki. Ég vissi hverjar afleiðingarnar yrðu og vildi ekki takast á við þær. Eftir nokkur augnablik vissi ég að þetta væri aumingjalegt af mér og svo opnaði ég bloggið og las. Afleiðingarnar urðu þær sem ég bjóst við.
 
 Lokaorð þessa bloggs voru: . . ."en Valdísar er sárt saknað nú þegar. Hins vegar byggist stærsta sorgin ekki á því að hafa misst, heldur á því að hún fékk ekki að taka þátt í því sumri sem við vorum búin að skipuleggja. Hún átti það svo sannarlega inni að fá að vera með."
 
Hvað veit ég svo um þetta sem ég sagði þarna? "Hún átti það svo sannarlega skilið að fá að vera með." En ég hef ekki hugmynd um hvað hún hefur fengið að vera með um í staðinn fyrir það sem til stóð hjá okkur í jarðlífinu. Kannski það sé bara eigingirni af minni hálfu að halda að hún hafi misst af einhverju. Síðustu símtölin sem við áttum saman bentu til þess að hún vissi að það væri bjart framundan. Ég vil ekki taka þá birtu frá henni.
 
Samt sem áður brýst sorgin undan slæðu sinni bara þegar henni dettur það í hug. Ég er hins vegar búinn að læra það að slæðan breiðir sig af mildri miskun yfir sorgina á ný og eftir stendur sterk löngun til að gera góða hluti, verða betri, taka þátt í lífinu og bæta það. Vera sáttur við allt og ekki skorast undan því að vera lifandi manneskja sem heldur áfram göngunni fram á við þangað til minn tími kemur.
 
Guð
gefi mér æðruleysi
til að sætta mig við það
sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því
sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
 
*        *        *
 
Sólin skín björt á hálfskýjuðum austurhimni og hitinn hefur stigið úr átta stigum í fjórtán á einum klukkutíma. Trjákrónurnar standa kyrrar en lauf á einstaka greinum bærist í andvara sem ekki finnst fyrir að öðru leyti. Eggjarauðan á undirskálinni austan við húsið hvarf í nótt, aðra nóttina í röð. Hver át veit ég ekki ennþá en það mun koma í ljós á sínum tíma ef þetta endurtekur sig nógu oft. Broddgöltur má það svo sannarlega vera. Í dag mun ég þurfa að vökva grænmetisræktina undir skógarjaðrinum sem búið er að leggja svo mikla alúð við að koma af stað.
 
Framhaldsspáin fyrir næstu tíu daga er góð en þó engin regluleg sænsk hlýindi. Veltigrænar trjákrónur eru enn að laufgast og eikurnar sem alltaf eru frekar seinar til eru komnar vel af stað. Askurinn sem laufgast síðastur trjáa stendur við sitt eins og venjulega og bærir ekki á sér. Mikið fallegur dagur er hafinn og ég ætla að taka þátt í honum.
 
Í kvöld verður það svo AA fundur í Fjugesta frá klukkann sjö til átta.


Kommentarer
Anonym

Já Lífið heldur áfram og slæðan er til staðar falleg skrif að venju

Svar: Takk og góðan daginn Auður.
Gudjon

2013-05-15 @ 09:24:05
b

Gott blogg elsku mágur.Góðan og blessaðan daginn.

Svar: Góðan daginn.
Gudjon

2013-05-15 @ 14:38:03


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0