Grjót og gróska

 
 Allar myndirnar hér fyrir neðan var ég búinn að vista inn á bloggið í gær og ég ætlaði að fara að skrifa. En þá bara var ég orðinn svo þreyttur að ég gat það alls ekki. Eitt og annað hafði komið inn í bloggáætlunina og dregið tímann fram undir miðnætti og þá var ég búinn að vera. En málið var bara að ég var svo ánægður með allt hér á Sólvöllum að ég var í bráðri þörf fyrir að tjá mig um það. En Óli lokbrá réði öllu hér áður en ég var búinn að fallast á það og ég varð að gefa mig.
 
 
 Hvað finnst ykkur? Er eldhúsið ekki snyrtilegt hjá mér? Nei, nú er ég að grínast. Ég fjarlægði allt af bekknum til að slípa hann og bera á hann olíu. Eftir þrjár umferðir með sólarhrings millibili taldi ég bekkinn vera vel vel búinn undir næstu mánuðina. En mér fannst hann bara svo fínn að ég tímdi ekki að nota hann í þrjá daga þar á eftir. Nú er ég búinn að setja allt á sinn stað og ég er svo ánægður með vel unnið verk. Stundum finnst mér að það hefði verið best að hafa bara harðplast á bekknum en þegar búið er að gera svona vel við eikina er hún virkilega fín. Það verður gott að vinna þarna við rúgbrauðsbakstur eftir Íslandsferðina.
 
 
 Þegar ég var kominn með stunguspaða, skóflu, haka og járnkall á staðinn fór hálfgerður hrollur um mig við að þurfa að grafa þennan 120 sm dúpa skurð fyrir nýju vatnsinntaki. Svo stakk ég fyrstu skóflustunguna og lenti samstundis á steini. En skurðinn gróf ég á stuttum tíma og var himinlifandi með það að yfir höfuð geta grafið svona skurð á mínum aldri. Það gerði ég fyrir viku eða svo. Tæpar þrjár hjólbörur af grjóti fékk ég þarna upp. Hún Stína nágranni spurði mig einu sinni hvort ég vissi hvað væri mest af í Krekklingesókn. Nei, það vissi ég ekki. Grjót, sagði hún þá.
 
 
 Í gær kom píparinn og lagði vatnið og svo gekk ég frá. Burt með allt grjótið, í skurðinn með nýjan sand og svolítið af mold með. Svo burt með afgangs mold, raka og gera fínt. Ræturnar sem ég þurfti líka að fjarlægja við gröftinn ætla ég að geyma um sinn, bara svona til að sjá að margt er sjötugum fært. Seinna í sumar ætla ég að brjóta niður efsta hluta brunnsins og fylla hann svo af sandi. Þá verður fínna bakvið húsið. Þetta atriði með vatnsinntakið var mér mjög mikilvægt að ljúka við.
 
 
 Svona er þetta nýja hús í dag, Bjarg, og um mánaðamótin júní-júlí kemur hann Martin gröfumaður og lagar kringum húsið. Ræsir fram bakvið húsið, fyllir að húsinu með perlumöl og síðan mold. Vegamöl setjum við í veginn. Martin er mjög flinkur gröfumaður með ótrúlegt verkvit. Hann er einn af þessum tækjamönnum sem ég vil kalla listamenn og það sem hann gerir verður fallegt. Þá verður mikil breyting á staðnum Sólvöllum. Ég hlakka til.
 
 
 En þrátt fyrir allt grjótið sem ég talaði um áðan, þá er gróskan með ólíkindum. Stóra tréð er hlynur og hlynir eru afar falleg tré þar sem þeir þrífast vel. Litla tréð aðeins til vinstri er hlynur sem ekki er einu sinni kominn á fermingaraldurinn. Ennþá minna tré aðeins til hægri er eik. Toppurinn á þessari eik hefur verið bitinn niður af elg eða dádýri þó að það sé aðeins 20 metra að baki húsinu. En eikurnar jafna sig að lokum og rétta sig og laga. Hvort þessi eik verður seinna valin til ásetnings fer eftir því hvernig öll tré í heild vaxa þarna og þróast þegar fram líða stundir.
 
 
 Tréð með blómunum er hestkastanía. Við keyptum hana á öðru eða þriðja árinu okkar hér. Ég man vel þegar við gengum með þetta tré sem mannhæðar háa, afar fallega plöntu út úr gróðrarstöð í Örebro, að þá heyrðist í fólki sem næst var; vááá, vilket fint träd. Okkur Valdísi leiddist það sko alls ekki. Há björk trónar svo langt upp yfir kastaníuna að baki henni.
 
 
 Á mynd í fyrradag var stóra Sólvallaeikin næst mér þar sem ég var þegar ég tók myndina en nú er hún fjærst. Háu bjarkirnar þarna eru býsna veglegar, býsna mikið hærri en Sólvallahúsið. Þessar myndir tók ég í gær.
 
 
En í dag var ég að koma heim frá Örebro og var mjög ánægður. Vélsögin er búin að fá sinn stað og spillir ekki lengur snyrtimennskunni á Sólvöllum. Það var svo gott að sjá þetta. Ég varð að taka eina mynd í viðbót. Svo þarf bara að taka til hendinni við turninn hans Hannesar. Mála hann og fá á hann svart þak. Þá fellur hann inn í heildar myndina. Ég er ánægður með þetta og fer með góðri samvisku í Íslandsferð. Ég var farinn að halda að ég kæmist ekki yfir það sem ég ætlaði mér en það hefur nú tekist að mestu. Innan húss vantar svolítið á það en það fer varla frá mér meðan á Íslandsferð stendur.


Kommentarer
Auja

Guðjón minn ég sé um innanhúsverkin áður en þú kemur til baka, Þórir sér um sláttinn og grannarnir um vökvun, alveg rólegur

Svar: Haha. Takk Auður. Ég er með ryksuguna í gangi, var bara að færa á milli tengla. Svo er eg að velta fyrir mér hverju ég gleymi.
Gudjon

2013-05-30 @ 21:46:41
Auja

Farðu nú að hvíla þig og hættu að þrífa!

2013-05-30 @ 22:01:15
Björkin.

Það gerist ekki flottara.Frábær fallegur og góður staður Sólvellir.Hlökkum til að fá ykkur öll.Góða ferð.

Svar: Takk fyrir.
Gudjon

2013-05-30 @ 23:01:12


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0