Kyrrð

Kyrrlátur er hann þessi morgun. Það er hljótt í Sólvallahúsinu og hinir hávöxnu nágrannar mínir bakvið húsið bærðust ekki þegar ég leit fyrst út. Síðan virðist einhver andvari hafa gert vart við sig því að nokkrir trjátoppar bifuðust örhægt um stund, svo varð allt kyrrt aftur. Það er alskýjað og hitinn er um 16 stig og fer hækkandi. Ég veit ekki hvort ég á að segja að það hafi rignt ögn í gærkvöldi og nótt eða hvort það rigndi talsvert. Skógarsóleyjarnar virðast hafa dregið sig saman en trén eru ánægð með lífið. Græni liturinn er sigurvegari morgunsins og beykitréð sem ég talaði um í bloggi í gær er orðið svo grænt að það sést héðan út um gluggann.
 
 
Að birta þessa mynd í gær af svo litlu var kannski að bera í bakkafullan lækinn og þar að auki er hún ekki í fókus. Í gær sá ég í sjónvarpsfréttum að fólk var úti í skógi að skoða fugla. Þar var maður með linsu sem ég gæti trúað að hafi verið upp undir hálfur metri á lengd. Hann var þýskur og var að leita að ákveðinni spætutegund sem hann hafði áhuga á. Í fyrra sá ég mynd af stoltum manni á vöðlum þar sem hann stóð á árbakka með veiðistöng og við hliðina á nokkrum silungum sen hann hafði veitt. Ég þekki líka mann í Lekebergshreppi sem á nokkra gamla bíla og rallýbíla. Eitt sinn brenndi hann upp einum gangi af dekkum á einum degi. Hann sagði að það hefði verið alveg rosalega skemmtilegur dagur.
 
Við erum mörg sem höfum okkar og ég hef mín beykitré og þær eru margar litlu svipbreytingarnar sem ég tek eftir en aðrir mundu ekki skynja. En þegar ég var búinn að skrifa þessar línur tók ég eftir því að það var allt um menn. Er það kannski svo að konur hafa minni þörf á að sýna heiminum áhugamál sín en við kallpúngar? Ég veit það ekki en ég veit bara að fljótlega fer ég fram í eldhus að elda mér hafragraut.
 
Mig hefur vantað mjöl til að geta bakað rúgbrauð en ég hef ekki farið í búð í nokkra daga. Því hefur baksturinn beðið í þrjú kvöld en ég segi oft að það þurfi ekki alltaf allt að vera til. Svo í gærkvöldi var ég að fara í gegnum það sem finnst í frystunum og viti menn; ég fann eitt rúgbrauð. Barnalega glaður setti ég það á borðið og á eftir hafragrautnum verður því te og rúgbrauð. Dagurinn í dag verður eins góður og ég geri hann til sjálfur.
 
Þegar ég var búinn að skrifa ofanritað fannst mér kominn tími til að líta á orð dagsins í Kyrrð dagsins. Þar segir Laó Tse sem var uppi á 6. öld fyrir krist að "Mesta uppgötvunin er kyrrðin". Já, það var ekki í gær sem þessi orð urðu til. Mikið er gott að þykja vænt um kyrrðina. Fyrir mig er það merki þess að ég sé ekki hræddur við að hitta sjálfan mig. Það eru lífsgæði. Svo finnast mér sniðugt að eftir að hafa skrifað þessar línur, að finna þá vísdómsorðin um kyrrðina í bókinni. Fyrirsögnin að þessu bloggi er auðvalin.
 
Sólin er að sigra skýin, fuglar ýmist syngja á greinum eða eru á ferð og flugi. Ekki mun blaðgrænan hafa á móti sólríkum degi og ekki mun ég hafa á móti hafragrautnum sem brátt rýkur á diski.


Kommentarer
Björkin.

Eigðu góðan dag mágur minn.Krammmmmmmmm.

Svar: Takk sömuleiðis mágkona.
Gudjon

2013-05-09 @ 13:21:41


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0