Ég settist niður og skrifaði

Ég settist niður og skrifaði blogg eftir kvöldmatinn. Svo veitti ég því athygli að bloggið var orðið nokkuð langt þannig að ég las það yfir til athugunar. Samt var ég ekki alveg búinn að skrifa það sem í huga mér bjó.
Mér féllust alveg hendur. Svona blogg bara birtir maður ekki hugsaði ég og fannst sem ég væri búinn að rugla þvílíkt og annað eins. Ég sparaði bloggið og fór út í skóg að tala við tré. Þannig fannst mér sem ég kæmist niður á jörðina aftur. Þegar ég kom til baka ákvað ég það sem er mjög skynsamlegt í svona tilfellum; að birta ekki en lesa aftur að morgni. Þannig standa málin varðandi bloggþáttinn.
 
Annars hefur dagurinn verið mjög sérstæður á jákvæðan hátt. Í dag kom píparinn sem ætlaði að koma fyrir sjö vikum að gera smá úttekt og í dag kom vörubíllinn sem ætlaði að koma í fyrrahsust með perlumölina. Í dag fékk ég símasamtöl sem ég hafði beðið eftir síðan fyrir helgi og í dag fékk ég ákveðið uppgjör sem ég hafði ekki beðið eftir en átti von á eftir nokkrar vikur. Að þetta dróst með píparann og mölina á sér sínar skýringar, skýringar sem voru mér til láns. Svo talaði ég við Tryggingarstofnun ríkisins í dag og varð aðnjótandi meiri lipurðar og hjálpsemi en ég hef nokkru sinni áður fengið þar.
 
Fleira get ég sett á plússíðuna eftir þennan dag og eiginlega var ég orðinn hálf ölvaður í eftirmiðdaginn eftir áhrifin af þessu öllu saman. Ég hef orðið meyrari með árunum, tilfinningarnar sveiflast og augun verða auðveldlega rök. Ég fann það þegar ég talaði við konuna hjá tryggingarstofnun og ég fann það þegar ég talaði við konu hjá sænskum skattayfirvöldum. Hún var líka svona hjálpleg. Það er nú meira hvað það er til mikið af góðu fólki. Hins vegar er bara talað svo mikið meira um fólkið sem sýnir hina hliðina.
 
Samt er það nú svo að það er mannbætandi að tala um góðu hliðina á samferðafólki okkar. Þó hefur mér ekki tekist það eins og ég vil. Kyrrð dagsins segir núna þann 21. maí: "Hamingjan hlotnast þeim sem sér ævintýrin í hversdagslífinu; hefur barnshjarta og einfalda sál." Mér líst vel á þennan vísdóm og ég tel mig sjá ævintýri í hversdagslífinu og svo tel ég mig líka óttalegan einfeldning. Það er nú best svo.


Kommentarer
Björkin.

Stundum er gott að vera smá meyr mágur minn.En líði þér sem best og góða nótt og sofðu vel.

2013-05-21 @ 23:21:10
Dísa gamli nágranni

Þetta er speki sem gott er að hafa í huga.
Kærar kveðjur úr Sólvallagötunni.

2013-05-22 @ 00:41:16


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0