Sunnudagsheimsókn

Ég endaði bloggið í gærkvöldi á því að segja að ég ætlaði að fara einn hring í skóginum og svo gerði ég. Það voru gaukar á tveimur stöðum sem virtust hafa einhvers konar samskipti með sínu go-gú hljóði, en þetta hljóð er einhvern veginn þannig að það er notalegt í kvöldkyrrðinni. Maurarnir voru þá enn á mikilli hreyfingu en þeir létu fótleggina á mér í friði. Ég stoppaði á nokkrum stöðum og virti mörg trén fyrir mér frá jörð og upp á topp. Kvöldið gerði það að verkum að þau virtust stærri en ella. Þau virtust mörg hver vera alveg gríðarlega stór. Nokkur stór grenitré sem við völdum til að lifa áfram þegar við grisjuðum árið 2006 og fengum efni í húsbyggingu, þau virtust hafa launað lífgjöfina vel og stækkað mikið. Svo er það líka þegar grisjað er og birtunni sleppt niður í skóginn, þá eykst vöxturinn svo um munar.
 
Það var gott að vera til þarna í gærkvöldi. Þegar ég kom til baka kveikti ég á sjónvarpinu, fannst ég þurfa að fylgjast aðeins með söngvakeppni. Þá stóð yfir einhver feikna mikil sýning með ljósum, glitter og glansi. Síðan hófst talning stiga. Á sama tíma hófst ferð mín um draumalandið. Þegar ég vaknaði aftur í stólnum var talningunni að vera lokið og ég bjó mig til áframhaldandi svefns á betri stað. Svo svaf ég í tæpa átta tíma. Það er mjög, mjög langt síðan ég svaf síðast fram undir klukkan níu að morgni. Ég er úthvíldur og minningar mínar um gærdaginn eru góðar.
 
Þetta skrifaði ég í morgun og svo fékk ég mér morgunverð. Nokkru síðar brast á heimsókn þeirra Rósu dóttur minnar og hennar Usha, indversku vinkonu hennar, en þær komu í eins dags ferð frá Stokkhólmi.
 
 
Ýsa var það heillin, matreidd af Rósu. Og veðrið bauð upp á útiborðhald. Usha gengur ekki heil til skógar og fyrir þá sem þekkja hana má greina það á þessari mynd.
 
 
Við brugðum okkur í skógarferð og í hinum litla Sólvallaskógi er hægt að taka eftir ýmsu ef rólega er farið og áhugi á gróðri er fyrir hendi. Þarna er Rósa að benda Usha á mauraþúfuna margnefndu sem veldur því að slóðin við fætur þeirra iðar af maurum sem eru önnum kafnir.
 
 
Hvað þær eru að spekúlera þarna er ég ekki viss um, en einhver planta er það gæti ég trúað. Umhverfið er gott enda nær iðandi lífríkið þarna upp í 20 til 30 metra hæð. Þar sem er svo mikið af hljóðlátu lífi ætti að vera gott að vistast.
 
 
En hér er spekúleringum alveg lokið. Usha tók allt í einu stjórnina og er hér komin á fulla ferð heim á leið. Hún vildi ekki fá stígvélin lánuð sem Rósa bauð henni og var á hálfgerðum sandölum. Mauramergðin var farin að gera hana órólega enda er ekki svo sniðugt að fá þá mikið á milli tánna. Þá eru stígvél betri. En þetta var allt í lagi. Einni hringferð um Sólvallaskóginn var lokið.
 
 
Það var komið að brottför eftir vel heppnaðan dag á Sólvöllum. Usha var ánægð með að hafa drifið sig í þessa ferð og það virtist hressa hana. Mér finnst alla vega þegar ég horfi á þessa mynd að hún sé mun hressari í útliti en hún var þegar hún kom.
 
Ætlarðu ekki að taka mynd af okkur með Kilsbergen í baksýn spurði Rósa. Jú, svo gerði ég það og árangurinn er góður finnst mér. Þakka ykkur fyrir heimsóknina stelpur mínar. Nú verður aftur ýsa í síðbúinn kvöldmat.


Kommentarer
Björkin.

Góð heimsókn sé ég.Góða nótt og sofðu gott.

Svar: Góða nótt
Gudjon

2013-05-19 @ 23:30:55
Þorsteinn Ólafsson

Þakka þér fyrir kæri vinur að leyfa okkur vinum þínum að njóta lífsins með þér.

Svar: Og þakka þér fyrir að þinn hlýi hugur finnst þarna handan hafsins Steini minn.
Gudjon

2013-05-20 @ 01:27:15


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0