Einbúi að troða nýjar slóðir.

Eitthvað var ég búinn að vera á rölti í morgun þegar Valgerður kom fram um klukkan hálf átta að ég held. Hún gekk beint að eldavélinni og setti bakarofninn á. Ég hafði ekki hugmynd um hvað hún hafði í huga og fékkst ekki meira um það. Nokkru seinna varð mér ljóst hvað til stóð.
 
 
Árangurinn varð þessi. Beikon og egg í morgunverð. Þessi morgunverður angaði aldeilis öðruvísi en hafragrautarlellan mín. Ég hélt því framhjá hafragrautnum í morgun og naut þessara kræsinga með Valgerði. Beikon og egg borðaði ég í fyrsta skipti í morgunverð í London um páska árið 1960 á heimleið úr misjafnlega skynsamlegri Majorkaferð minni. Beikon og egg hef ég oft borðað um dagana en ég held að ég hafi ekki borðað það í morgunverð öðru sinni fyrr en nú. Valgerður vildi greinilega skilja vel við mig, en ekki svo löngu eftir morgunverðinn lögðum við af stað á járnbrautarstöðina í Hallsberg þar sem hún steig um borð í lest. Hún var að leggja af stað heim eftir þriggja vikna dvöl og ég hafði á tilfinningunni að hún væri ekki alveg laus við áhyggjur af pabba sínum.
 
 
Það var góður tími á lestarstöðinni og ég skaust inn til að taka þessa mynd af henni. Svo flýtti ég mér út til að lokast alls ekki inni. Hefði ég farið af stað með lestinni hefði ég lent einhvers staðar vestur í Värmland og þá hefði það orðið býsna löng gönguferð fyrir mig til baka að bílnum.
 
 
Þegar ég kom út aftur leit ég á lestardyrnar og las þetta. Það kom í mig svolítill ferðafiðringur sem ég sló þó fljótt frá mér. Næsta ferðalag mitt verður til Íslands í byrjun júní. Eftir það get ég kannski hugað að einhverju öðru stuttu ferðalagi, en ég losnaði þó ekki alveg við hugmyndina um að ég ætti að fara í eitthvað stutt ferðalag eftir heimkomuna frá Íslandi. Kannski það verði bara Stokkhólmur þar sem ég get mælt gangstéttar undir feyki stórum trjákrónum og farið í ferjuferðir um skerjagarðinn. Það væri alveg mátulegt fyrir mig. Þar á ég líka góða heim að sækja þar sem Rósa og fjölskylda er.
 
 
Síðan gekk ég aftur með lestinni og þá birtist Valgerður þar og hún dró niður rúðu. Ég hélt áfram að hafa það á tilfinningunni að hún væri ekki alveg laus við áhyggjur af pabba. Ég gerði mér ekki grein fyrir því þegar ég tók myndina að ég mundi verða með á henni líka með myndavélina fyrir framan nefið.
 
Síðan leið lestin hljóðlega af stað og kveðjustundin á járnbrautarstöðinni var á enda. Ég gekk til baka í átt að bílnum með viðkomu í kaupfélaginu. Sjálfur hafði ég ekki áhyggjur af framtíð minni í þess orðs merkingu. Hins vegar á ég eftir að að laga mig að nýjum lifnaðarháttum sem einbúi þar sem ég verð að gæta þess að einangrast ekki. Treginn, sorgin og söknuðurinn munu fylgja mér langt inn í framtíðina og að einhverju leyti til frambúðar. Slæða sorgarinnar mun verða miskunnsöm og breiða sig yfir sársaukann, en eins og ég hef sagt áður; þá gliðnar hún við ýmis tækifæri, sleppir út tilfinningunni, en leggst síðan af mildi sinni yfir sársaukann aftur.
 
Ég á margt ólært í minni nýju stöðu í lífinu, ekki bara varðandi matargerð, þvotta og þrif. Þvottar og þrif eru mér ekki framandi en matargerðarkunnátta mín er meira á frumstigi en mun halda í mér lífi samt. Það sem ég á ólært fjallar meira um að vera sjálfum mér nógur á hugarfarslega og andlega sviðinu. Að hugleiða liðnar stundir og sjá verðmætin í svo mörgu sem við Valdís áttum saman lífinu, að læra af svo mörgu sem ég er að átta mig á í fari hennar en ég skildi ekki þá en er að sjá í dag að hafði þýðingu. Þetta þarf ég að læra og margt annað. Ég tala oft um að verða fullorðinn og það er nákvæmlega það sem ég mun stefna að svo lengi sem ég held sönsum. Ég verð aldrei fullorðinn í þeirri merkingu sem ég legg í orðið en það er samt sem áður markmiðið sem ég stefni að.
 
 
Ég get ekki látið hjá líða að birta mynd sem ég fann á feisbókinni hjá honum Jónatan tengdasyni mínum.
 
Þessi mynd er tekin á góðum degi utan við Falun í Dölunum sumarið 1996. Þarna er Kristinn dóttursonur, þá Valdís, síðan Valgerður og Jónatan. Ég sé myndina í mikið öðru ljósi í dag en ég gerði fyrir meira en þremur vikum síðan. Þannig er það bara.


Kommentarer
b

Elsku mágur minn.Skil söknuð þinn mæta vel.Það er harmur í mínu hjarta líka sem ég er ekki að sætta mig við.En við erum sterk þegar á reynir,og hugsum til þeyrrar manneskju sem hefur styrkt okkar hjarta og kennt okkur hvað mannelska er.En huggun er í harmi þegar við hugsum um hvaða manneskju hún hafði að geyma.Guð blessi hana og þig mágur minn á erfiðum tímum.Góða nótt og sofðu gott ,,,eins og við systur sögðum alltaf í okkar tölfuspjalli fyrir svefninn.

Svar: Þakka þér fyrir og góða nótt.
Gudjon

2013-05-04 @ 22:25:23


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0