Síðasta myndin er afar mikilvæg

 
"Ég var örugglega ekki eins frjálslegur í háttum þá og ungi heimsmaðurinn á þessari mynd" sagði ég í bloggi í gær með annarri mynd. Ekki eins frjálsmannlegur í háttum þegar ég fór með honum Ingólfi Magnússyni á kaupfélagsbílnum út að Klaustri í fyrsta skipti. En nú að myndinni: Það var all mikið af fólki þarna inni á Max hamborgarastað í Örebro um helgina þegar Rósa keypti barnahamborgara handa Hannesi. En hann rölti um gólfið, alveg óþvingaður af nærverunni við ókunnugt fólk, spáði í kaðal sem skipti milli þeirra sem eru að koma að afgreiðslunni og fara frá henni með innkaupin í fanginu. Hann lyfti kaðlinum upp og lét hann hvíla á öxl sér, gekk út að glugga og spáði í fólk sem fór hjá. Stóran hluta af lífinu hef ég reynt að láta sem minnst á því bera að ég sé óöruggur og enn í dag koma upp tilfelli þar sem gamla tilfinningin kemur upp.
 
Það er stór munur á erlinum inn í miðjum Stokkhólmi og erlinum í Örebro. Þar á eftir er svo erillinn á Sólvöllum þar sem það er ekki tiltökumál að fara út á nærbuxunum eða í hjólböruferð út skóg með afa, klæddan í jakka sem enn er betri jakkinn þegar kallinn fer í vinnuna. Eða bara að veltast í grasinu og skoða stórar bjöllur sem eru á stærð við litil vínber. Að hlaupa um berfættur og fara svo eina hundrað metra til Ölmu og Siw til að leika sér með þeim í sandkassa.
 
 
"Nú er ég svolítið lúinn og ég er ekkert feiminn við að setjast hérna í gluggann til að hvíla mig meðan mamma kaupir hamborgarann". Ég geri honum upp orðin hérna.
 
 
Um daginn bardúsuðu þær þarna systur, Rósa og Valgerður, byggðu og baukuðu. Fyrir nokkrum vikum birti ég mynd af þeirri vinnu á blogginu. Eitt erindi Rósu á Sólvelli núna um helgina var að planta út innisáningu. Hannes var með en kannski ekki alltaf til hjálpar. Þarna að morgni dags i sterku sólskini, en vindi og engum hlýindum, voru þau að gera úttekt á öllu saman. Þau þurftu að vera vel klædd þrátt fyrir sólskinið.
 
 
"Sjáðu afi! þarna!"  held ég að Hannes hafi sagt. Þarna liggur slanga út í skóg og maurarnir nota hana sem hraðbraut og þó allra mest sem brú yfir skurð sem þarna er. Það var spennandi og mikið, mikið áhugavert fyrir Hannes.
 
 
Þeir sem eru Þarna hægra megin eru á leiðinni til vesturs en þeir til vinstri eru á leiðinni inn í skóginn. Sjálfsagt eru þeir sem eru á leiðinni inn í skóginn búnir að finna eitthvað alveg bráð nauðsynlegt í risa mauraþúfuna sem er eina hundrað metra frá þessum stað. Það er mikið í gangi hjá þeim og ég finn að við Hannes eigum mikið eftir órannsakað í þessu atferli mauranna. Slík rannsókn skemmir engan. Áhugi hans á þessu var mikill og það gladdi mig verulega og örugglega mömmu hans líka. Hún tók myndirnar.
 
 
Tveir lærlingar. Rósa er með myndavélina og stjórnar pönnukökugerð. Fyrir ekki svo löngu sagði ég við Valdísi að ég þyrfti að læra af henni og baka með henni pönnukökur. Þann dag bakaði hún pönnukökurnar í laumi og kallaði svo á mig í kaffi. Hún vildi bjóða mér upp á pönnukökurnar sínar sjálf en ekki láta mig baka þær. Nú fæ ég uppskriftina hennar hjá Rósu í staðinn. Pönnukökurnar hennar voru þekktar í héraðinu má segja.
 
 
Að lokum: Hannes kemur svo oft á Sólvelli að hann varð auðvitað að fá sinn dótaskáp. Það sem áður var í þessum skáp er nú komið í skáp út á Bjargi. Svo keyptum við skúffur í hann um helgina. Hannes virtist skilja vel að hann hefði fengið sinn samastað fyrir sína hluti og var ánægður með að losna nú við ólánlegan plastkassann sem stóð svolítið eins og illa gerður hlutur út við vegg. Mér var mikið í mun að þetta kæmist í lag í þessari ferð og það var svo gaman að verða þess var að hann gladdist yfir skápnum sínum. Svo hjálpaði mamma honum að koma hlutunum fyrir.
 
Það er mikil breidd í lífinu hjá þessum unga manni, honum nafna mínum, og það er mikið að varðveita og fara vel með hjá dreng sem ekki er orðinn fjögurra ára. Það má mikið vera ef Astrid Lindgren talaði ekki um það að kærleikurinn væri börnunum mikilvægur.
 
 
Og hér stendur það. "Gefðu barni kærleika, meiri kærleika og ennþá meiri kærleika. Þá koma mannasiðir af sjálfu sér." Svo skrifar hún undir þetta, konan sem skrifaði svo ótrúlega mikið, hollt og fallegt fyrir börn.
 
Kærleikur er ekki bara að faðma og gefa góðgæti. Kærleikur er líka að kenna aga, en það er nefnilega ekki sama hvernig það er gert. Ég vildi óska að mér hefði sem oftast tekist að gera það með hógværð og virðingu fyrir börnunum mínum og viðkvæmum hjörtum þeirra. Mér tóks það alls ekki nógu oft.
 
Sannleikurinn er sagna bestur og hreinskilnin er skilyrði fyrir mannlegum þroska og góðum persónuleika. Ég reyni enn að vinna að eigin framförum.


Kommentarer
Björkin.

Gott blogg og gaman að lesa.Góða nótt mágur minn.

2013-05-13 @ 22:40:38


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0