Álfar í skóginum

Það var um miðja viku sem ég fór einn hring í skóginum í blíðskapar veðri en  þó engum hlýindum. Allt í einu fann ég á mér að mér var veitt eftirför. Ég leit við og sá tvo skógarálfa fylgja mér eftir.
 
 
 Álfkonan rétti fram myndavélina og bað mig að taka mynd af þeim og það var nú líklega.
 
 
Svo þegar ég var búinn að taka myndina af þeim vildi hún líka taka mynd af mér. Það var hugulsamt og það var gaman.
 
 
Svo komu þessir skógarálfar aftur í dag og höfðu þá aðra álfkonu með sér. Þegar ég var búinn að skrifa þetta á fimmtudaginn var, að ég hefði verið út í skógi og fundið á mér að mér væri veitt eftirför, þá áttaði ég mig á því að ég hafði skrifað nákvæmlega það sama fyrir um það bil ári síðan, eða tveimur, og það var líka sama fólk sem um var að ræða. En mér finnst það ekki skipta neinu máli þó að ég hafi sagt nákvæmlega það sama í fyrra, eða hitteðfyrra. Það kemur ekki í veg fyrir að ég geti sagt það aftur núna. Frá vinstri Þórir, þá Auður og síðast Eva.
 
Þegar þau komu leit út fyrir skúr þannig að við fengum okkur kaffi inni. Þegar við vorum búin að drekka kaffið hafði ekkert rignt, það var vel hlýtt og við færðum okkur út. Það var hreina sumarblíðan eins og sjá má á myndinni. Að það væri hljótt nefndist oft þarna úti í blíðunni og það var svo sannarlega hljótt. Það var spurning hvort það fór einn bíll framhjá eða tveir þá dágóðu stund sem við sátum þarna í sólinnni. Ég sagði þeim frá því að það hefðu verið tvær klukkur í svefnbherberginu mínu og eftir því sem kyrrðin jókst hér heima urðu klukkurnar háværari. Nú eru þær komnar bakvið hurð með gleri og tikk takk hljóðið heyrist ekki lengur. Það var léttir.
 
Í Kyrrð dagsins eru mörg vísdómsorðin um þögn og kyrrð. Þann 14. maí sagði að "Þögnin getur haft voldugan hljóm." Mér finnst ég skilja þetta en samt get ég ekki útskýrt það. En mér finnst það eiga nokkuð skylt við það að eftir því sem kyrrðin varð meiri hér heima urðu hljóð klukkanna hærri. Það er mikil náðargjöf að geta notið kyrrðarinnar og þagnarinnar. Einum 15 mínútum eftir að þetta fólk fór byrjaði gaukurinn sitt go-gú út í skógi. Ég hefði svo gjarnan viljað bjóða þeim upp á að hlusta á það. Ég er stoltur af staðnum Sólvöllum og því sem hann getur boðið upp á, hvort heldur það er kyrrðin, hljóð gauksins eða annarra fugla og svo margt annað.
 
 
Álfkonan tók mynd af stóru mauraþúfunni um daginn. Þessi mauraþúfa er orðin afar mikil fyrirferðar, ég held sú allra stærsta sem ég hef augum litið. Og maurarnir eru sjálfsagt í margmiljónatali. Þeir koma alveg heim undir hús í verðmætaöflun sinni þó að þúfan sé eina 100 metra fá húsinu. Gönguslóðir eru þaktar maurum og ef maður stoppar á göngu sinni eru þeir fljótir að taka sig upp fótleggina. Ég skal viðurkenna að stundum finnst mér nánast nóg um. En ekki geri ég þúfunni samt neinn miska þó að mér blöskri. Það liggur ekki í eðli mínu að gera svoleiðis og það iðandi samfélag sem þarna lifir er ekki á mínu valdi að útrýma. Ég geri ráð fyrir að náttúran sjálf sjái um það að lokum. Ég las í sögu þegar ég var í Skógaskóla að öll voldug samfélög hefðu hrunið að lokum. Kannski það verði líka þannig að lokum með stórveldið mauraþúfuna austan við Sólvelli.
 
Ég þakka vingjarnlegum og einstaklega skemmtilegum skógarálfum fyrir heimsóknina í dag. Kyrrðin er algjör og góð hjá mér núna utan lágvært fuglatíst, en glaðvær heimsókn ykkar lifir með mér og mun fylgja mér þangað til félagsskapur Óla lokbrá leggur mig á koddann þegar þar að kemur. Fyrst ætla ég mér þó að fara eins og einn hring í skóginum og njóta stuttrar kvöldstundar með hljóðlátum vinum mínum þar úti.


Kommentarer
Auja

Takk Guðjón minn mikið er nú fallegt að vera álfkona

Svar: Já Auja, það er nefnilega þannig. Takk fyrir heimsóknina.
Gudjon

2013-05-19 @ 00:21:05
Björkin.

Gott er að eiga góða vini mágur minn.Góða nótt í kyrrðini.

Svar: Góða nótt.
Gudjon

2013-05-19 @ 00:50:18


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0