Nú er ég undrandi og þreyttur

Eftirfarandi skrifaði ég í gærkvöldi og undir sömu fyrirsögn, en þegar ég las það yfir fannst mér það svo mikið rugl að mér datt ekki í hug að birta það. Svo las ég það núna að morgni miðvikudags, breyti því ekkert og læt það fara út á veraldarvefinn.
 
 
 
Þetta hefur verið merkilegur dagur. Það hefur margt hent og allt jákvætt sem hefur skeð. Það bara varð allt í einu svo mikil ferð á hlutunum á síðustu skrefunum að markinu og ég átti alls ekki von á svo mörgu í dag. Rólegheita maður kom hér nokkru fyrir hádegi, pípulagningamaður sem ætlar að hjálpa mér að tengja nýtt vatnsinntak í húsið. Hann skoðaði skurðinn sem ég gróf í gær og aðrar aðstæður, skrifaði niður það sem hann þarf að koma með og var mikið þakklátur fyrir að vera boðið upp á kaffi.
 
Svo sátum við yfir kaffi og rúgbrauðssneiðum sem ég hafði skorið á disk. Pípulagningamaðurinn tók eina sneið og lyktaði af henni. Heyrðu, sagði hann, ég hef smakkað þetta áður hjá ykkur, ég þekki það á lyktinni. Já, það gat vel verið en sniðugt fannst mér að það var lyktin sem hann þekkti. Svo alt í einu rúlluðu inn símtöl og mér varð hugsað hvers konar eiginlega rennsli væri á hlutunum á þessum degi. En píparinn beið meðan ég talaði í símann og svo spjölluðum við áfram.
 
Þessi pípulagningamaður er einn af þeim fáu iðnaðarmönnum sem ég hitti og liggur ekki þessi ósköp og skelfing á. Ef hann skrifar þann hálftíma sem hann sat hér við matarborðið þá hef ég alveg efni á því. Mér finnst að fólk eigi að geta spjallað svolítið saman. Meðan við sátum þarna hugsaði ég til hans Mattíasar smiðs á Breiðabólstað á Síðu sem gjarnan stoppaði þegar fólk gekk hjá, tók með köllunum í nefið og ræddi aðeins gang lífsins. Það er stutt síðan ég las skrif tiltölulega ungs manns um Mattías. Þeim unga manni þótti tímarnir góðir þegar menn tóku sér stundir til að spjalla. Ég er honum sammála. Spurning hvort það er ekki nákvæmlega það sem heitir lífsgæði. Það er að lifa lífinu núna.
 
Svo gengum við út að bíl, ég og píparinn, og skoðuðum höggborvél sem hann ætlaði að lána mér. Og hvað skeði ekki einmitt þá? Jú, vörubíllinn sem ætlaði að koma í fyrrahaust með perlumöl kom þarna allt í einu fullhlaðinn möl. Ég pantaði þessa möl í fyrrahaust en það gleymdist að koma með hana. Svo minnti ég á pöntunina en daginn eftir fór að snjóa og þá afpantaði ég. Svo pantaði ég aftur í gær og þarna kom hann ljóslifandi með þetta líka fallega efni. Hér hef ég bara nefnt fáein atriði af því sem gekk upp í dag.
 
Þegar píparinn og vörubíllinn voru farnir gekk ég inn, tók bréfið frá Tryggingastofnun, leit á það og undirbjó mig að hringja í þá stofnun sem mér hefur fundist erfitt að hafa með að gera. Ég segi "fundist". Svo gekk ég að símanum, hringdi, og fékk samband nokkuð fljótlega. Yngri kona kynnti sig, kona með glaðlega rödd og bauð glaðlega fram aðstoð sína. Mér fannst þetta byrja vel. Ég byrjaði að tala um bréfið merkt Valdísi og sagði að því bréfi væri ekki hægt að svara. Henni þótti leiðinlegt að þetta bréf skyldi hafa borist en ég sagðist ekki vera sár út af því.
 
Þá var komið að bréfinu til mín. Ég átti að fá tvo votta til að skrifa á skjal til að sanna að ég væri á lífi. Ekkert mál. Ég sagðist mundu gera það. Síðan fór ég að tala um ellilífeyrinn minn sem ég hef reyndar aldrei fengið greiddann vegna of hárra tekna. Ég sagðist alltaf vera í hálfgerðum vandræðum með skýrslugerð til þeirra sem þarf að gera tvisvar á ári. Það eru margir svaraði hún. Ég kem til Íslands í byrjun júní sagði ég henni, og þá bara segir blessuð konan að það megi hjálpa mér við þetta.
 
Nú var ég orðinn svo stein hissa á hjálpseminni og þessu þægilega viðmóti að ég var orðinn gráti nær og fékk samviskubit yfir að hafa oft talað neikvætt um Tryggingastofnun. Þegar tárin voru að byrja að renna sagði ég einfaldlega; "hvað þú ert hjálpleg". En svo bætti ég við í geðshræringu minni; "mér þykir bara vænt um þig". Þegar ég heyrði rödd mína segja þetta skildi ég að ég hafði farið yfir mörkin. Ég veit mín mörk þegar ég tala við fólk, en stundum get ég orðið svo ótrúlega klaufalegur. En hvað skeði? Jú, konan bara þakkaði ánægð fyrir gott hrós og var alveg ákveðin í að hjálpa mér þegar ég kæmi til Íslands. Hún gaf mér upp nafn sitt og símanúmer sem ég skyldi hringja í og panta tíma. Svo sagðist hún skyldi taka á mér púlsinn til að sanna að ég væri á lífi.
 
Jahérnana hér.
 
Að þessu loknu fór ég að tína saman það sem ég þyrfti að hafa með til Tryggingastofnunar. Ný innkomið bréf um sundurliðun sænska ellilífeyrisins fann ég alls ekki. Líklega hafði ég hent því í því bréfahafi sem hefur verið í kringum mig undanfarið. Þá hringdi ég strax í sænsk ellilífeyrisyfirvöld og bar upp erindi mitt. Nákvæmlega jafn lipur kona og sú sem ég hafði verið að tala við skömmu áður svaraði, sló inn persónunúmerinu mínu og skoðaði upplýsingar um mig. "Það er nú ekki málið, ég sendi þér nýtt bréf sem þú getur notað á Íslandi", sagði hún. Lipurð hennar lýsti upp herbergið þar sem ég sat framan við tölvuna. Ég þakkaði henni fyrir sitt góða viðmót og hjálpsemi en hafði svo gát á frekari orðaflaumi.
 
Nú þegar dagur er kominn að kvöldi er ég undrandi og þreyttur, og ég segi aftur undrandi. Ögn ringlaður og tómur í höfðinu. Ég er svo heppinn að hafa lítið hlustað á heimsfréttir og aðrar fréttir í dag. Þær eru svo sjaldan um hjálpsamt samferðafólk eða glaðlegar raddir.
 
Þegar ég hafði skrifað þetta gekk ég út í skóg til að ná áttum og ég fann að mér þótti vænt um marga.


Kommentarer
Björkin.

Gott blogg kæri mágur.

Svar: Takk mágkona.
Gudjon

2013-05-22 @ 13:41:46
Þórlaug

Það þykir líka mörgum vænt um þig Guðjón.

Svar: Eitthvað kipptist við innra með mér þegar ég las þetta. Það þarf líka gott hjarta til að segja svona Þórlaug.
Með bestu kveðju til ykkar frá Guðjóni
Gudjon

2013-05-22 @ 15:43:00
Guuðmundur Ragnarsson

Ég tek undir orð Þórlaugar; fleirum en þig grunar þykir vænt um þig og þykir erfitt hve langt þú ert í burtu. Vinir, sem hugsa hlýlega til þín og langar að klappa þér á bakið.

Svar: Þakka þér fyrir Guðmundur minn. Fallegu orðin hlýja.
Gudjon

2013-05-23 @ 23:55:29


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0