Að leggja niður slæman vana

Í gærkvöldi talaði ég við hann Gísla ráðgjafa hjá SÁÁ. Við unnum sman í Svartnesi á árunum 1994 og 1995. Gísli var mér hjálplegur á mínum bernskuárum sem ráðgjafi og enn í dag man ég ýmsan þarfan fróðleik sem hann gaukaði að mér og varð fastur vani hjá mér að nota. Svo gat hann líka verið þarflega hreinskilinn. Eitt sinn þegar ég átti að halda fyrirlestur sem ég hafði aldrei verið með, gekk mér undirbúningurinn mjög erfiðlega og það má segja að þar stóð léleg málakunnátta verulega í vegi fyrir mér. Það voru þungir og erfiðir tímar meðan ég var að komast inn í málið og stundum bara komst ég ekki yfir allt sem ég þurfti.
 
En varðandi þennan ákveðna fyrirlestur, þá spurði Gísli mig hvernig ég væri undirbúinn. Ég hefði vissulega getað logið einhverju en gerði það ekki. Ég svaraði í samræmi við það að sannleikurinn er sagna bestur og sagði eins og satt var að ég væri algerlega óundirbúinn. Þá sagði Gísli af sinni alkunnu hógværð: "Það verður lélegur fyrirlestur." Hann þurfti ekki að segja mér það. Ég gat alveg sagt mér það sjálfur, en rétt hafði hann fyrir sér. Svo hélt ég fyrirlesturinn og mig minnir að ég hafi sagt einhverja sögu úr eigin lífi.
 
En þegar ég byrjaði bloggið var það alls ekki þetta sem ég ætlaði að segja. Það sem ég ætlaði hins vegar að segja er búið að koma upp í huga mér hvað eftir annað síðan við töluðum saman í gær.
 
Við Gísli vorum nágrannar í litlum bæ á afar fallegum stað, en þessi bær heitir Svärdsjö. Svärdsjö er mitt á milli Falun í Dölunum og Svartness þar sem við unnum. Tæplega 30 km leið var á milli þessara staða. Við Gísli ókum þessa 30 km oft á tíðum saman, stundum á mínum bíl og stundum á hans. Þetta voru notalegar stundir og við ræddum margt og oft á tíðum voru þetta miklar lærdómsstundir fyrir mig. Gísli sat mjög makindalega í farþegasætinu þegar við vorum á mínum bíl og gjarnan með hendurnar framan á maganum og þá fléttaði hann saman fingurna.
 
Eitt sinn þegar við vorum á leiðinni í Svartnäs varð Gísla að orði: Heyrðu Guðjón, ef læknirinn mundi segja þegar við komum upp í Svartnäs að þú munir deyja á morgun, þá hugsa ég að þú mundir segja; "já, ég veit".
 
Fjandans Gísli hugsaði ég og skildi sneiðina umsvifalaust og ég seig hljóður niður í bílstjórastólinn. Gjóandi augunum á hann sá ég að hann hafði hendurnar framan á maganum og var með fingurna samanfléttaða. Ég bara fann það á einu augabragði að þetta var rétt hjá honum. Ég hafði rosalega óskemmtilegan óvana og það var að vera alltaf að segja; "já, ég veit". Hvílíkur ósiður! Fjárinn sjálfur! Ég verð að venja mig af þessu. Hvers vegna þarf ég alltaf að vera að láta fólk halda að ég viti alla skapaða hluti. Úffff! Ég vissi að þetta var afleiðing af óöryggi og lélegri sjálfsmynd. Ég yrði að hætta umyrðalaust að segja "já, ég veit", og ég yrði að vinna ötullega að því að bæta sjálfsmynd mína.
 
Að skapa með mér innra öryggi og bæta sjálfsmyndina gerði ég á margan hátt og það yrði of langt mál að fara út í það í bloggi. En einn þátt í því vil ég þó nefna og þann sem ég setti fyrst af öllu í framkvæmd. Ég varð að halda miskunnarlaust áfram að þjálfa mig í sænskunni og gera mér þar með auðveldara að hafa samskipti við Svíana. Þá ætti ég líka auðveldara með að vanda fyrirlestrana mína og almennt að uppfylla skyldur mínar sómasamlega. Svo gæti ég tamið mér meiri hógværð þar sem ég þyrfti ekki í tíma og ótima vera að grípa fram í fyrir fólki til að láta ljós mitt skína og til að segja "já, ég veit". Ég vissi að það væri auðveldasta leiðin til að vera leiðinlegur og ég yrði að ryðja því úr vegi.
 
Þakka þér fyrir þetta Gísli minn. Þú gerðir þetta á ótrúlega fínan hátt þó að ég reiddist þér í augnablikinu, og þetta voru orð í tíma töluð. Álpist ég til þess enn í dag að segja "já, ég veit", sem ég tel þó að skeði afar, afar sjaldan, þá minnist ég þín alltaf Gísli vinur minn.
 
 
Það var þetta landslag sem við ókum gegnum á leiðinni Svärdsjö - Svartnes.
 
Þessi stóra kirkja er í litla samfélaginu Svartnäs og ósjaldan sat ég þar og velti fyrir mér hvað í ósköpunum ég hefði verið að gera með því að flytja til þessa lands. Spennandi var það og ég fékk aldrei fram að það hefði verið misráðið. Sannleikurinn er sá að mörg fyrstu árin eftir að við Valdís fluttum til Svíþjóðar áttum við okkar bestu ár.


Kommentarer
Björkin.

Gott blogg að venju.Góða nótt mágur minn og sofðu vel.

Svar: Þegar ég les þetta er kominn dagur svo að ég segi bara góðan daginn.
Gudjon

2013-05-26 @ 01:12:33
Þorsteinn Ólafsson

Þú hefur alltaf frá því að ég kynntist þér 1979 geta komið orðum að hlutunum.
Eftir að þið Valdís fluttuð til Svíþjóðar hugsaði ég stundum hvað þið hefðuð valið vel með því að flytja þangað en ekki til Reykjavíkur. Mín gæfa var að vera í sveit og eiga rætur í Gnúpverjahreppi og sækja menntun og búa í Noregi í 11 ár. Koma svo og kynnast samfélaginu í Hrísey örlítið.
Hins vegar óraði mig ekki fyrir því að ykkar líf yrði eins gott og ég held að það hafi orðið í Svíþjóð.
Hafðu það alltaf sem best hvar sem þú ert kæri vinur.

Svar: Já Steini, eiginlega held ég að það hafi aldrei staðið til að við flyttum til Reykjavíkur. Atburðarásin síðustu mánuðina var þannig að það var eins og örlögin hefðu tekið fram fyrir hendurnar á okkur alveg frá árinu 1993 og þangað til ég var byrjaður að vinna í Vornesi. Vornes var mikilvægur hluti í lífi okkar beggja í meira en 17 ár og var undirstaða okkar efnahagslega. Megi þér einnig vegna vel Steini minn. Við munum hittast í næsta mánuði og hver veit nema þú eigir eftir að gista nótt á Sólvöllum.
Gudjon

2013-05-26 @ 02:38:27


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0