Að hæna að sér vini

 
Hvað í ósköpunum ætli þetta sé nú sem er hérna bakvið húsið? Jú, það er einfaldlega svo að í skálinni til vinstri er vatn en á undirskálinni til hægri er eggjarauða. Hannes Guðjón hefur undir höndum bók og þar segir eftirfarandi: "Leggðu út vatn, avakadó, kattamat og hrá egg. Þá áttu möguleika á að eignast vin sem vill búa í heimilisgarðinum þínum." Og vinurinn er: Broddgöltur. Ég byrjaði í gær og eggjarauðan var étin í nótt en hver það var sem át veit ég ekki. Verði broddgölturinn tíður gestur í þessu kemur að því að hægt verði að horfa á hann í róleghitum. Það væri mjög skemmtilegt.
 
Ég er búinn að skrifa á innkaupalistann bæði kattamat og avakadó. Af vatni hef ég nóg og egg til viku eða svo. Það er svo skemmtilegt að við broddgölturinn eigum það sameiginlegt  að nota það mesta af þessu. Það er aðeins kattamaturinn sem ég vil helst ekki leggja mér til munns. Hins vegar var ég eitt sinn sem oftar í búð og var að leita einhverju matarkyns í dós. Ég hafði meðferðis innkaupalista frá Valdísi. Svo var ég eitthvað utan við mig og leitaði mjög náið í stórum rekka en fann alls ekki. Eftir dágóðan tíma tók ég eftir því að ég var að leita að einhverju matarkyns handa okkur Valdísi í katta- og hundamatarrekkanum. Þá hefði Valdís hlegið ef hún hefði orðið vitni að þessu villuráfi mínu. En hvað um það; nú bíð ég eftir því að matargjöfin mín hæni að broddgeltina.
 
 
Það var hljóðlát kvöldgangan sem ég fór um Sólvallaskóginn eftir að ég hafði borðað kvöldmatinn og gengið frá. Ég byrjaði hér heimundir þar sem ég byrjaði að dást að beykutrénu sem er fyrir miðri mynd. Falleg er krónan hugsaði ég þó að ekki séu öll brum sprungin út. Til vinstri er nakinn stofn sem ber í bláberjabekkinn. Það er björk sem átti að fella í vor en þar sem ekki hefur allt gengið eftir á mínum bæ er ekki búið að hrinda því í framkvæmd. En þarna sést vel hvernig ung tré eru að taka við af þeim gömlu sem ekki fengu þá alúð sem þau þurftu á að halda á sínum yngri árum.
 
 

Þetta er lengra út í skógi. Vinstra megin er fura sem við frelsuðum úr ánauð vorveturinn 2006. Það voru greni- og reyniviðartré sem þjörmuðu að henni og eyðilögðu krónuna langt upp eftir trénu. Síðan við frelsuðum hana hefur þessi fura vaxið alveg makalaust mikið og gildnað að sama skapi. Þegar ljósið kemst að þessum  trjám launa þau ríkulega umönnunina og gleðja þann sem telur sig eiga. Fyrir miðju er beykitré sem ekki er komið eins langt og tréð á fyrri myndinni. Nokkur þessara trjáa sem við sjáum á myndinni eru há, yfir 25 metrar.
 
Þannig er staðan á Sólvöllum í kvöld. Það er kyrrlátt að vanda og kyrrlátara en verið hefur um áraraðir. Kvöldsólin var með mér á göngunni og lýstu upp skóginn á sinn sérataka hátt. Það hefur verið kaldara í nokkra daga, en eftir tvo daga á að hlýna verulega aftur og þá verður líf og fjör í ört vaxandi Sólvallaskógi.
 
 
Ps. Broddgölturinn hefur ekki látið á sér kræla. Með vökulum augum hef ég litið eftir því.


Kommentarer
b

Mikil gróska í Sólvallaskógi.

2013-05-15 @ 14:44:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0