Nátthrafninn

Núna um áttaleytið að morgni sunnudags gnauðar vestanvindur á vesturveggnum og samkvæmt veðurstofunni er átta stiga hiti. Ekki er það vorlegt en þó skín sólin björt á heiðum himni. Ég sagði vestanvindur, ekki hvassviðri eða neitt slíkt, en veðrið er ekki vorlegra en svo að skógarsóleyjarnar virðast hafa dregið saman hvítu blómin sín og halda sig til hlés ef hægt er að segja svo um blóm.
 
Það er skrýtið þetta með veðrið. Það er talað um hlýnandi veðurfar en svo virðist kuldatíð ráða á Norðurhveli. Og þó, það hefur líka verið talað um að hlýnandi veðri fylgi vaxandi veðurfarslegar öfgar. Samkvæmt skilningi Svía á veðurfari var síðasta sumar rigningasamt, sólarlítið og kalt. En samkvæmt mínum verursmekk var síðasta sumar gott fyrir gróðurinn bakvið húsið og hitastigið var oftast gott fyrir mig. Ég er heldur ekki viss um að við Valdís hefðum verið svo oft úti við ef hitinn hefði löngum stundum verið við þrjátíu stig.
 
Ég veit ekki hvers vegna ég er að setja á blað þessi orð mín um verðið. Og þó. Ég sakna þess að geta ekki þessa dagana gengið inn í skóginn og tekið grein á beykitré í hönd mér og horft á krulluð, glansandi, ungu blöðin í lófa mér. Sleppa svo greininni og ganga að næste beykitré og gera hið sama þar. Það er að lifa lífinu á einfaldan og mannbætandi hátt. Ég sakna þess líka að bláberjalyngið skuli ekki vera grænt. Þess í stað er það brúnt og það er vegna þess að eftir góð snjóalög sem skýldu jarðargróðri í vetur, þá hvarf snjórinn og frost kom aftur á auða jörð. Það verður lítið eða ekkert um bláber í suður Svíþjóð á þessu sumri.
 
Í gær kallaði ég hafragrautinn hafragrautarlellu. Ég ætti að biðja hann fyrirgefningar á þessu orðbragði þar sem hafragrauturinn hefur verið mér góður um áraraðir. Ég gæti skrifað langt blogg um hafragraut. Kannski hef ég gert það. Bloggin mín eru orðin 934 á undan þessu sem ég skrifa núna og ekki man ég allt sem stendur þar. Það er þess vegna sem þau eru mér heil mikils virði. En hvað sem því líður er klukkan farin að halla í tíu að morgni og ég ætla nú að elda hafragraut með rúsínum og abríkósum. Ég á ekki rjóma út á hann að þessu sinni enda þarf ekki alltaf allt að vera til. Síðan ætla ég að horfa á sjónvarpsmessuna.
 
 
 *      *      *
 
Það er komið kvöld á Sólvöllum og mikil kyrrð. Stakt dádýr er á beit neðarlega á gamla túninu vestan við húsið og fashaninn sem sjaldan stoppar rekur stöku sinnum upp skræki. Ég veit ekki hvað það þýðir, hvort það tilheyrir leitinni að lífsförunaut. Messan sem ég talaði um í morgun var ótrúlega góð. Það var endursýnd messa frá því í fyrra og temað í messunni var Johnny Cash. Ég mundi vel eftir þessari messu og núna, alveg eins og í fyrra, varð ég hissa á því hversu trúaður maður hann var. Ég hef sáralítið skilið af textum hans hingað til, en þegar hægt var að lesa þá á sænsku á skjánum í morgun skildi ég tilfinningaþrungið, trúarlegt innihaldið. Hann átti ekki sjö dagana sæla en ekki var þó biturðinni fyrir að fara. Kannski hefur hann verið búinn að biðja æðruleysisbænina oft eins og sumir. Hún svíkur ekki.
 
Vestanvindurinn sem gnauðaði í morgun er þagnaður. Trén eru samt á hreyfingu ennþá. Gott ef það er ekki af gömlum vana. Veðurfræðingurinn spáði um tuttugu stiga hita í næstu viku og jafnvel upp í tuttugu og fimm á stöku stað. Þá fara nú kraftaverk náttúrunnar að leystast úr læðingi og kannski ég fái að taka litlu, krulluðu beykiblöðin í lófa mér í næstu viku. Ef svo fer mun ég ekki geta þagað yfir því.
 
Nú er mál að fara í bólið. Ég hef orðið að hálfgerðum nátthrafni upp á síðkastið. Það er að segja að ég kem mér varla í bólið fyrr en um miðnætti. Það er of seint fyrir kall eins og mig og ég á að hafa meiri sjálfaga en svo að ég sé að þvælast um seint á kvöldin. Ég finn á mér að í fyrramálið verður fallegt að sjá sólaruppkomuna þegar fyrstu geislarnir leita sér leiðar gegnum barrþykknið í austri.
 
Ps. Ég setti lika epli í hafragrautinn í morgun  -bara svo að allt sé á hreinu um mataræði mitt.


Kommentarer
Þórlaug

Sæll Guðjón.

Það er hafragrauturinn sem ég get ekki hugsað mér að borða. Jói borðar hann á hverjum morgni með bláberjum sem við tíndum í fyrrasumar og segist sjá mest eftir því að hafa ekki gert það alla æfina.

Kærar kveðjur,

Þórlaug

2013-05-06 @ 00:02:17
Björkin.

Góða nótt kæri mágur.Vonandi fer að hlýna og grænka.

2013-05-06 @ 00:07:38
Dísa gamli nágranni

Fallegt bloggið þitt að vanda. Já vonandi fer að vora.

2013-05-07 @ 00:42:25


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0