Uppstigningadagur á Sólvöllum

Ég var kannski ekki Guðrækinn í dag. Ég var að vinna á Bjargi við að setja upp skápana sem við Lennart nágranni sóttum í IKEA í gær. Að vísu las ég tvær síður í biblíunni í dag í tilefni dagsins. Það var endirinn á Jóhannesarguðspjalli og byrjunin á Postulasögunni, nokkuð sem fjallar um uppstigningardaginn. Að öðru leyti var ég dyggur nýbyggingunni en fór alls ekki hratt.
 
 
Þarna er búið að stilla skápunum upp og setja hurðirnar á, en ég á eftir að festa þá og kannski að stilla þá svolítið af í stæðum sínum. Öðruvísi skápar eiga að koma vinstra megin við fataskápana. Þegar ég verð búinn að ganga frá skápunum tæmi ég skáp inni á Sóvlöllum og þar með getur hann Hannes fengið heilan skáp fyrir dótið sitt og annað sem hann þarf að hafa aðgang að þegar hann dvelur í sveitinni.
 
 
Tengdasonur og tengdafaðir hjálpast að við að leggja parkett fyrir fáeinum vikum. Það er orðinn munur á í dag. Það miðar í rétta átt.
 
 
Ég er búinn að nota þessa mynd áður en ég nota hana aftur. Hún er frábær. Hannes ryksugar falsið áður en næsta panelborð verður lagt niður og Valgerður ljósmyndar aðstoðarmanninn.
 
 
Og til gamans. Þessi mynd mun vera frá í mars 2005 ef myndaprógrammið skrökvar ekki að mér. Ef einhver veit betur væri gaman að vita. Þarna er Sólvallahúsið nákvæmlega eins og það var þegar við keyptum það utan að við vorum búin að mála. Til vinstri á myndinni eru ung hjón sem bjuggu um tíma í Örebro, Þórarinn Þórarinsson og Guðrún Snorradóttir. Ég man ekki hver lágvaxna unga konan í miðjunni er, en svo koma þau Þórir Þórisson og Auður Dúadóttir og svo að lokum Valdís með reiðhjólakörfuna sína.
 
 
Beykið er komið af stað eins og fram hefur komið hjá mér áður. Takið eftir gamla laufinu sem enn er á trénu. Það fellur ekki fyrr en tréð verður nánast allaufgað.
 
 
Aðeins verður maður að handleika svona djásn, gæla svolítið við nýkviknaða lífið. Undir eru nokkrar skógarsóleyjar.
 
Þórir hringdi áðan til að vita hvernig Sólvallabúinn hefði það. Meðan við töluðum saman kom broddgölturinn lallandi fyrir húshornið og snuddaði bakvið svefnherbergið mitt. Þeir eru mikið skemmtileg dýr broddgeltirnir. Dádýr hefur verið á gamla túninu vestan við húsið í mest allan dag og fuglarnir hafa tíst og sungið og unnið vorverkin sín af eljusemi. Hjól athafnalífsins hafa sem sagt snúist hér í sveitinni í dag.
 
Á morgun koma Rósa og Hannes í helgarheimsókn. Þá þarf ég að vera búinn að gera matvælainnkaup svo að ég geti staðið mig vel sem gestgjafi. Að svo búnu ætla ég undir ullarfeldinn minn. Ég hef nú í nokkur kvöld drollað of lengi fram á kvöldið. Það verður gott að hlusta á regnið á leiðinni inn í svefninn.


Kommentarer
Auja

Gaman af þéssu myndin af okkur er tekin um páska 2005, þetta er Anna dóttir Þóris, man svo vel eftir þessari heimsókn

Svar: Þá stemmir það sem myndaprógrammið segir. Ég vissi að þessi stúlka var tengd ykkur en mundi ekki hvernig. Ég held að þetta hafi verið skemmtilegur dagur á Sólvöllum.
Gudjon

2013-05-09 @ 21:57:43
Jónatan

Flott. Er ekki sniðugt að setjaáfelluofan á skápinn upp í loftið til að minnka riksöfnun? ég sé það nú ekki á myndinni, en kverklistinn gæti etv. dugað.
kv
Jónatan

Svar: Jú, ég ætla að gera það. Sennilega að setja kverklista, fyrst lista ofan á skápana og svo kverklista. Ég setti líka kverklista aftan og ofan við skápana ef einhver í framtíðinni mundi taka skápana. Það getur orðið erfitt eftir kannski 30 ár að fá eins kverklista.Kveðja, Guðjón
Gudjon

2013-05-09 @ 23:35:55


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0