Vætutíð

Klukkan er á tólfta timanum á þessum sunnudegi. Morgunverðinum er lokið, sjónvarpsmessan er afstaðin en rigningartíðin gefur sig ekki. Ég get svo sem ekki neitað því að það er mikilvægt að hafa raka í jarðveginum einmitt núna þegar gróðurinn er að lifna við af miklum krafti, miklum krafti en hljóðlátum. Það er ótrúegt eins og það skeður mikið þegar allt er að koma í gang á vorin hvað það fer hljóðlátlega fram.
 
Þegar ég gróf fyrir bláberjarunnum á miðvikudaginn var, daginn eftir að ég kom heim frá Íslandi, þá kom ég á skraufaþurra mold á um sjö til tíu sentimetra dýpi. Ég reyndar skil alls ekki þau lögmál sem búa þar að baki að jörð sé þurr á þessu dýpi eftir um það bil fimmtíu millimetra regn á þrjátíu tímum eða svo. Það er aðeins eitt sem trúlega útskýrir þetta, en það eru nefnilega fimmtán til tuttugu metra háar bjarkir kringum svæðið þar sem ég gróf. Bjarkir eru gríðarlega drykkfelldar og þurrka upp svo lengi sem nokkurn dropa er að finna. Þess vegna ætla ég líka að fækka björkum kringum matjurta og berjaræktina. En nú ætla ég bara að drífa mig til verka.
 
Og ég dreif mig til verka og það er komið kvöld. Ég er duglegur við að skapa mér vinnu, kannski óþarfa vinnu, hver veit? Þegar ég gróðurset ávaxta eða berjarunna þá fylli ég holuna sem ég gref þannig að tréð komi að minnsta kosti tíu sm yfir landið í kring. Það sést á myndinni að þetta plómutré er gróðursett kannski eina fimmtán sentimetra yfir landið í kring. Síðan flyt ég að gróðrarmold og mýki þessa mishæð út og set hænsnaskít undir þá uppfyllingu. Þá tel ég mig vera búinn að fá góðan jarðveg ofan á grjótharða malarlagið sem hér er niður á 60 til 70 sentimetra dýpi. Þetta vann ég við í dag í drjúgri rigningu í dag.
 
Þarna er ég búinn að flytja samtals tuttugu hjólbörur að þremur trjám. Tvö eru eplatré lengra frá en það sem er nær er plómutré. Tréð sem er við kantinn vinstra megin er japanskt kirsuberjatré og er einungis blómanna vegna. Þetta tré var í blóma þegar ég var á Íslandi. Ég mun líka flytja mold að því til að það beri mikið af sínum bleiku blómum fyrir mig í framtíðinni. Það er ótrúleg blómaþekja sem þessi tré skreyta sig með á vorin.
 
En af hverju haga ég mér svona að vera að vesenast þetta í rigningu með níðþunga mold? Jú, það er vegna þess að fyrir og um næstu helgi gerir tölvuspáin ráð fyrir því að það verði sól og svo sem 17 stiga hiti. Ef það gengur eftir verð ég harla glaður að hafa fengið moldina á sinn stað þar sem hún verður fljót að taka sig þegar sólin tekur völdin. Þá verður gaman að jafna með garðhrífu og sá grasfræi. Ég var í moldarvinnu í rigningunni og ég veit líka um fólk sem var í golfi í rigningunni.
 
Og er ekki tilveran dásamleg? Þegar ég var búinn að moldast nægju mína fór ég inn og bakaði nokkrar pönnukökur og svo dreif að fólk. Ég sé ekki betur en það fari bara notalega um gestina mína.
 
Í morgun heyrði ég í skógardúfunum inn um loftventlana og þrestirnir héldu mér tónleika meðan ég var úti þrátt fyrir regnið, kannski frekar á lægri nótunum. Ungarnir eru horfnir úr hreiðri sem var í viðarskýli að húsabaki. En ég fann líka maga og garnir úr tveimur smáfuglum hlið við hlið á stíg úti í skógi áðan. Það er spurning hvort einhver kom fyrr í dag og fékk sér auðfenginn hádegisverð í hreiðrinu. Alla vega hef ég ekki séð neina unga á ferli hér í kring. Þannig er það. Ég borðaði líka kjúkling í vikunni. Einhvern tíma var honum slátrað svo ég gæti fengið mér góða máltíð og til að framleiðandinn gæti keypt sér eitthvað sem gerir lífið vert að lifa því -eða þannig.
 
Broddi er ekki enn kominn til að borða það sem ég er búinn að setja út fyrir hann og það er að detta á myrkur. Það er nú lag á ef hann er farinn að halda framhjá mér og éta af annarra borði. Ég finn nú að þung moldarvinnan í morgun er að taka sinn toll af þreki mínu. Klukkan er hálf tíu og lítið annað fyrir mig að gera en bursta og pissa. Ég  skipti um ver á koddanum mínum í morgun. Draumar mínir ættu því að verða þokkalegir þegar ég legg vangann á hreint línið.


Kommentarer
Auja

Takk fyrir okkur, og við leyfðum okkur að setja fætur upp á sófaborð eins og maður se bara heima hjá sér!!

2014-05-11 @ 21:48:49
Guðjón

Hjá mér á fólk að vera eins og heima hjá sér. Takk fyrir komuna. Nú er ég að lesa mig til um hvernig á að verka strömming, ég er að gera að fengnum sem mér barst meðan þið voruð hérna.

2014-05-11 @ 22:17:20
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0