Kannski var það bara gott á mig

Það lá við að mér fyndist ég ekki eiga það skilið þegar ég var að taka afrit til að færa til í blogginu mínu áðan og allt bloggið hvarf. Líklega eru hálfgerðir svefnórar í mér eftir mjög stuttan svefn í Vornesi í nótt og ég hefði bara átt að vera kominn í rúmið. Ég kom heim nokkru fyrir hádegi og ætlaði svo að flytja slatta af mold á vissa staði. Eftir tólf hjólbörur var ég uppgefinn, fór inn og útbjó mat handa mér. Þegar ég var búinn að borða fékk ég mér kaffi í bolla, settist ég í djúpan stól og kveikti á sjónvarpinu til að lesa textavarpið. Ég sá aldrei myndina koma á skjáinn en ég vaknaði snarlega þegar ég missti kaffið niður á lærið á mér og niður í stólinn sem ég sat í. Þar með var ekki drukkið svo mikið meira kaffi og afslöppuninni var snarlega lokið.
 
Ég hef ekki yfir nokkru að kvarta, er stálhrustur og fullfær i vinnu þegar á þarf að halda. Það liggja fyrir mér næg verkefni hér heima til að halda mér í formi og mér líkar alltaf jafn vel að virða fyrir mér það sem kemst í verk. Broddi er búinn að heimsækja mig tvisvar í kvöld, eða kannski eru það tveir Broddar. Á sunnudagskvöldið var hann ekki kominn þegar ég lagði mig og ég var orðinn afbrýðissamur, var hræddur um að hann væri farinn að halda framhjá mér og farinn að daðra við nágrannana. Þegar ég leit út í gærmorgun var maturinn þó horfinn. Þá létti mér þó að mig grunaði pínulítið að Broddi væri lauslátur og héldi við fleiri en mig.
 
En það er gaman að þessu og best að ég fari ekki að byrja á neinu bulli sem ég missi svo af skjánum og finni ekki aftur.
 
Þessa mynd tók ég út á móti trjágöngunum heim að Vornesi korter fyrir sjö í morgun. Hjúkrunarfræðingurinn Annelie er þarna að mæta í vinnu. Hringurinn í miðju hlaðinu verður orðinn mjög fallegur um helgina gæti ég trúað. Lauflausa tréð vinstra megin við trjágöngin er hengiaskur. Askur laufgast seinast af lauftrjánum og í skóginum norðaustan við Sólvallahúsið eru all margir askar. Það er eðalviður í askinum en hann er sem sagt seinn til. Hann fellir líka laufið fyrst allra lauftrjáa á haustin. Því er ég mátulega hrifinn af honum en hann eykur þó óneitanlega á trjáflóruna hjá mér.
 
Þetta eru runnarnir í græna hringnum í Vorneshlaðinu. Mér er ómögulegt að muna hvað þeir heita, en blómskipanin er eins og flugeldur sem er að springa þegar hún er í hámarki. Nokkra daga eru þessir runnar alveg makalaust fallegir og eftir það eru þeir bara fallegir.
 
Svo hef ég ekki hugmynd um hvað þessi runni heitir þó að ég sé búinn að sjá hann í blóma átjan ár í röð. Það má segja að hann er þakinn hvítri ábreiðu meðan hann er í fullum blóma. Næst þegar ég verð í vinnu í Vornesi, um 25. maí, verður blómgunin líklega farin að láta á sjá. Vornes er fallegur staður.
 
Það varð blogg samt sem áður en ekki stafkrókur af því efni sem ég tapaði af upphaflega blogginu. Nú er Óli farinn að kasta sandi í augu mín. Góða nótt.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0