Að segja brot af sannleikanum

Ég sat í lest á járnbrautarstöðinni í Stokkhómi í morgun og beið þess að hún legði af stað. Þar vistaði ég tvær myndir af mér og honum Birni skólabróður mínum. Önnur var af okkur ungum að árum og hin var tekin á Nauthóli í Reykjavík þegar við í árgangi 1959 frá Skógaskóla hittumst 55 árum síðar. Svo seig lestin mjúklega af stað og ég byrjaði að skrifa um það sem ég hafði hugsað mér. Eftir fáein orð rann penninn út af línunni og efnið sem birtist á tölvuskjánum varð með öllu ólíkt því sem til stóð. Það hlýtur að hafa verið best þannig því að ég komst ekki inn á línuna aftur og hafði heldur engn vilja til þess. Ég bara hélt áfram og nýjar myndir birtust fyrir hugskotssjónum mínum. Það var eins og það byggi mikilvægur tilgangur að baki myndanna sem birtust bakvið augu mín og þeirra orða sem birtust á skjánum. Svo leið lestin áfram og setningarnar runnu fram.
 
 
 
Ég er ekki alveg viss en ég reikna með að það hafi verið árið 1948 sem ég datt ofan af bekk í gamla skólanum sem eitt sinn var á Kálffelli, bernskuheimili mínu. Í fallinu dró ég með mér háan kolaofn sem lenti á litlafingri vinstri handar og mölbraut hann. Einhverjum klukkutíma síðar kom Esra Pétursson héraðslæknir á Kirkjubæjarklaustri á Villisjeppanum sínum með tvær læknatöskur. Hann byrjaði á því að deyfa hendina rækilega og síðan var ég lagður á matarborðið í gamla bænum á Kálfafelli með minna borð undir handleggnum og einhverju af áhöldum læknisins. Síðan hófgst aðgerðin. Það var enginn helikopter, sírena eða bláljós. Þetta var á afskekktum sveitabæ fyrir meira en sextíu og fimm árum.
 
Ég horfði af og til á Esra þar sem hann vann sitt verk og að lokum sagði hann mér að hætta að horfa á sig og horfa út um gluggann sem var hægra megin við mig. Ég gerði svo og stalst síðan til að horfa á hann af og til. Eitt sinn þegar ég leit til hans sá ég hvar hann beitti töng á fingurinn og færði hann síðan burt frá hendinni á tönginni. Það var þá sem ég tók ákvörðun sem átti nánast huga minn allan í tíu ár. Ég ætlaði að verða læknir.
 
Tíu árum síðar drakk ég áfengi í fyrsta skipti. Það var á leiðinni til Víkur á svokallað sjálfstæðismót sumarið 1958. Þar vorum við á ferðinni nokkrir brúarvinnufélagar sem vorum að brúa Skaftá við Skál. Það var enginn skipulögð ákvörðun af minni hálfu að drekka þarna en það fór svo. Það má segja að þetta fyrsta fyllerí mitt hafi gengið alveg ágætlega. Ég eiginlega áttaði mig ekki á því að ég var undir hrifum áfengis en ég fann að ég varð ófeiminn og þorði að koma fram á annan hátt, eiginlega eins og mig dreymdi um að geta gert í þá daga. Morguninn eftir sá ég mikið eftir þessu þar sem ég hafði verið mjög ákveðinn í því að ég, sjálfur læknirinn, skyldi aldrei smakka áfengi, ekki einu sinni vita hvernig það bragðaðist.
 
Þennan mogrun eftir mitt fyrsta fyllerí tók ég ákvörðun. Ég hafði fundið áhald sem gæti hjálpað mér. Ég ætlaði að drekka nokkrum sinnum þetta sumar, æfa mig félagslega, læra almennilega að dansa og drekka síðan aldrei meir. Ég drakk tvisvar sinnum aftur þetta sumar og fékk í magannn í bæði þau skipti. Ég er ekki viss um það hvar ég ældi læknisdraumnum, hvort það var í móunum sunnan og vestan við gömlu Þjósrsárbrúna þegar við vorum þar við málningarvinnu, hvort það var við Tungufljótsbrúna í Skaftártungu eða við Framneslækinn í Mýrdal. En alla vega; læknisdraumurinn hvarf. Ég saknaði hans sárlega í fjölda ára, jafnvel í áratugi.
 
Ég get ekki fundið nokkra ástæðu til þessa hvarfs aðra en þá að alkohól hafði gríðarlega fljótt skaðleg áhrif á mig, og svo fannst mér alla tíð í meira en þrjátíu ár þó að ég héldi áfram að drekka. Ég gat tekið þátt í asnalegum umræðum um að það þyrfti að þynna blóðið, að nota áfengi til að halda sér hressum, glöðum, til að forðast sjúkdóma, til að verða ekki sérvitur eða hver veit hvað, en mér fannst alltaf að alkohól færi illa með mig. Samt hélt ég áfram að drekka.
 
Alkohólismi er skuggalegur sjúkdómur.
 
Ég gat aldrei og get ekki enn í dag séð neitt jákvætt við alkohól, en ég hef orðið vitni að ógnarlegum áhrifum þess á einstaklinga og fjölskyldur og samfélög. Ég hins vegar dái það sjálfstæði sem mér hlotnaðist þegar ég náði tökum á drykkjunni þrjátíu og tveimur árum eftir fyrsta fylleríið mitt. Mér þykir vænt um, eða ég hreinlega elska það fólk sem að lokum réttir út fálmandi hendi í leit að hjálp þegar neyslan er búin að brjóta það nægjanlega niður og leggja til og með hið allra besta fólk að fótum sér.
 
Það er ótrúlegt hversu oft sjúkdómurinn þarf að slá fólk til jarðar til að það fái viljan til að takast á við drykkjuna og til að það skilji hvað það er sem er stærsti óvinurinn í lífi þess. Enginn tekst á við drykkjuna vegna þess að hann eða hún er svo skynsöm. Nei, það eru skuggalegar afleiðingarnar og vanlíðanin sem fær fólk loks til að opna augun. Það er svo ótrúlegt hvernig þessi sjúkdómur getur á lúmskan hátt fengið bæði gáfaðasta og besta fólk þessa heims til að ganga honum á vald, gersamlega óvitandi, og svo þegar við að lokum erum þar skiljum við ekki hvernig komið er. Það er alvarlegasta hlið sjúkdómsins.
 
Ég þekki sjáfur vonbrigðin, hræðsluna, nagandi óttann, biturðina, óöryggið, sjálfsvirðingarskortinn, dvínandi heilsuna, sektarkenndina, skömmina, dauðaangistina og djúpa sorgina ásamt svo mörgu fleiru sem fylgir sjúklegri áfengisneyslu. Það er ekki skrýtið þó að ég elski systkini mín í sjúkdómnum sem að lokum vilja brjótast út úr miskunnarlusu fangelsi hans. Það er heldur ekki skrýtið þó að ég vorkenni þeim sem ekki eru farnir að skilja ástæðu ófara sinna eða finna viljann til að brjótast út. Ég get líka reiðst fáránleikanum, en þegar ég er farinn að líta niður á fólkið sem verður fórnarlömb sjúkdómsins, þá veit ég að ég er á rangri leið. Samt skeður það og svo þegar ég átta mig þá iðrast ég.
 
Guð - gef mér æðruleysi
til að sætta mig við það sem ég fæ ekki breytt,
kjark til að breyta því sem ég get breytt
og vit til að greina þar á milli.
 
Edrúmennskan er mér heilög og ekkert í heimi hér má eyðileggja hana fyrir mér. Ef ég hefði ekki tekið ófrjálsa ákvörðun mína í janúar 1991, tekið ákvörðun sem lífið neyddi mig til að taka en ekki skynsemin, ákvörðunina um að biðja um hjálp, þá hefði ég orðið af með margt í lífi hér. Meðal annars lestarferðina sem ég tek þátt í núna á fögrum vordegi í landi skóganna. Ég hefði ekki heldur fengið að takast á við þau mörgu viðfangsefni sem fallið hafa á götu mína eftir að ánauðinni lauk, viðfangsefni sem ég hef fengið að takast á við í öðru landi án aðstoðar þess umhverfis sem ól mig upp. Það hefur verið mér mikils virði bæði í gleði og sorg. Það hefur fengið mig til að vaxa þó að ég sé einungis lítill maður og reikull í spori. Hefði ég hins vegar ekki tekist á við vanda minn væri ég síðan mörg ár til baka kominn undir græna torfu. Að deyja fullur olli mér alltaf mikilli skelfingu.
 
Nú er mál að pakka niður tölvunni þar sem Örebro er framundan. Svo les ég þessar línur yfir í kvöld eftir að ég verð búinn að ganga um í gróðrinum á Sólvöllum, heimsækja skóginn, leggja hönd á eitthvað sem ég hef unnið að, strjúka yfir hvítmálað húshorn, lyfta grein með nýútsprungnu laufi, vera til, horfa á fuglana og almennt að njóta þess að vera kominn heim. Líta á þessar línur og leiðrétta orð og orð, setja inn orð sem vantar og vera ánægður með þann mann sem ég er.
 
 
 
Nú er ég búinn að vera heima í nokkra klukkutíma. Ég er ekki farinn að skrifa um okkur Björn, vin minn og skólabróður, en hann er búinn að birta myndirnar á feisbókinni, þær sömu og ég sparaði inn á bloggið í morgun. Málefnið sem skaut upp kollinum þegar penninn rann út af línunni bara tók hug minn allan. Ég er búinn að lesa yfir það sem ég skrifaði á leiðinni og hnika til orði og orði. Það er spurning hvort það er þess virði að leggja sig að fótum heimsins eins og ég hef gert í þessum línum. Ýmis alvara lífsins hefur leitað á huga minn síðustu vikurnar og það hefur kannski verið driffjöðrin í því sem átti sér stað í lestinni í morgun. En eitt er víst að Meistarinn sagði fyrir tæpum tvöþúsund árum að sannleikurinn mundi gera okkur frjáls. Eitthvað innra með mér sagði í morgun að ég ætti að segja sannleikann. Ég hef oft gert það áður og birti líka þessar línur þó að þær séu bara lítið brot af þeim sannleika sem ég gæti sagt. Svo fer ég á AA fund annað kvöld og mun leitast við að segja sannleikann þar líka.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0