Smíðaeik

Sumar helgar í Vornesi eru erfiðaðri en aðrar. Helgin núna var ein af þeim. Eftir 40 tíma vinnu frá föstudagshádegi til mánudagsmorguns hélt ég heim á leið, ánægður með að vera búinn að ljúka þessu og líka ánægður með geta gert það án þess að ganga nærri mér. Landið var fagurt og frítt, laufgað, blómlegt, grænt, vingjarnlegt og bauð bara upp á það besta af því sem það á. Ég hlakkaði til næsta verkefnis sem var að saga tvo eikarstubba sem ég lagði til hliðar í vor, bara svona til að eiga sagaðan eikarvið úr sólvallaskóginum. Hann sögunar Mats ætlaði að koma klukkan eitt og sækja stubbana.
 
 
Og svo gerði Mats, hann kom klukkan eitt og bakkaði upp að bílageymslunni á Bjargi og við settum stubbana á vagninn hjá honum. Ég hefði getað annast þetta sjálfur en mér datt alls ekki í hug að stubbarnir hefðu léttst svo mikið frá því í mars sem þeir höfðu gert. Það datt Marts ekki í hug heldur.
 
 
Ég sagði einhvers staðar um daginn að þessi dráttarvél hans væri frá 1952. Því skrökvaði ég óvart, hún er International frá 1965. Alver þokkalegur aldur samt. Hún bilar nánast aldrei sagði Mats og hún væri þar að auki auðveld í viðgerð og viðhaldi. Hljóðið í henni er notalegt eins og í góðum bíl. Hlutverk þessarar dráttarvélar er að draga þennan skógarvagn og annast glussavökvann á kranann
 
 
Þarna sjáum við bændasögina hans Mats. Ég veit ekki hvort það er fjárhagslegur ágóði að hafa farið þessa leið til að fá nýjan við í setur og bök á sex stóla og í eina borðplötu. En það er eitthvað við það að gera þetta, það er gaman og mér finnst það vera ákveðin dyggð. Ég fann líka á Mats að hann skildi mjög vel þá afstöðu mína. Hann vildi vera mér innan handar.
 
Þegar Bjarg var byggt hafnaði það nálægt tveimur eikum og það tók mig langan tíma að sætta mig við að fella þær. Svo fór þó að lokum. Það eru margar, margar aðrar eikur í Sólvallaskóginum þó að þessar hafi verið í stærri kantinum. Viðurinn úr þeim var of lítill til að selja hann en líka of góður til að brenna hann. Að lokum fór hann að mestu í eldivið og lítillega í smíðavið. Ég er mikið ákveðinn í því núna að láta Mats saga fyrir mig þegar felld verður góð björk, askur og hlynur.
 
 
Má ég taka mynd af þér sagði ég við Mats þegar við vorum að kveðjast. Já já, það máttu gjarnan sagði hann og ég varð svolítið hissa. Viltu senda reikning eða á ég að koma með peninga til þín spurði ég hann. Þú ræður því alveg, svaraði hann. Þegar ég heyrði svo hvað þetta ætti að kosta, þá sagði ég honum að ég kæmi með peningana á morgun. Hann ætlar að heimsækja dóttur sína í Bergen á miðvikudaginn og sú upphæð sem hann ætlar að taka er ekki fyrir mörgum lítrum af bensíni.
 
Þessi maður hefur hjálpað mér áður og ég hef alltaf fengið að borga honum fyrir það, en svo mikið er víst að hann hefur ekki auðgast á því sem hann hefur tekið fyrir þá aðstoð. Hann sagaði niður í byggingarvið fyrir okkur 13 stór grenitré árið 2006 þegar við byggðum fyrst við Sólvelli. Hann reynir ekki að vera til lags, en hann leggur aðstoð sína fram á eitthvað svo þægilegan hátt og það er svo auðvelt að vinna með honum. Mér er mjög hlýtt til þessa manns.
 
Þegar ég var búinn að taka myndina sagði hann mér að hann væri búinn að vera á Íslandi. Hann hafði farið í rútuferð og þeir þorðu ekki að koma of nálægt Heklu því að þeir töldu að hún gæti farið að gjósa með stuttum fyrirvara. Ísland er mikið öðru vísi land sagði hann.
 
 
Ég segi sjúklingunum í Vornesi oft að þegar fólk kemur lífi sínu í góðan farveg, þá þarf ekki svo mikið til að verða ánægður. Það sagði ég þeim líka um síðustu helgi. Ég er notalega ánægður núna að eiga 19 lengdarmetra af 20 sm breiðum eikarborðum og 2,2 sm þykkum úr tré úr Sólvallaskóginum. Ég veit að ég verð líka ánægður ef ég eignast nokkra metra af svona borðum úr birki, ask og hlyn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0