Helgi á Sólvölum

Ég get orðað það þannig að þessi helgi byrjaði byrjaði hjá mér á járnbrautarstöð í bæ sem heitir Hallsberg. Mæðginin Rósa og Hannes Guðjón stigu þar af lestinni frá Stokkhólmi og færðu sig um set inn í bílinn minn. Svo var haldið til Sólvalla. Þau virtust vera í essinu sínu.
 
 
 
 
Fyrsta verk þeirra á Sólvöllum var að fara bakvið húsið og athuga með matjurtaræktina sem er komin í gang. Það fyrsta sem skeði í matjurtaræktinni var 1. apríl þegar ég sáði fyrir graskeri og skvass. Skvass er nafn sem ég hef gefið ákveðinni matjurt og ég hugsa að flestir skilji þetta nýyrði mitt. Í þessari fyrstu ferð að húsabaki vökvuðu gestirnir mínir fyrstu sáninguna af kartöflunum. Ekki stór garður það, enda eru kartöflurnar hér á Sólvöllum settar niður til gamans.
 
Það er hins vegar allt annar handleggur með það sem þarna er í gangi. Það eru fjölmargar tegundir af afar hollum matjurtum í þessum römmum og það sem hægt er að greina þarna ef að er gáð er hvítlaukur og laukur. Svo er bara nefndu það allt mögulegt komið upp í römmunum eða í þann veginn að kom upp. Ég á engan heiður af þessu, það er Rósa sem er driffjöðrin og hún hefur verið hér með alla fjölskyldu sína í nokkur skipti í vor. Það sem ég sáði 1. apríl er í römmunum sem eru all nokkuð lengra í burtu. Grasker og skvass tekur mikið pláss og fer með sína kröftugu leggi, sinn mikla blaðvöxt og stóru grænmetisávexti út um víðan völl. Þess vegna var það sett vel afsíðis.
 
Við unnum líka við turninn hans Hannesar um helgina. Þarna eru þau mæðgin að flytja perlumöl  að turninum.
 
Við nefnilega hellulögðum svæðið inn í turninum og hellulögn krefst þess að mold sé fjarlægð og síðan undirbyggingar. Byggir maður turn þá byggir maður turn og ekkert hálfkák við það. Hannes er lagtækur maður ef honum er gefið færi á því.
 
Og afi gamli sem stundum er ögn undarlegur í kollinum er líka svolítið lagtækur. Undarlegur í kollinum skýrist á þann hátt að studnum eru afi og dóttursonur ekki alltaf alveg vissir um það hvað hinn er að meina. Það fer þó alltaf vel að lokum.
 
 
Ég átti kannski minn þátt í þessari framkvæmd en hugmyndin að því að setja niður sumarblóm og fjölær blóm þarna í hornið kom frá Rósu. Því verki lukum við skömmu fyrir brottför þeirra í dag og Rósa lét sér ekki detta í hug að fara fyrr en hún væri búin að vökva.
 
Og fyrir brottför fékk afi að taka mynd. Hannes er ekki alltaf hrifinn af myndatökum en þarna var hann býsna samvinnuþýður. Aftan við hann sér í nýgömlu Grythyttans garðhúsgögn sem við keyptum í Laxå í gær. Þessi húsgögn eru fokdýr ný og þess vagna keyptum við þau þarna niðurfrá í verslun sem selur notuð húsgögn. Fokdýr en alveg frábær að gæðum. Þar sem það mesta er að verða klárt á Sólvöllum mætti ætla að gamli smiðurinn geti hresst upp á þessi húsgögn í bílskúrnum á komandi vetri.
 
Svo má segja að þessari helgi lauk á sömu járnbrautarstöð og hún byrjaði. Myndina tók ég einhverri mínútu áður en þau stigu um borð í lestina. Ég var þeim mæðginum mikið þakklátur fyrir heimsóknina.
 
Af járnbrautarstöðinni fór ég beina leið heim, gekk að sláttuvélinni, setti hana í gang og byrjaði að slá. Ég verð að sýna Valdísi, mér og umheiminum að ég geti líka rækt þetta mikilvæga verkefni. Sólvellir líta ekki vel út nema að það sé slegið nokkuð reglulega. Gestirnir mínir voru rétt farnir og ég var kominn í gamla hlutverkið hennar Valdísar og því saknaði ég hennar óvenju mikið á því augnalbiki sem ég byrjaði að slá.
 
Síðan lék þetta í höndunum á mér þangað til ég fékk heimsókn eins af nágrönnum mínum. Við fórum inn í kaffi og spjölluðum um ferðalög langt norður í land. Hann á nefnilega mjög góðan bústað þar langt uppi og vill endilega fá mig í heimsókn í sumar. Ennþá norðar er annað maður sem ég kynntist á sínum tíma gegnum minn góða vin Kjell sem líka á þar frístundahúsnæði. Hann vill einnig fá mig í heimsókn. Báðir þessir menn eru ellilífeyrisþegar eins og ég. Svona ferðalag er í athugun og verður farið seinni hluta sumars ef af verður eins og ég vona að gangi eftir.
 
Þegar þessi gestur fór hringdi síminn og þar dvaldi ég lengi. Mikið er gott að það er til fólk sem vill hafa svona samband við mig. Stuttu eftir símtalið byrjaðiað rigna og síðan hafa gengið yfir hressilegar skúrir. Á morgun, mánudag, og á þriðjudag er spáð þrumuskúrum í 18 til 20 stiga hita. Síðan er spáð allt að 25 stiga hita og talsverðri sól.
 
Þegar vð fórum á járnbrautarstöðina í dag fór ég á stuttbuxunum mínum með mína hvítu leggi, í stutterma skyrtu og berfættur í sandölum. Slíkir dagar eru góðir dagar, dagar þegar maður finnur snemmsumarylinn umlykja sig í faðmi sínum.
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0