Fyrsti slátturinn

Fyrsta slætti á Sólvöllum er lokið og allt er þar með slegið, hver einasti smástígur og afkimi. Þetta verk annaðist Valdís af mikilli kostgæfni en í fyrra annaðist ég það og ekki með sóma, alls ekki. Ég ítreka að Valdís annaðist það af mikilli kostgæfni og stundum fannst mér sem henni lægi full mikið að slá þegar mér fannst það mætti dragast aðeins lengur. En svona var Valdís, það sem hún taldi sitt annaðist hún vel. Þetta var ofarlega í huga mér í gær þegar ég var að slá. Best var lóðin hirt í fyrra þegar Auður og Þórir voru bæði húsverðir og húsálfar fyrri hluta júní.
 
En að minnast á Valdísi þá ætla ég að segja frá svolitlu. Ég kom við hjá fólki í Fjugesta í fyrradag, hjónum á mínum aldri. Þau eru að selja húsið sitt og voru að segja mér frá kaupanda sem á tímabili var líklegur. Hann tilheyrir Hafðu það gott kórnum sem Valdís var í eftir að við fluttum á Sólvelli. Þegar þau sögðu mér frá þessu var mín fyrsta hugsun að þetta yrði ég að segja Valdísi. Ég áttaði mig jafn fljótt og hugsunin gerði vart við sig. Á leiðinni heim hugsaði ég eitthvað um þessi kaup aftur og þá kom hugsunin upp aftur, að þetta yrði ég að segja Valdísi. Árin 53 hverfa ekki eins og dögg fyrir sólu.
 
Þegar ég hef lokið einhverju verki sem hefur tekið dálítinn tíma, þá er eins og ég verði svolítið ráðviltur. Hvað geri ég nú?!?! Áður en ég fór til Íslands lauk ég við að gróðursetja tíu berjarunna. Það var talsvert verk og tók talsverðan tíma þó að það láti kannski undarlega í eyrum. Svo þegar ég kom heim velti ég fyrir mér á hverju ég ætti að byrja næst og af því að ég fékk ákvörðunarangist, þá fór ég einföldustu leiðina og keypti fjóra runna í viðbót. Nú, þeir fjórir runnarnir fóru í jörð í gær og ekki gat ég keypt berjarunna endalaust þannig að mér var nauðugur einn kostur að taka ákvörðun og slátturinn varð fyrst fyrir valinu. Í dag hefur það verið alls konar tiltektir og pjatt.
 
Í gær var Vornes í sambandi við mig. Það virðist vera endalaus vinna fyrir mig þarna á meðferðarheimilinu. Nú er búið að bæta svo oft við sumarafleysingarnar hjá mér að við þorðum ekki annað en fara vel yfir og bera saman bækur okkar. Og hvað vil ég svo segja um þetta? Jú, að ég kem samt sem áður til með að hafa marga frídaga í sumar og meira að segja frívikur, en það verður heilmikil vinna samt. Ég get bara ekki látið vera að hafa gaman að þessu. Ég er ánægður með að geta það og svo er þetta skemmtileg vinna og þakklát að auki.
 
Ég hef verið að flytja mikið í hjólbörum í dag, meðal annars rennblauta mold. Nágranni kom og þó að ég geti við viss tækifæri talað of mikið og gripið frammí, þá var engin hætta á að ég gerði það í þetta skipti. Nágranninn var einfær um að tala. Hann stoppaði lengi og þegar hann fór ætlaði ég að fara að moka í enn einar hjólbörur, en nei, ég var kominn með harðsperrur, hætti púli dagsins og fór inn til að steikja smásíld.
 
Nágranninn kom á bíl. Annars er umferðin svo lítil að ef ég heyri í bíl eftir hádegi reikna ég með að pósturinn sé kominn.
 
Nýslegnir ævintýrstígar sem eru ætlaðir fyrir litla fætur. Skógurinn mun minna en hálf laufgaður.
 
Ég lagði út avakadó í gær, ætlað Brodda eða Broddu. Ég varð þeirra ekki var en avakadóið var búið í morgun. Ég lagði út avakadó aftur i kvöld og fylgdist mikið með. Broddi kom eftir að skyggja tók og leyfði myndatöku. Broddi er góður.
 
Þessi bílfarmur af mold kom í fyrradag. Hún er mikið blaut núna. Ég er búinn að taka 22 hjólbörur af hlassinu og þá eru 128 eftir. Ég fæ kannski hjálp með þessa moldarvinnu um næstu helgi. Það er margt að jafna og snyrta á Sólvöllum. Byggingaframkvmdum er lokið og nú er bara að pjatta og gera fínt og þessi mold mun fara víða.
 
 
 
 
Nú ætla ég að hita kaffi og svo kveiki ég trúlega á söngvakepninni. Annars er svo hljótt og gott á Sólvöllum eins og reyndar alltaf.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0