Hún á afmæli í dag

Félagsmálafulltrúi einn í Södermanland, kona á tæplega miðjum aldri, kom oft með fólk til mín í Vornes, fólk sem þá fann sig algerlega minni máttar. Að vera vitni að því hvernig þessi kona kom fram við skjólstæðinga sína á þessum erfiðu stundum hafði alltaf áhrif á mig. Ég sá líka hvernig þessir skjólstæðingar hennar næstum því hölluðu sér nær henni þar sem þau sátu venjulega hlið við hlið og hlustuðu á þær upplýsingar sem ég gaf um starfssemi okkar í Vornesi. Það var auðséð að fyrir þá sem funndu sig minni máttar átti hún einhvern ósýnilegan styrktarsjóð sem gerði erfiðar stundir auðveldari að komast í gegnum.
 
Í morgun sá ég á feisbókinni nokkrar línur sem þessi kona eignaði mömmu sinni sem yfirgaf jarðlífið fyrir áratugum síðan. Þessar línur skrifaði hún vegna þess að dóttir hennar var að bjóða til stúdentsveislu og dóttirin gat ekki boðið ömmu sinni á sama hátt og öðrum vegna þess að hún féll frá löngu fyrir aldur fram. Þessar línur félagsmálafulltrúans í Södermanland snertu mig djúpt og hugsanir mínar komust í ákveðinn farveg minninga og trega.
 
En þegar ég var búinn að lesa þessar línur félagsmálafulltrúans og verða fyrir sterkum áhrifum af lestrinum, þá hélt ég áfram að renna augum yfir feisbókina. Svo stoppaði ég snögglega við nokkuð sem ég sá; fólk var að óska henni Binnu mágkonu minni til hamingju með sjötíu og fimm ára afmælið. Úff, aulinn ég, sem sendi henni ekki einu sinni kort.
 
Valdís hafði til að bera þann eiginleika að muna afmælisdaga af alveg ótrúlegri nákvæmni. Hún átti gamla íbúaskrá Hríseyjar og það brást nánast alls ekki ef íbúaskránni var flett og Valdís spurð út í afmælisdaga fólks, hún mundi þá. Hefði Valdís ennþá verið hérna megin landamæranna til ókunna landsins hefði hún verið farin að tala um það fyrir fáeinum vikum að hún þyrfti að kaupa kort handa henni Binnu og eitthvað smá í pakka. Svo hefði hún verið búin að senda það fyrir eins og einum tíu dögum.
 
Trygglyndið milli þeirra systranna þriggja var sterkt og þar að auki sýndi Valdís öllum trygglyndi sem á einhvern hátt tengdust henni fjölskyldu eða vinaböndum. Þegar við komumst á aldur verða afmælin sem lenda á tug stærri afmæli. Afmæli sem enda á fimm verða líka heldur stærri afmæli. Hvort hún Valdís hefði ekki munað eftir því að senda henni Binnu systur sinni aðeins fallegra kort og aðeins veglegri sendingu í tilefni sjötíu og fimm ára afmælisdagsins. En ég mundi ekki eftir afmælinu hennar fyrr en ég sá það á feisbókinni. Þarna verð ég mér stundum til skammar.
 
Binna mín, þú hefur líka sýnt mér trygglyndi. Til dæmis þegar þú fékkst hana Þorbjörgu dóttur þína og Tomas tengdason þinn í Värnamo til að koma með þig í heimsókn hingað til mín, tæplega 300 km vegalengd, til að vera hérna stund úr degi. Eða þegar þú hringir til mín til að athuga hvort það sé ekki allt í lagi með mig.
 
Ég geng ekki hratt fram í því að leggja til hliðar eða fjarlægja föt og hluti sem tilheyrðu Valdísi. Ég hef sent þeim systrum hennar smávegis sem hún átti og þá hringja þær til baka til að þakka fyrir og láta mig vita að sendingin hafi komið fram. Ég sendi Binnu meðal annars nokkra boli um daginn, boli sem passa vel á hana. Þegar hún hringdi til að láta mig vita að sendingin hefði komið fram sagði hún að hún hefði tekið bolina, lagt þá gætilega á borð eða rúm, strokið mjúklega úr þeim og brotið þá fallega saman aftur.
 
Ég skildi Binnu afar vel þegar hún var að segja nér frá þessu. Það voru í raun ekki bolirnir sem skiptu máli, heldur hugsanirnar sem þeir komu af stað. Hugsanir um samveru í bernsku, samveru gegnum lífið, lífsreynslu, minningar, tillitssemi, tregablandið þakklæti, sorg og góða hjartalagið sem þessar þrjár systur báru hver til annarrar. Nú eru þær tvær, Árný og Binna, sem sem halda áfram að hlú að þessu góða hjartalagi sín á milli.
 
Binna mín, innilega til hamingju með áfangann.
 
 
 
 
Það er spurning hvenær eitthvað á að skrifa, hvort það á að skrifa það eða hvernig. Ef ég hefði ekki verið búinn að lesa línurnar sem félagsmálafulltrúinn í Södermanland skrifaði á feisbókina áður en ég áttaði mig á afmæli Binnu, þá er eins víst að ég hefði bara hringt til hennar seinna í dag, óskað henni til hamingju og sagt að ég hefði verið klaufi að senda ekki kort. Kannski vekja svo þessar línur mínar upp hugsanir einhvers annars eða fá einhvern annan til að skrifa einhverjar línur. Þannig er lífið, við höfum áhrif hvert á annað og oft án þess að átta okkur endilega á því.
 
Þessar línur mínar eru ekki gleði- eða húrrahróp og það var heldur ekki ætlun mín. Þær eiga að vera línur virðingar, þakklætis og væntumþykju. Heimsókn mín til ykkar mágkonur mínar, Binna og Árný, var stutt og léleg í Íslandsferð minni um daginn. Fyrirgefið mér, ég set ykkur lengst upp á listann í næstu Íslandsferð minni. Mér þykir vænt um ykkur.


Kommentarer
Björkin

Sömuleiðis er mikil væntumþykja send til þín mágur minn.Í sambandi við samband okkar systra þá held ég að það sé og hafi verið mjög sterkt og sérstakt.Ég þakka mikið fyrir það,og systur er mikið saknað.Tölum mikið um hana og minnumst margs.Kær kveðja mágur .....Ég fékk líka bol sem er gott að leggja hendur á...

2014-05-14 @ 18:09:02
Binna

Takk fyrir bloggið mágur.Þótti mjög vænt um það.Kveðja.

2014-05-14 @ 21:30:21


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0