Mikill morgunmatur

Fyrir nokkrum árum þegar þær voru hjá okkur dótturdæturnar Guðdís og Erla veltu þær fyrir sér hvað væri eiginlega á þessum ökrum. Við útskýrðum það fyrir þeim að á ökrunum væri mikið af höfrum sem síðan yrðu malaðir í haframjöl sem haft væri í norgunhafragrautinn. Þar væri líka mikið af hveiti og rúgmjöli sem væri notað í brauðið sem væri borðað með hafragrautnum á morgnana. Eftir það sögðu þær þegar við fórum um stór akurlönd að þar væri mikill morgunverður. Það eru orðin all nokkur ár síðan þetta var og nú eru þessar stelpur orðnar að nánast fullorðnum konum. Það er staðfesting á því að tíminn malar áfram án afláts, óhagganlega óstöðvandi.
 
 
Ég var á leiðinni heim frá Vornesi um helgina í 27 til 29 stiga hita. Þá einmitt hugsaði ég um þetta með morgunverðinn á ökrunum. Það hefur orðið breyting á ökrunum á síðustu árum. Repjan hefur fengið mun meira pláss en áður þannig að það er líka framleidd olía á ökrunum. Olía sem hægt er að steikja eggin í sem borðuð eru með morgunverðinum og ég nota hana í pönnukökurnar mínar og þegar ég steiki grænmetið mitt og fleira. Hún er líka notiuð sem eldsneyti á dráttarvélarnar og önnur tæki, jafnvel bíla. Ég veit að korn og repja er líka ræktuð á íslenskum ökrum þannig að ég er ekki að segja Íslendingum neinar fréttir.
 
 
Á leiðinni heim þarna í hitanum datt mér fleira í hug en dótturdæturnar með morgunverðarhugleiðingar sínar. Ég velti fyrir mér þeim ríkidómi sem það er að eiga þessa fallegu vor og sumardaga og alla þá náttúrufegurð sem fylgir þeim. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn ástafanginn af þessu fallega góðviðrislandi sem er svo gróið svo langt sem séð verður til allra átta. Ég minntist þess þegar ég fór upp í útsýnisturninn í Vidablick upp í Dölum og sá tugi kílómetra til sumra átta og allt var gróið svo langt sem sást. Þá minntist ég líka gönguferðar sem ég fór upp með Fjaðrá hjá Holti á Síðu þegar við vorum að brúa þar og ég leit yfir meira graslendi en ég hafði nokkru sinni séð áður. Ég varð algerlega hugfanginn af þeirri sýn. Síðar sá ég eflaust stærri graslendur á Íslandi en ég sá þarna á út Síðunni, en þó veit ég það ekki, en áhrifin af gróðrinum þar vöktu hjá mér hrifningu sem mér er enn minnisstæð.
 
 
Þessi mynd er ekki tekin sama dag og myndirnar af ökrunum. Hún er tekin rigningardag einn fyrir stuttu, kærkominn rigningardag, og er nánast útsýnið ef setið er við vesturgluggann á Bjargi. Ég þarf því ekki að fara neitt til að hafa töfrana fyrir augunum.
 
 
Þessi ungi maður brá sér út af leikskólanum og malbikinu í lok síðustu viku til að komast á vit fegurðarinnar. Þessi mynd er tekin af honum þar sem hann er sestur niður á dýnuna sína til að hvíla sig eftir rúmlega tíu kílómetra göngu. Þetta með tíu kílómetra göngu vakti mikla undrun hjá mér. Mér hefði bara ekki dottið það í hug að þessir stuttu fætur gætu borið litla manninn alla þessa leið. En hann virðist hvergi banginn eftir myndinni að dæma.
 
 
Vatnið er ekki orðið nægjanlega heitt ennþá til að það sé notalegt að baða í því en ég geri samt ráð fyrir að það hafi verið ævintýri fólgið í því að bleyta fæturna þarna. Umhverfið er ekki amalegt og fjöldi seglbáta sést handan víkurinnar til vinstri.
 
Ég var búinn að hugleiða að bregða mér líka af bæ á morgun til að sjá nýja töfra. Fara í algert töfralandslag til að fá mér eina máltíð. Ég ætlaði með því að halda upp á ákveðinn áfanga sem ég hef verið að vinna við hér heima. En nú er áfanganum ekki lokið þannig að það væri öfugmæli að segja að ég væri að halda upp á að eitthvað sé búið. Ég hef grun um að í fyrramálið ákveði ég að fresta þeirri ferð um einn dag. Eftir það mun ég svo geta haldið af stað glaður yfir því að enn einum áfanga sé lokið á Sólvöllum.
 
Næsti áfangi eftir það er að klára leikturninn hans Hannesar. Ég þarf að setja eitthvað varanlegra á þakið en bara þakpappa og ég ætla líka að setja viðdskeiðar og ég sé ekki betur en ég þurfi að setja einhvers konar þakrennur. Hannes getur ekki hjálpað mér við þetta þannig að það er einfaldast að gera það áður en hann kemur til sumardvalar sinnar á Sólvöllum.
 
 


Kommentarer
Rósa

Mikið er þetta sætur drengur á myndunum hjá þér :-)

2014-05-29 @ 23:39:08
Guðjón

Já Rósa, það er nú bara þannig.

2014-05-30 @ 10:23:50
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0