Dagur eins og ég vil hafa dagana í framtíðinni

Í gærmorgun klukkan hálf átta stóð ég úti með slönguna og vökvaði eitt og annað sem ég hef verið að gróðursetja og ganga frá undanfarið, nokkuð sem ég kalla blettina og líka grænmetisræktina hennar Rósu. Það er jú lífsnauðsynlegt á heitum dögum að nýjar sáningar og gróðursetningar fái vatn. Svo vökvaði ég í eina tvo klukkutíma. Klukkan ellefu í gærkvöldi stóð ég líka úti með slönguna og vatnaði á sömu stöðum þar sem allt var orðið hálf bakað af þurrki eftir fleiri klukkutíma sterka sól og 20 stiga hita. Síðan fór ég inn og hugsaði mér að blogga um nokkuð sem hafði verið förunautur minn stærstan hluta dagsins, blogga þangað til ég gæti tekið tólf fernur af angandi rúgbrauði út úr bakarofninum. Ég var nefnilega að baka.
 
Ég setti fartölvuna á matarborðið og skoðaði myndirnar sem ég var þegar búinn að setja inn á viðeigandi blogg. Þegar ég var búinn að skrifa einar fjórar línur steinsvaf ég í stólnum. Eftir það var ég á röltinu þangað til klukkan var rúmlega tólf og þá var tími að taka rúgbrauðið úr bakarofninum. Rúgbrauðið angaði og ég tók fernuna sem minnst var í, skar utan af brauðinu og tók burt pappann. Ég sé það strax á brauðinu hvort rúgbrauðsgerðin hafi tekist vel eða ekki og þessi rúgbrauðsgerð var sú besta. Svo fékk ég vatn í munninn en ég var búinn að borða það sem ég hafði ætlað mér að borða þann daginn svo að það var ekki að tala um að fara að borða rúgbrauð klukkan að verða hálf eitt um nótt.
 
Svo opnaði ég ísskápinn og tók út smjör og ost, skar mér volga rúgbrauðsneið, smurði og borðaði. Þvílík nautn mitt um nótt. Svo borðaði ég aðra braðusneið. Eftir það burstaði ég og pissaði, lagði mig og fann svefninn síga á mig meðan ég var að halla mér. Þá var klukkan eitt að nóttu.
 
Upp úr klukkan sex vaknaði ég og fann fyrir óróa. Ég var með einhver ónot framan á bringubeininu, ónot sem voru mér gamalkunn en ég hafði ekki fundið fyrir lengi, lengi. Ég hef alltaf tengt þessi ónot hryggjarliðum sem eru stífir. Á leiðinni á klósettið hugsaði ég að ég ætti kannski að fara mér aðeins hægar og láta hlutina sjá meira um sið sjálfa. Kannski þyrfti ég ekki að standa úti með vatnsslönguna klukkan hálf átta að morgni og aftur klukkan ellefu að kvöldi og reyna svo að koma á hreinlæti og baka tímann þar á milli eins og ég gerði í gær.
 
Á leiðinni til baka af klósettinu drakk ég stórt glas af vatni. Vatn er gott við því mesta, meira að segja óróleika snemma að morgni. Svo lagði ég mig á bakið með hnakkann á dýnu sem ég nota sem höfðagafl. Í þeirri stellingu er svo gott að hugsa í rúminu. Síðan heyrði ég mínar eigin hrotur og þá var tímabært fyrir mig að leggjast á hliðina sem ég hrýt ekki á. Þannig sofnaði ég.
 
Klukkan hálf átta vaknaði ég og nennti ekki á fætur "ekki alveg strax". Svo svaf ég til klukkan níu. Óróinn var fokinn út i veður og vind og lífið blasti við.
 
Núna er klukkan orðin svo margt á þessum föstudegi að ég vil ekki segja frá því, en nú ætla ég að elda minn indæla hafragraut og ég hlakka svo innilega til að fá mér nýtt rúgbrauð með kaffinu á eftir. Meira þarf ég ekki til að gleðjast á þessum morgni.
 
Fyrir mér er eiginlega sunnudagur í dag, það er bara fast í mér.
 
 
 
 
Blettirnir eins og ég kalla það og einu sinni voru ellefu eru nú orðnir 15 og grasfræið í þeim öllum er farið að spíra, eftir bara fáeina daga að mér finnst. Eljusemin með slönguna og gjöful sólin eiga sameiginlegan þátt í því.
 
 
 
Það sem ég kalla blett í þessu bloggi er til dæmis þetta. Fylling að veröndinni sem ég vildi ekki framkvæma í fyrra þar sem viss skipulagsmál hér á lóðinni voru ekki tilbúin. Þó að það sjáist ekki er grasfræið farið að spíra þarna. Það sést líka á veröndinni að það hefur ringt lítillega mér til mikillar ánægju.
 
 
 
Hér eru svo fimm blettir. Þetta lætur ekki mikið yfir sér enda er ég ekki að tala um mannvirkjagerð á Sólvöllum þó að orðin um það séu mörg. Í þessa bletti fóru 41 hjólböruferð af mold frá öðru horni lóðarinnar og undir setti ég hænsnaskít. Í staðinn vonast ég eftir góðri ávaxtauppskeru og til þess stend ég í öllum þessum jarðvegsflutningi
 
 
 
Og hér er einn blettur sem á að gera mér auðveldara að hirða lóðina framvegis.
 
 
 
Að loknu dagsverki fæ ég mér staðgóðan kvöldverð, bara ekki allt of seint. Dagurinn í dag varð nákvæmlega eins og ég vil hafa dag á Sólvöllunum í framtíðinni. Fyrst vökvaði ég hóflega þar sem það var spáð rigningu. Ég setti stuðning við þrjú eftirlætistré sem höfðu orðið halloka á einn og annan hátt. Ég klippti burtu sjálfsagt á annað hundrað minni og stærri plöntur sem hindruðu önnur eftirlætistré að vaxa eðlilega. Ég sat um stund á bláberjabekknum og hugaði um lífið og tilveruna. Eitt og annað var það fleira sem gott og gagnlegt var að sinna.
 
Ég geri enga kröfu enda er það ekki á færi mínu en þakklátur mundi ég taka við nokkrum árum til til að njóta þess sem ég hef verið að gera á síðustu árum. Ég sé heldur ekkert sem ætti að hindra það.
 
Svo er það rúsínan í pylsuendanum.
 
Líklega var það um sjöleytið sem síminn hringdi og ég heyrði hressa rödd Evu hjúkrunarfræðings og Íslendings. Er í lagi að droppa inn spurði Eva. Það var í lagi. Svo kom hún og við drukkum eplasafa og borðuðum ristað brauð með smjöri og osti. Rúgbrauðið var þá ekki enn tilbúið. Við töluðum um heima og geima og þetta kvöld varð öðruvísi kvöld. Svo lagði Eva af stað til að gæta bús og barna í 200 km fjarlægð héðan, norðan við Stokkhólm.
 
Ég hef nefnt þessa konu áður. Hún reyndist Valdísi sérstaklega vel alla tíð og sérstaklega síðustu mánuðina. Konu eins og Evu get ég bara borið vel söguna vegna þess að þess er hún verð.


Kommentarer
Auja

Já hun hefur sko sannarlega verið rúsínan í pylsuendanum þessi yndislega manneskja! Þú heppin, ég missti af henni. Þurfum að fá hana til baka!!

2014-05-30 @ 21:24:22
Guðjón

Já Auður, hún kemur, hún veit hvar okkur er að finna.

2014-05-30 @ 21:33:53
URL: http://www.gudjon.blogg.se
Björkin

Fallegt um að lítast hjá þér mágur minn.Og ekki skemmir síðasta myndin falleg og góð kona er hún Eva.Það rignir í sveitinni hjá okkur.Gangi þér allt vel.Stórt krammmmmmmmmmm

2014-05-30 @ 23:03:46
Guðjón

Þakka þér fyrir mágkona og kveðja til baka. Ég vona að það rigni svolítið meira hér, þð yrði til gæfu fyrir gróðurinn.

2014-05-30 @ 23:17:42
URL: http://www.gudjon.blogg.se


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0