Minn æðri máttur var með mér á göngunni við vatnið Tisken

Ég hef mikið talað um að segja sannleikann. Eftir sumarið 1993 sem ég vann á Vogi hitti ég forstöðumann fyrirtækis á suðvesturlandi á tröppum Landakotskirkju. Sá hafði verið innskrifaður á Vog um sumarið. Guðjón, ég vil segja þér svolítið sagði hann. Ég varð forvitinn. Ég bar virðingu fyrir þessum manni og hans hógværu og fáguðu framkomu. Hann var nokkrum árum yngri  en ég. Hann valdi að leita tímanlega hjálpar vegna þess að sársaukinn gerði snemma vart við sig hjá honum. Hann hafði sterka siðgæðisvitund og slíkt fólk byrjar snemma að finna til sársaukans.
 
Svo sagði hann: Þegar þú talar er auðvelt að skilja hvað þú ert að fara. Haltu því áfram.
 
Ég var honum þakklátur fyrir þessi orð sem ég leit á sem uppörvunarorð og þessi uppörvun var meðal annars þáttur í því að ég vildi halda áfram að vinna við það sem ég byrjaði með þarna um sumarið. Þegar ég talaði við alkohólistana talaði ég ekki í kenningum, ég talaði um raunveruleikann bara eins og alkohólistar þekkja hann. Ég hef síðan lagt mig fram um að gera það alla tíð.
 
Nágrannar mínir í Hrísey, alla vega hluti þeirra, varð hissa þegar það fréttist að ég var kominn í áfengismeðferð á Vogi í janúar 1991. Þeir sáu heldur ekki til mín þegar ég stundum sat undir áhrifum á nóttunni í stofuni heima með heyrnartæki á höfðinu og með dapra tónlist á fóninum. Svo grét ég yfir tregablandinni tónlist Vilhjálms Vilhjálmssonar og mest eftir að hann fórst í bílslysi út í Þýskalandi. Akkúrat þarna fannst mér sem ég upplifði andlegheit þessar nætur en ég get lofað að daginn eftir þegar ég vaknaði, þá skildi ég að þetta voru engin andlegheit, langt í frá. Þetta var sjúklegt. Hluti af þessu var sjálfsvorkunn og stór hluti var líka einfaldlega sorg yfir að hafa mistekist að ávaxta líf mitt og vera til gagns fyrir aðra.
 
Fyrstu árin í Svíþjóð gekk ég í fyrsta lagi á AA fundi á þriðjudögum í Sóknarhúsinu í Svärdsjö þar sem við Valdís bjuggum fyrst. Ég gekk þangað líka fyrsta árið okkar í Falun. Í Svärdsjö var minn heimafundur á þessum tíma. Við getum kallað mann einn Mats. Hann var einn af AA félögunum í Svärdsjö. Mats kenndi mér margt. Hann ráðlagði mér til dæmis að hafa sérstakt kort fyrir bensínkaup mín, þá yrði bensínverðið lægra, og það var margt einfalt og nytsamt sem hann vék að mér. Mats var vinur minn.
 
Þriðjudag einn snemmsumars 1996 var ég á leiðinni heimanað frá Norslund í Falun niður í miðbæ. Ég var þá í reglubundnu viku fríi frá Vornesi. Ég gekk meðfram spegilsléttu vatninu Tisken sem er inni í Falun. Ég var alsæll. Ég var kominn með vinnu sem mundi væntanlega verða til frambúðar, skógarnir og eðaltrén í Falun nutu snemmsumarsins og gerðu bæinn einstaklega fallegan, þrettán hundruð ára gamla Falunáman með sinn þekkta rauða turn var uppi í dálítilli brekku framundan nokkuð til vinstri, Valdís var í vinnu og allt virkaði á allra besta veg. Á ákveðnum stað á göngustígnum tók ég stíg þvert til hægri móti miðbænum í Falun. Svo gekk ég undir járnbrautarbrúna og þar skeði það.
 
Gömul vond minning stakk sér allt í einu fram íhuga mér og ekki bara minning, það var þarna sem ég fyrst áttaði mig á þeirri alvöru sem bjó að baki þessarar minningar. Ég snarstoppaði, greip með lófunum um gagnaugun og starði fram fyrir mig. Fólk stoppaði og horfði á mig og þá flýtti ég mér áfram móti miðbænum en ákvað jafnframt að á AA fundinum mínum upp í Svärdsjö um kvöldið skyldi ég segja allan sannleika um þessa minningu. Það skyldi kosta það sem það kosta vildi og ekkert annað kæmi til greina.

Þegar röðin kom að mér á fundinum byrjaði ég með þurran munn að segja frá og hafði nokkuð á tilfinningunni að enginn mundi vilja þekkja mig á eftir. Þarna lýsti ég í smáatriðum margra ára gömlum atburði. Það var dauðakyrrð og ég hélt út til enda. Ég hafði gert játningu, en mér fannst líka sem ég hefði ef til vill orðið vinalaus við þessa játningu.
 
Eftir fundinn gekk ég djúpt hugsi yfir bílastæðið að bílnum mínum og þá var allt í einu klappað nokkuð hressilega á bak mitt milli herðablaðanna. Síðan heyrði ég rödd Mats þar sem hann sagði: Guðjón: Þetta var afar sterkt gert hjá þér. Ég heyrði að hann var ennþá vinur minn, mér fannst meiri vinur en áður. Ég leit í augu hans og hugsaði; Mats, ég elska þig. Eftir þetta var ég sterkari félagi í AA grúppunni í Svärdsjö en nokkru sinni fyrr og vinir mínir þar urðu betri vinir en áður. Þannig virkar lífgjafinn AA, mannræktandi eins og Sigurður Jóhannsson vinur minn sagði í umsögn á feisbókinni í gær.
 
Minn æðri máttur var með mér á göngunni við vatnið Tisken og hann sá að einmitt þá var ég tilbúinn. Þegar ég kom undir brúna ákvað hann að láta mig hafa það og svo gerði hann. Þessi dagur er kannski mikilvægasti dagur í öllum bata mínum hingað til. Á ferðum mínum til Falun síðan hef ég reynt að koma að þessum göngustíg og sjá járnbrautarbrúna. Þaðan á ég sterka minningu.


Kommentarer
Björkin

Elsku mágur minn þú ert mannræktari. Stórt krammmmmmmm eins og systir sagði ávallt.

2014-05-08 @ 23:52:51


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0