Dagur frelsisins var runninn upp

Hér er eitt dæmi um það hverjum tökum alkohólisminn nær á fólki.
 
Tæplega miðaldra kona kom í meðferð í Vornesi fyrir einum fimmtán árum. Hún var þriggja barna móðir. Ég hafði hana í grúpu nokkra fyrstu dagana. Hennar eina vandamál að hennar mati var aðeins það að hún drakk full mikið stöku sinnum. En hún hafði aldrei fengið neitt mótlæti eða afleiðingar vegna drykkjunnar. Hinir sjúklingarnir drógust allir með misjafnlega skelfilegar afleiðingar af drykkju sinni og þeir skildu ekki hvað hún var að gera þarna. Eftir nokkra daga horfði ég á hana í grúppu og hugsaði að við gætum ekki hjálpað þessari manneskju, hún einfaldlega spillti fyrir hinum í blindri afneitun sinni og ég yrði að skrifa hana út.
 
Ég vildi gera eina tilraun enn og spurði hana hvaða augnalit börnin hennar hefðu. Þá leit hún snöggt á mig með mikla undrun í augnaráðinu, bókstaflega með stórum gapandi augum. Síðan brast hún í hömlulausan grát. Hún vissi ekki um augnlit barnanna sinna. Þessi dagur var kaflaskil í lífi hennar og henni fór að ganga vel. Síðar sagði hún mér að sér hefði verið alveg ómögulegt að sjá að áfengið hefði staðið í vegi fyrir velferð hennar eða fjölskyldunnar, eða yfir höfuð skaðað hana á nokkurn hátt. En þegar hún áttaði sig á því að hún vissi ekki um augnalit barnanna sinna, sem hún elskaði samt svo mikið, þá brustu veggir blindninnar sem sjúkdómurinn alkohólismi hafði byggt upp í hugskoti hennar. Eftir þetta voru afleiðingar hennar ekki minni en hinna.
 
Afneitun er blindni á ástandið og er fylgifiskur alkohólisma. Lygi er hins vegar óheiðarleiki. Afneitun er stórhættuleg vegna þess að fólk sér ekki betur. Konan í dæminu fyrir ofan var ekki að skrökva, hún bara sá ekki betur.
 
 
 
Viljum við alkohólistar vera ábyrg verðum við að verða edrú. Viljum við verða edrú er hjálp að finna. Eftir að ég hafði drukkið í fyrsta skipti á ævinni í Vík í Mýrdal sumarið 1958, þá taldi ég að ég hefði fundið áhald sem gæti hjálpað mér til að verða félagslega frjáls maður og til að hjálpa mér við að læra að dansa eins og hver annar "sjarmör". Það mistókst og ég varð ófrjáls. Svo leitaði ég að fyrsta fylleríinu í áratugi og það kom aldrei til baka. Mín drykkja var kannski ekki svo óskapleg ef ég bar mig saman við einhverja aðra en hún var óskaplega mikil fyrir mig. Það var það sem skipti máli.
 
Árið 1991 fann ég afl sem hjálpaði mér til að losna við áfengið sem sem þá var á leiðinni að knésetja mig endanlega. Ég losnaði við það og losnaði þar með undan þrælkuninni. Þegar ég var orðinn frjáls maður fóru hjólin að snúast mér í vil. Allt byrjaði á því að gefast upp og segja satt.
 
Ég kom inn á Vog frá Vestmannaeyjum á föstudagskvöldi. Ég sat mína fyrstu grúppu á mánudegi og allan tímann frá föstudagskvöldinu velti ég fyrir mér hvað væri gert í þessum grúppum sem hinir sjúklingarnir voru að tala um. Ég var mjög kvíðinn en of stoltur til að spyrja fólk eftir því. Svo kom þessi hræðilega stund þegar ég sat mína fyrstu grúppu. Ráðgjafinn horfði á mig og ég vissi að nú mundi það ske, ég mundi þurfa að ganga í gegnum eitthvað áður óþekkt. Hann bað mig vingjarnlega að segja grúppunni frá því hvernig líf mitt hefði litið út og hvers vegna ég hefði komið inn á Vog akkúrat núna.
 
Ég setti upp sakleysissvipinn sem ég hafði oft platað fólk með og sagði að það væri vegna þess að mér fyndist að drykkja mín væri að aukast og gæti orðið of mikil ef ég gerði ekkert. Þegar ég hafði sagt þetta reyndi ég að verða gáfulegur í andlitinu. En ráðgjafinn var ekki að byrja í vinnunni þennan dag. Hann sagði vingjarnlega: Heyrðu Guðjón, þessi var nú bara of ódýr, ég kaupi hann ekki. Mér mistókst að ljúga og leið illa og grúppufélagar mínir horfðu tómlega út í loftið eins og ég væri ekki til í þeirra augum. Svo viðurkenndi ég að einstaka sinnum færi það úr böndunum -eða svona næstum því. Ráðgjafinn var bæði vigjarnlegur og ótrúlega lipur, þolinmóður og góður var hann. Þetta gekk svona einhverjar mínútur og ég bara gat ekki sagt eins og var.
 
En að lokum vann ráðgjafinn með snilldarlegum hæfileikum sínum. Ég var orðinn mjög viðkvæmur, gráti nær, og loks kom það.
 
Ég viðurkenndi að ég hafði komið í meðferð vegna þess að mér þætti sem öll sund væru að lokast, ég væri skelfingu lostinn og ég orkaði ekki lengur. Ég væri búinn að reyna á eigin spýtur allt of lengi en ástandið bara versnaði.
 
Þakka þér fyrir, sagði ráðgjafinn, þú ert svo velkominn. Léttir minn var ólýsanlegur. Maður einn í grúppunni sem hafði fiskað norður undir íshafi í marga áratugi horfði vingjarnlega á mig og kinkaði kolli. Ég hafði sagt satt og það kom alla leið frá hjartanu. Ég sá viðurkenninguna í augum allra viðstaddra og ég var orðinn einn af grúppunni. Dagur frelsisins var runninn upp.
 
 


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0