Komin heim úr höfuðborginni

Þá er nú komið sunnudagskvöld og við komin heim frá Stokkhólmi. Við lögðum af stað þangað um tíuleytið í gærmorgun. Ferðaveður var gott og ferðaskapið í topp og landið skartaði fínum vetrardegi. Hjá Rósu og Pétri vorum við vel móttekin með gleði, hlýju og kaffi með helling af brauði og áleggi. Við fórum með þeim í matvöruverslun sem liggur undir einhverri götu eða torgi og þar úði og grúði svo af fólki að við Valdís töldum að þetta væri eins og að vera í verslun í Kína. Ég sagði í bloggi nýlega að það væri gaman að koma til Stokkhólms og svo var það líka að þessu sinni, en ég hugsa að mér mundi finnast of margt um manninn ef ég ætti að búa þar að staðaldri. Kannski er þetta einn af mínum gamaldags eiginleikum sem ég hef grun um að yrði erfitt fyrir mig að vinna á. Ég finn mig mikið frjálsari í Örebro þar sem ég þekki mig svo ég tali nú ekki um á Sólvöllum. Við spiluðum heil mikið í gær og meðal annars spil sem heitir hæ gosi. Ég ætla ekki að lýsa þessu spili, en það þarf að bregðast hratt við með vissum orðum og háttarlagi. Ég er svifaseinn í þessu og fólk hlær mikið að mínum seinu viðbrögðum þegar ég er þátttakandi í spilinu og svo var einnig í gær. Það get ég boðið upp á með ánægju.

Í morgun hjálpuðu Rósa og Pétur okkur við að lagfæra síðurnar og Rósa kenndi okkur úmis góð knep. Að blogga er góð leið til að fólk geti fylgst svolítið með okkur hér á erlendri grund. Rósa hafði talað eitthvað um vort bloggandi við svía og þeir urðu alveg hissa á hvað foreldrar hennar voru nútímalegt fólk á sjötugs aldri sem stundaði það að blogga. Það var gaman að heyra þetta.

Ekki gátum við látið vera að koma við á TAKO BAR og borða þar hádegismat. Það var aðal menningarviðburður ferðarinnar, en það svo sem jók ekkert á matarlystina þegar tiltölulega ungur maður stillti sér upp við byggingargám hinu megin við götuna beint á móti glugganum sem við sátum innan við og meig. Maður getur unnað hundum að gera þetta öðru hvoru þegar þeir fara hjá stórum trjám á gönguferðum með eiganda sínum, en það hefði þá verið skylda stráksa að lyfta afturfætinum eins og hundarnir gera. Hundar gera þetta mjög eðlilega og ófullir, en trúlega hefur stráksi verið búinn að demba í sig einhverri ólyfjan.

Hvað haldið þið svo að við ætlum að gera á morgun. Þið getið aldrei getið upp á því. Við ætlum nefnilega að vera á Sólvöllum og smíða.

Gangi ykkur allt í haginn. GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0