Ýmislegt

Hann Steini Marels var jarðaður í dag og ég hef hugsað mikið til hans. Í morgun kom fólk í heimsókn á vinnustað minn, Vornes, til að kynna sér starfssemi okkar. Ég tók á móti þessu fólki og var með því í rúma tvo tíma. Til að útskýra vissa hluti talaði ég um Steina sem góðan áfengisráðgjafa og lýsti hvað hann hafði unnið með og hvernig. Ég hafði leitað til hans með ákveðna hluti og fengið af honum mikinn fróðleik.

Svo hætti ég að vinna um hádegi eins og ég geri flesta föstudaga. Eftir að hafa borðað góðan grjónagraut hér heima héldum við á Sólvelli -og hvert hefðum við svo sem getað farið annað. Ég held næstum að bíllinn rati ekki lengur á aðra staði en í Vornes, á Sólvelli og í vissar byggingarvöruverslanir. Að vísu ætlum við til Stokkhólms á morgun og vona ég rétt að mér takist að koma bílnum í stefnu þangað. Það er svo notalegt að vinna á Sólvöllum eftir að þakið varð klárt og viss vinna við útveggina. Það lá vissulega á að gera þessa hluti klára til að ekkert mundi skaðast í vetrarveðrum, en nú liggur ekkert á og ég nýt þess að vanda mig og vera lengi. Þakrennur og þakrennuniðurföll eru frágengin og vatnið sem kemur af þakinu rennur beint út í skurð sem er á bakvið húsið eftir lögn sem er bara gerð fyrir það. Mikill munur var það þegar vatnið hætti að hríslast niður af þakbrúninni og slettast utan í veggina. Þetta var líka eitt af mikilvægustu verkefnunum. Drulla upp á miðja veggi vegna þess að þakvatnið slettir upp leðjunni, það er ekki vinsælt á sveitasetrinu okkar Valdísar. Þetta var tilbúið áður en búið var að loka öllum veggjum. Það var ánægjulegt þegar niðurföllin voru full frágengin að ganga nokkur skref aftur á bak og njóta þess að sjá þau tilbúin. Það eru margar þannig stundir á Sólvöllum og ekki er það verra að Valdís hefur líka gaman að þessu.

Og hvað á ég að segja meira. Eiginlega er þetta nóg í kvöld en ég bæti þó svolitlu við. Nýlega var talað við unga konu sem skrifar um ákveðnar vörur á sínu bloggi. Hún, og margir fleiri,  er orðin þekkt fyrir þessi auglýsingaskrif. Þegar hún skrifaði til dæmis um ákveðnar gallabuxur jókst salan á þessum gallabuxum eitthvað svo alveg makalaust. Húnn fær borgað frá fyrirtækjum fyrir að skrifa vel um vörur sem þau framleiða eða selja og hefur af því mánaðartekjur sem ég hef aldrei komist í námunda við. Því fór ég að hugsa um hvaða vörur ég gæti skrifað um til að auka tekjur mínar. Mér datt til dæmis í hug að ég gæti skrifað um gallabuxur fyrir ellilífeyrisþega, og þó. Ég nefnilega er eiginlega aldrei í gallabuxum sjálfur en því má að vísu breyta. Svo gæti ég skrifað um háraplokkara, svona sem maður notar til að plokka hár af augabrúnum og úr nösum. Þessi óvelkomnu hár vaxa með ótrúlegu hraði. Ég læt rakarann minn alltaf klippa hárin úr eyrunum þegar ég fer í klippingu, en eiginlega verð ég að klippa sjálfur einu sinni á milli eða láta Valdísi ger það. Um daginn sagði ég við rakarann að það væri nú meiri rosalegur vaxtarhraðinn í eyrunum. Já, sagði hann, það er svo frjósöm jörð þarna inni. Nú er aldeilis nóg komið af prívat málum.

Gandi ykkur allt í haginn. Guðjón


Kommentarer
Rosa

tack för att du delar med dig... ;-)

2007-02-17 @ 18:56:11
Valgerður

Góður kunningi Jónatans (nokkuð sköllóttur) sagði eitt sinn að þegar hár hættir að vaxa á höfði manna færi það að spýtast út um nef og eyru. Mér fannst það góð athugasemd og fyndin.
VG

2007-02-25 @ 13:19:11


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0