Rósa kára við Noravatnið

Rósa kára við Noravatnið

Við köllum hana Rósu Kára eins og líklega flestir aðrir en Rósamunda heitir hún. Hún var að fara í flug á Arlanda áleiðis heim úr Svíþjóðarferð sinni og vinalegur afgreiðslumaður leit í vegabréfið hennar og sagði rólega "Rósamunda". Svo æfði hann nafnið líklega í ein tvö skipti til þegar hann átti færi á að segja það og tókst vel upp.

Eins og þegar er fram komið neðar var hún á ferð í Svíþjóð og hún var að mörgu leyti heppin. Veðrið lék við hana og hún fékk að upplifa eitthvað fallegasta vor síðan við Valdís komum til Svíþjóðar fyrir 14 árum. Afar fallegt land er Svíþjóð en þetta vor hefur verið með afbrigðum fallegt. Græni liturinn hefur verið svo grænn, lifandi, safaríkur og gjöfull. Rósa átti þetta skilið. Hinar bitru hliðar lífsins hafa hreint ekki gengið framhjá henni, en samt gengur hún bein í baki, er glöð og hefur allt sitt líf rétt út hendina til þeirra sem eru þess þurfi og svo gerir hún enn í dag. Mikið er þetta fallegt sagði Rósa oft þegar við fórum í ferðir út frá Örebro. Það er alls staðar jafn fallegt, engan stað get ég nefnt sem ekki er fallegur sagð hún einnig.

Já Rósa, við Valdís vonum að þessi ferð gefi þér góðar minningar til frambúðar. Við höfum líka góðar minningar eftir þessa daga. Við vorum búin að spara að gera vissa hluti þangað til þú kæmir, hluti sem okkur hafði langað til að gera og gerum með jöfnu millibili. Það var gaman að gera þetta saman.

Svo heldur lífið áfram og þar sem ég horfi út um suðurglugga heima í Örebro heldur landið áfram að vera óvenju fallegt. Fljótlega förum við Valdís á Sólvelli en við tækifæri þegar við skreppum heim ætla ég að koma með fleiri myndir frá Svíþjóðardvol Rósu Kára. Eins og ég sagði ofar vorum við búin að geyma að gera vissa hluti til þessarar heimsóknar og það voru teknar margar myndir sem eru fullar af minningum. Myndin með þessu bloggi er tekin við Noravatnið. Nora (Núra) er gamall bær um 40 km norðan við Örebro, orðlagður fyrir fegurð, gömul hús og besta ís í allri Svíþjóð. Landssvæðið umhverfis Nora er líka afburða fallegt og það er hægt að finna mörg sjónarhorn sem líkjast þessari mynd. Við Nora eru þrjú vötn og því er viss leið umhverfis Nóra kölluð "Þriggja vatna leiðin".
GB


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0