Ja hérna, sjáið allt fólkið!

Ja hérna, sjáið allt fólkið!



Myndin er tekin heima hjá Rósu dóttur okkar í Stokkhólmi.

Valgerður dóttir okkar kom á námskeið til Stokkhólms fyrir tveimur vikum og með henni var hún Erna frá Vestmannaeyjum sem einnig vinnur í skólageiranum. Í tilefni af þessu fórum við Valdís til Stokkhólms og við hittumst öll þar. Eitt og annað tókum við okkur fyrir hendur eins og gengur. Veðrið vikuna á undan hafði verið sumarveður með viðeigandi hlýindum en þær Valgerður og Erna fengu lágan meðal maíhita. Fyrir neðan eru tvær myndir frá veru okkar í Stokkhólmi.

Í mat heima hjá henni Usha, sem getið er neðar, var margt að spjalla og sumt af því var ekki á mínu sviði og ég lét hugann reika á meðan. Hér mættumst við á ferðalagi og það minnti mig á ferðalag árið 1964 eða 1965. Ég held að við höfum verið að leggja af stað á Kálfafell og til Akureyrar fórum við með flóabátnum Drang. Við sátum þar meðal fólks í farþegasal Drangs og Valgerður, þá á öðru eða þriðja ári, var á mikilli hreyfingu. Hún gekk á milli fólks, studdi sig við stóla, borð og bekki og jafnvel hné fólks. Margir brostu við, sögðu eitthvað, struku yfir kollinn á henni og svo þegar hún hafði vakið athyglina hélt hún áfram könnunum sínum. Við Valdís vorum, eins og aðrir ungir foreldrar, viss um að hér væri á ferðinni eitthvað fallegasta barn vorra tíma og eftir þeirri athygli sem hún vakti hjá samferðafólki okkar um borð í Drangi styrktist sú vissa. Sá sem tók henni einna glaðlegast af öllum var þekktur ferðaskrifstofumaður sem var á ferðinni ásamt einhverjum útlendingi. Því kom Valgerður til hans aftur og aftur, hann spjallaði við hana og leit af og til yfir til okkar stoltra foreldranna.

Þar sem ég sat þarna heima hjá Usha og renndi huganum yfir þennan nokkuð löngu liðna tíma var ferðalagið sjálft í móðu, en minningin um athyglina sem okkar fallega barn vakti hjá fólkinu um borð í bátnum var ljóslifandi. Síðan kom ég til baka úr þessari ferð minni til liðins tíma og ég ætlaði að segja frá þessu áður en matarboðinu lyki en það var margt að spjalla svo að ekki varð af. Ég ákvað þá að setja þetta í bloggið mitt og nú sit ég hér á sunnudagskvöldi og skrifa það niður. Ég var reyndar búinn að skrifa þetta fyrr í kvöld en glataði því og skrifa það nú öðru sinni.

Ég hefði gjarnan viljað að Valgerður og Erna hefðu í sinni ferð fengið veðrið sem við höfum hér núna. Klukkan fimm í dag var 28 stiga hiti. Litlu eftir það gekk ég út í kirkju til að hlusta á konsert sem kórinn hennar Valdísar hélt þar. Það var þungur ilmur af sírenum og fleirum blómstrandi runnum og trjám.
Svo þéttur var þessi ilmur að það var næstum eins og hægt væri að taka hann í ílát og hafa með sér. Nú er klukkan að verða tíu og hitinn er 21 stig. Fari ég út á svalir finn ég þar líka ilminn af sírenunum. Það er bara 1. júní og hásumarið liggur í loftinu.
GB


Kommentarer
Valgerður

Ég held að það sé eitthvað verið að skrökva að okkur með allar þessar sögur af veðri.
Kalt, kalt og kalt þegar ég er á ferð í Svíaríki. Sól var í Kanda en gróður ekki kominnn langt á veg.

Kv
Valgerður

2008-06-01 @ 22:30:36
Guðjón

Nei, ekkert skrök. Það má bara hringja í hana Rósu í Hrísey til að láta hana vitna um þennan sumarhita. Gróður er í óvenjulega hraustlega grænum lit. Því var hún Katarína í eldhúsinu í Vornesi sammála í morgun.
Kveðja, GB

2008-06-01 @ 22:56:56
URL: http://www.gudjon.blogg.net


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0