Fyrsti sunnudagur í desember

Það er svonefndur skyltsunnudagur í dag. Það þýðir að þar sem það er fyrsti sunnudagur í desember, þá skreyta verslanir glugga sína og bjóða gjarnan upp á eitthvað. Mikið af fólki er á ferðinni og margir hittast, heilsast og spjalla. Kaupmennirnir fá ögn í kassann. Við Valdís fórum stutta ferð til Fjugesta í dag og þar var mikið af fólki á hreyfingu. Við heimsóttum kaupmanninn í Málning og járnvörur og þar fékk Valdís eina stjörnu og tvö aðventuljós. Hún kom einnig pökkum í póst. Svo keyptum við tvo tertubita í Baunin og kakan og fórum að því búnu heim til að fá okkur kakó og tertu. Þetta var okkar þátttaka í skyltdsunnudeginum í ár.
 
Þessi ferð okkar minnti mig á skyltsunnudaginn í desember 1995. Þann dag fór ég í fyrsta skipti til Vornes alla leið frá Falun. Það var 240 km leið í snjó og all miklum kulda, einmitt eins og það er í dag. Þegar ég kom í Vornes í vetrarmyrkri og frosti fann ég ekki eina linfandi sálu þar. Ég varð verulega hissa en ákvað að fara til nágrannabæjarins, Vingåker, og fá mér eitthvað. Ég fann þar hamborgarastað þó að hamborgari væri kannski ekki það sem ég helst vildi fá mér. Það var mikill erill í Vingåker og ég gerði mér ekki grein fyrir hvers vegna. Þá vissi ég ekkert um þessa hefð.
 
Fjöldi fólks var á ferðinni út og inn á hamborgarastaðnum eins og annars staðar. Margir heilsuðu mér, lyftu henti í kveðjuskini, og ég var nú svo aldeilis hissa á því hversu viðmótsþýtt fólk var þarna í Södermanland. Það var eitthvað annað en upp í Dölum. Það var ekki fyrr en all löngu seinna sem ég skildi það að fólk var í hátíðaskapi vegna dagsins. Svo var það einnig í Fjugesta í dag.
 
Þegar ég kom svo aftur í Vornes frá Vingåker fann ég fólk að lokum. Danska konan Jette vann þá helgi og þegar ég kom í fyrra skiptið var hún með alla innskrifaða í grúppu. Þá voru ekki jafn margir innskrifaðir í Vornesi og nú til dags og það fór ekki mikið fyrir fólkinu. Jette tók vel á móti mér og bar fyrir mig smurt brauð og kaffi. Ekki svo löngu seinna hætti hún í Vornesi og ég fékk stöðuna hennar.
 
Þegar við vorum á leiðinni heim frá Fjugesta í dag var frostið 17 stig. Í Fjugesta var frostið 10 til 13 stig, svona eftir því í horum enda götu við vorum stödd. Samkvæmt tölvuspánni á að verða yfir 20 stiga frost annað kvöld en samkvæmt textavarpinu á það einungis að vera helmingurinn af því. En hvað um það; motorhitarinn er kominn í samband og ég þarf bara að setja eina kló í samband við útihurðina, þá fer bílvélin að hitna. Ég er búinn að bera inn talsvert magn af góðum viði og við erum vel undirbúin. Svo er blæja logn í þessu frosti
 
Ps. Ég veit að ég hef bloggað áður um þessa fyrstu ferð mína í Vornes.


Kommentarer
Björkin.

Látið þið ykkur ekki vera kalt elskurnar mínar.KKKNNNNNNNÚUUUUUUUUSSSSSSSSSS

Svar: Engin hætta, það er mikill eldiviður kringum kaminuna og í lítilli tunnu í forstofunni. Þurr og tilbúinn til að ylja okkur.
Gudjon

2012-12-03 @ 19:30:59


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0