Sitt lítið af hverju

Það varð aldeilis breyting í veðrinu. Það er kominn eins stigs hiti og það á að vera eins stigs hiti í tvo daga. Síðan á að kólna með hógværð niður í fjögurra til sex stiga frost. Þessi hlýnun olli auðvitað snjókomu meiri hluta dagsins, svo sem tíu sentimetrar mælist snjókoman í dag. Seinni partinn í dag mokaði ég mig á nokkra staði sem ég þurfti að komast að hér heima og það er jöfn 40 sm snjódýpt yfir öllu núna. Þetta hlýtur að vera kjörfæri fyrir hestasleða, en það datt mér í hug áðan þegar ég sá mynd norðan úr Dölum  á Facebook.
 
Eigandi þessarar myndar er hún Kerstin Korsgren í Borlänge og það er dóttir hennar sem stendur hjá hestinum. Kerstin lánaði mér myndina með ánægju. Fólk upp í Dölum er duglegt við að halda í hefðir og þetta er hluti af því. Ég gæti alveg hugsað mér að setjast þarna í sleðann hjá jólasveininum og aka um svæðin kringum Borlänge og Falun. Mikið yrði svo gott að koma inn á eftir og fá sér heitt kakó og brauðsneið með góðu áleggi.
 
*
 
En við hér heima höfum sýslað við allt annað en hestasport í dag. Það má segja að það hafi náðst ákveðinn áfangi hér í dag. Okkur hefur vantað þurra og góða geymslu, það stóra að það sé hægt að ganga á milli kassastæðana þegar búið er að raða upp við báða veggi. Ég náði því í dag að gera svona geymslu nothæfa þó að hún sé alls ekki búin. Á meðan sorteraði Valdís ýmis konar dót sem þolir að vera í óupphitaðri geymslu og gekk frá því í kassa.
 
Hér er nefnilega þessi geymsla, uppi í risinu í Bjargi. Ég fór Um mitt sumar til hans Bengts í BFs byggingavöruversluninni og bað hann að fá hugmynd að sperrum þar sem ekki væri fullt með stífur og stoðir sem eyðilegðu allt geymnslupláss. Hann hafði samband við trésmiðjuna sem smíðar sperrurnar fyrir þá og daginn eftir hringdi hann til mín og sagði mér að koma til að skoða. Mér datt þetta aldrei í hug, svona gríðarlegt geymslusvæði. Það kostaði að hafa talsvert breiðara efni í sperrunum og þær urðu dálítið dýrari í innkaupum, en það var bara alls ekki hægt að ganga framhjá því að fá tæplega fjögurra metra breiða geymslu þarna upp í risinu. Lúgan á gaflinum á móti er 95 sm há og 80 sm breið þannig að hún gefur góða hugmynd um stærðina. Kasaarnir sem Valdís sorteraði í í dag eru nú komnir þarna upp og ég raða þeim svo á sinn stað á morgun eftir sjónvarpsmessuna.
 
Ég las um myglu í húsum á Íslandi um daginn og þess vegna birti ég þessa mynd. Það á að vera gott loft uppi í risinu og því er góð loftræstirauf á báðum hliðum. Fyrir henni er alúmíníum net þannig að kraftaverkamýs sem kæmust upp undir þak verða að láta þarna staðar numið. Geitungar verða líka að gera bú sitt annars staðar en uppi í risinu og flugur af öllu tagi verða líka að láta þarna staðar numið. Einangrunin er 21,5 sm og þá er eftir að bæta vel ofan á þessa einangurun alla og klæða svo samfellt gólf á milli stoðanna. Það verður ekki gert á næstu vikum og dót verður bara sett upp í annan endann að sinni. Upphitaða geymslan verður svo niðri og hún verður ekki gerð í stand á næstu vikum heldur. Það er eins og stólpinn þarna lengst til hægri halli en ég get sko upplýst að hann hallar hreint alls ekki. Ég skrifa hallann á myndavélina.
 
Varðandi loftræstinguna, þá er einangrað á milli sperra í íbúðarhúsinu, en þar er 5 sm loftræsting yfir allri einangruninni. Þar verður engin mygla. Það kostar bæði svolitla peninga og töluverða vinnu að gera svo, en ég endurtek; þar verður engin mygla.
 
Ég segi svona frá þessu vegna þess að ég veit um fólk sem vill gjarnan vita hvernig við gerum. Þeir sem ekki hafa þann áhuga geta þá valið að sleppa lestrinum.
 
Eftir morgundaginn ætla ég að einbeita mér að jólaþrifunum. Valdís bítur stundum í sig að gera allt mögulegt og ég hreinlega verð stundum að stoppa hana. Hún er sko hreint ekki af baki dottin konan mín. Hér áðan var hún að tala um að baka döðlutertu og soðiðbrauð og það ætti bara að nægja fyrir hana. Já, og svo bað hún mig að kaupa rjóma í dag þar sem hún ætlaði að búa til rjómaís fyrir jólin.
 
Ég veit af reynslunni að þegar ég er byrjaður á að þrífa, þá er erfitt að stoppa mig. Ég vil gjarnan leggja mig á hnén og næstum sleikja öll horn, gera alveg sérstaklega vel fyrir jólin. Þegar við bjuggum á bjargi tók ég eldhúsgólfið alltaf hreint á þann hátt og fannst að bara ég mætti gera það. Ég á svolítið erfitt með að hætta því. Og svona til gamans; á mánudaginn ætla ég að fara mjög svo léttklættur inn á bað og þrífa það svo um muni.


Kommentarer
Björkin.

Mikið er loftið rosalega flott.Og mikið pláss þarna uppi.Farið vel með ykkur mín kæru hjón.Góða nótt.

Svar: Nú er kominn nýr dagur svo að ég segi bara góðan daginn.
Gudjon

2012-12-15 @ 23:01:26


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0