Hlustað undir pönnuþvottinum

Ég stóð við eldhúsvaskinn þegar kvöldið var gengið í garð og þvoði tvær steikarpönnur. Þá var tími til kominn að ég gerði eitthvað í eldhúsinu líka á þessum degi. Ég velti því fyrir mér hvað þessi dagur hefði gefið og var búinn að finna eitt og annað sem var vert að upplifa. Þá heyrði ég allt í einu að verið var að rifja upp atburð sem átti sér stað einhvern tíma síðastliðinn vetur. Tvö systkini voru að leika sér við vatn sem var að hluta ísi lagt. Þau duttu bæði í vatnið en drengnum tókst að ná sér upp úr en systir hans rak inn undir ísinn. Ég giska á að hún hafi verið fjögurra til sex ára. Mamma kom hlaupandi og fór út á glæran ísinn. Fljótlega sá hún dóttur sína lifvana undir ísnum aðeins í nokkurra sentimetra fjarlægð frá fótum hennar.
 
Hvernig ætli móður líði við þessar aðstæður? Hvað ætli henni detti í hug að gera? Mamman í þessu tilfelli ákvað að hoppa. Hún hoppaði en ísinn var of sterkur. Hún færði sig úr stað og hoppaði aftur og hún færði sig aftur og aftur og hoppaði aftur og aftur. Loks fann hún stað þar sem ísinn gaf sig og hún náði til dóttur sinnar. Dóttirin var flutt á sjúkrahús þar sem líkamshitinn var aukinn undir eftirliti. Einhverja daga var hún í öndunarvél og allt var gert til að bjarga henni með sem minnstan skaða eftir þetta mikla áfall. Það var talað við þessa litlu stúlku í sjónvarpinu áðan og hún var svo ótrúlega eðlileg. Það var líka talað við mömmuna sem hoppaði eins og hún ætti lífið að leysa. Hún bjargaði lífi. Að hlusta á þetta var án alls efa upphafið yfir allar aðrar upplifanir dagsins.
 
Í morgun horfðum við Valdís á sjónvarpsmessuna. Minnst sagt þá var þessi messa öðru vísi en hefðbundnar messur eins og við könnumst við þær. Þetta var öllu frekar tónverk með ljóðlínum á stangli og nokkrum töluðum orðum, einnig á stangli. Presturinn sem predikaði var höfundur alls þessa og nafn hennar sem höfundar kom á skjáinn fjölda mörgum sinnum meðan á flutningnum stóð. Ég var vonsvikinn með messuna og þarna sat ég og var farinn að dæma messuformið og höfundinn. Allt í einu sagði presturinn í einni af predikunarsetningum sínum sem komu á stangli mitt í tónlistaratriðunum að það væri auðvelt að dæma en gera ekkert sjálfur. Þarna var hún á skjánum og virtist horfa beint í augu mín og það var eins og hún vissi hvað ég var að hugsa. Mér liggur við að segja að ég dró undir mig lappirnar og eitthvað hálf herptist saman innan í mér.
 
Mér varð hugsað til þess sem ég hef oft sagt í blogginu mínu að þetta og þetta sé ekkert sem mér beri að segja en svo bæti ég því við að ef enginn segir neitt en gáir bara að því hvað aðrir segja, þá verður afar lítið sagt. Þannig er nú það. Messan hafði áhrif á mig. Ég ætla að reyna að vera auðmýkri næst þegar ég hlusta á sjónvarpsmessuna, dæma minna og komast frá messunni ánægðari með sjálfan mig.
 
Stuttu eftir messuna gekk Valdís að eldhúsbekknum og byrjaði að færa til hluti og tína fram aðra hluti. Ég spurði hana hvað hún ætlaði að fara að gera og hún sagíst nú vilja vera í friði með sína eigin óreiðu á eldhúsbekknum um stund. Stuttu seinna veltist yfir eldhúsbekkinn hveiti sem hún bleytti með heitri mjólk og í hönskum var hún, ötuð í blautu hveiti, og vissulega var óreiða næst eldhúsvaskinum. Þar ægði saman eggjaskurn ásamt einhverjum umbúðum, sleifum, skeiðum og spöðum sem tilheyrðu þessari framkvæmd. Ég fór út til að sinna mínu og það fyrsta var að moka snjó úr slóðum og innkeyrslunni að bílskúrnum. Ég ætlaði að gera eins og hún óskaði að blanda mér ekki inn í þessar athafnir.
 
Nokkru síðar ilmaði nágrenni hússins af nýsteiktu soðiðbrauði. Það var greinilegt að það var fleira en Valdís sem var í gangi. Eldhúsviftan virkaði augljóslega líka og dældi út þessari góðu lykt sem setti í gang gerfihungur mitt. Svo tilkynnti Valdís að það væri til nýtt kaffi og soðiðbrauð. Það var nú komið skipulag á eldhúsbekkinn aftur og eftir kaffitímann sneri hún sér aftur að eldhúsbekknum og nú byrjaði hún á jólaísnum. Þegar ég talaði um hvort það væri ekki hægt að dreifa þessu niður á dagana ansaði hún mér ekki. Það hefur alltaf fundist svolítil ótemja í þessari konu. Mér varð hugsað til þess þegar hún gekk að verki sem ung kona, þá innan við tvítugt, að það gekk undan. Þegar hún vaskaði upp og ég þurrkaði hafði ég ekki við. Svo vildi ég seinna skipta um hlutverk og vaska upp til að sýna henni að ég gæti verið fljótur líka en þá var það hún sem beið eftir mér.
 
Þegar ég skrifa þetta minnist ég atviks í Örebro fyrir fjölda mörgum árum. Kona sem Valdís þekkti leitaði hjálpar okkar þar sem hún hafði læst lyklana inni í bílnum sínum. Það var áríðandi fyrir hana að komast inn í bílinn því að hún ætlaði snemma morguninn eftir upp í Dali í viðtal þar sem hún hafði verið ráðin sem skólastjóri. Við fórum með henni að bílnum og ég með vír sem ég hélt að mundi verða til hjálpar við að ná upp læsingahnappnum. Ég bjástraði lengi við þetta sem ég hafði oft þurft að gera við mína bíla og með góðum árangri. Nú vildi ég gjarnan verða til hjálpar en gekk illa. Allt í einu spurði þessi ágæta kona mig spurningar sem ég átti ekki von á. Hún spurði mig hvort ég vissi örugglega hvers konar afbragðs góðri konu ég væri giftur. Ég varð hissa en hún bara var þannig sjálf þessi kona að spurningin var ekki óþægileg eða skrýtin. Ég sagðist vita það en ég held að ég hafi haft gott af að vera spurður þessa. Við sáum eftir henni þegar hún flutti frá Örebro.
 
Ég var vissulega með ákveðna hluti í huga þegar ég byrjaði á þessu bloggi en svo varð það allt annað sem sem fæddist. Mér tókst ekki að opna bílinn fyrir skólastjórann upp í Dölum en seint og síðar meir birtust þarna einir þrír ungir menn og við ræddum um það í hálfum hljóðum að þeir væri til alls vísir þessir dularfullu náungar. Þeir mundu líklega vera vanir svona vinnu að næturþeli. Við spurðum þá og þeir töldu sig geta orðið til hjálpar en svolítið voru þeir spotskir á svip. Mér til mikillar ánægju gekk þeim illa að opna bílinn en það bjargaðist þó að lokum. Mér fannst sem ég héldi meiri reisn fyrst þeim gekk illa.


Kommentarer
b

það er kraftur í Kiddavillasystir.Þið eruð frábært fólk.

Svar: Takk mágkona.
Gudjon

2012-12-17 @ 12:02:02
Dísa gamli nágranni

Mikið er gaman að sjá bloggið þitt aftur Guðjón.ÉG fór að skoða af rælni, þannig að það er heilmikið lestrarefni. Það er líka svo gaman að sjá þig við jólabaksturinn Valdís mín. Auðvelt að hugsa þig í Sólvallagötunni að störfum. Bestu kveðjur til ykkar úr Sólvallagötu 2

Svar: Takk Dísa mín, alltaf gaman að fá góðar kveðjur. Vegni ykkur Ottó sem allra, allra best. Myndin af ykkur á Facebook er alveg frábær.
Með bestu kveðju frá Valdísi og Guðjóni
Gudjon

2012-12-18 @ 18:21:05


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0