Við getum ekki tínt allar fallegu skeljarnar á ströndinni

Í fyrradag sá ég all nokkrar fyrirsagnir um réttarhöld sem tengjast frjálslegri meðferð manna á miklum fjármunum, fjármunum sem eru ofar mínum skilningi  að fjalla um. Ég var að hugsa um að lesa eitthvað af þessu en las þó aðeins nokkrar fyrirsagnir og nokkrar línur að auki. Ég hreinlega vildi ekki lesa þar sem mér fannst að ég mundi ekki hafa gott að því. Svo ýtti ég stólnum aðeins aftur á bak frá skrifborðinu og leit þá ósjálfrátt á bókina Kyrrð dagsins.
 
Já, einmitt, það voru einhverjir dagar síðan ég hef lesið vísdómsorðin á síðum þessarar bókar. Á síðunni sem þá blasti við mér vegna stóð eftirfarandi: "Við getum ekki tínt allar fallegu skeljarnar á ströndinni. Við getum aðeins tínt örfáar og fáar saman eru þær fallegri." Anne Morrow Lindbergh (1906 - 2001) Þessi kona var rithöfundur og kona Charles Lindbergh flugmanns.
 
Mér fannst sem það væri ekkert samhengi sem ég gæti fundið með þessum vísdómsorðum og öllum fyrirsögnunum um réttarhöld og miklar vitnaleiðslur sem fyrirsagnirnar í íslenskm fjölmiðlum fjölluðu um. Svo þegar ég var að reisa mig upp úr stólnum til að ganga fram stoppaði ég og leit aftur á vísdómsorðin. Jú, það var akkúrat það. Það er svipað med þessar skeljar og peningana; í hæfilegu magni getur fjármagn skapað lífsgæði, peningar í of mikli magni skapar ófreskjur sem engu eira. Nokkrar skeljar saman eru fallegri en óreiðuhaugur sem við aldrei komumst yfir að ganga fallega frá.
 
*
 
Í gær var spáð mikilli snjókomu. Svo klukkan tæplega hálf sjö í morgun vaknaði ég við að hann Mikki bóndi æddi hér framhjá á stóru dráttarvélinni sinni. Hann var að moka vegina hér og þá gengur það hjá honum. Um sama leyti voru alþingismenn íslendinga að fara heim úr vinnunni. Sá var bara munurinn á gerðum þeirra að alþingismennirnir voru búnir að vinna fyrir laununum sínum með því að afla Alþingi virðingar á ný með ræðuhöldum næturinnar. Mikki var að byrja að vinna fyrir laununum. Svo kom Mikki til baka eftir að hafa farið veginn á enda til norðurs og nú voru öllum allir vegir færir hér um slóðir. Hann er fljótur að hreinsa vegina hann Mikki og gerir ekkert vesen úr því.
 
 *
 
Í dag birti ég á FB íslenska frétt af dönskum manni sem talar um að íslenskur efnahagsbati sé kominn í ljós. Enginn likaði þetta FB-innleg mitt og ég skoðaði blogg um fréttina á Eyjunni. Daninn var bara bjáni. En það voru samt Danir sem spáðu eindregnast af mörgum þjóðum fyrir um íslenska efnahagshrunið og Íslendingarnir gerðu bara grín að Dönum. Ég vona samt að hann hafi rétt fyrir sér. Ég hef ekkert á móti því að ellilaunin okkar Valdísar vaxi aftur að verðgildi um hluta þeirrar helmings lækkunar sem hrunið olli árið 2008.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0