Gamlárskvöld 2012

Við vorum að tala um það áðan við Valdís hvenær veturinn hefði byrjað og að það væri nú meiri vitleysan að færa ekki dagbók þannig að hægt væri að fletta upp á svona löguðu. Svo varð mér hugsað til nokkurs sem ég bloggaði um fyrir löngu síðan, að bloggið væri dagbókin mín, og þá fór ég í efnisyfirlitið á blogginu mínu og fann blogg frá 29. nóvember. Þá bloggaði ég undir yfirskriftinni Vetrarkoma. Þá var að byrja að snjóa.
 
Það er búinn að vera hörku vetur. Annars veit ég ekki hvort fólk sem hefur búið við alla þá stórhríð sem Vestfirðingar og Norðlendingar hafa búið við undanfarið kalla það hörkuvetur þegar logndagarnir reka hver annan vikum saman. Logn, snjókoma og frost allt að niður fyrir 25 stig er hörku vetur hér en þægilegur vetur miðað við vindbelging og hálf endalausar stórhríðar.
 
Nú er hláka hér og snjórinn hefur minnkað mjög mikið. Í fyrrinótt vaknaði ég tvisvar sinnum og gerði mér ekki almennilega grein fyrir hvað var á ferðinni. Klukkan þrjú leit ég út og þá sá ég að fyrsta snjóhúsið sem ég hef byggt í þessu landi var jafnað við jörðu. Ég sá eftir því. Ég sá líka að snjórinn var runnin af þökunum. Það var þess vegna sem ég hafði vaknað. Þegar allt að hálfs meters þykkur snjór rennur fram af þaki heyrist það vel.
 
Í gær fór ég í vinnu og vann í nótt. Ég var farinn að hálf sjá eftir að hafa tekið þetta að mér en svo reyndist það bara vel að hitta þetta fólk og það reyndist mér vel að þurfa að einbeita mér að einhverju öðru en því sem ég hef fengist við undanfarið. Ég hugsa líka að ég sé heldur skemmtilegri heimilismaður ef ég geri þetta öðru hvoru. Í gærmorgun áður en ég fór mundi ég ekki eftir því að það voru 51 ár síðan við Valdís fórum heim til séra Árelíusar og létum gifta okkur. Svo vorum við að tala saman í síma seinna í gær og þá kom þetta upp.
 
Í Vingåker er hin besta blómaverslun og þar kom ég við á leiðinni heim. Þær eru mjög liprar þar við að útbúa fína blómavendi og það var nú annað hvort að konan mín sem var búin að vera ein heima, bæði þessa nótt og margar aðrar á undanförnum árum, fengi sæmilegan blómavönd fyrir 51 ár með mér.
 
Við erum að hugsa um að senda á loft svo sem einn af þessum belgjum sem svífa upp af hitanum frá svolítilli vaxplötu sem kveikt er í neðst í belgnum. Ég hef ekki hugmynd um hvað svona lagað heitir. Það verða engir flugeldar og þá höfum við bara ekki verið með síðan ég hætti að drekka mig fullan og vitlausan um það leyti sem flugeldarnir voru seldir hér áður fyrr. Á gamlárskvöld var ég ragur við að drekka þar sem nýársdagurinn var þá svo hræðilegur þegar aðrir sváfu og slöppuðu af fram eftir öllum degi en innri óróleiki ásótti mig. Hins vegar var auðvitað kveikt í þeim rakettum og púðurkellingum sem búið var að kaupa.
 
Við hreinlega viljum ekki borga fyrir þessa hluti sem fólk síðan skýtur þvers og krus og af verður mikill óvinveittur mökkur, megn fýla og árans hávaði. Öll dýr skógarins tryllast af skelfingu meðan þetta stendur yfir og leggja á flótta og mæta hvert sem flúið er sömu skelfingunni. Skelfing hvert sem flúið er og þá getur það varla orðið skelfilegra. Fuglarnir geta reynt að stefna mót háum himni en þar er ekki friður heldur. Sem sagt; ægilegar þjáningar milli fjalls og fjöru og svo hátt upp í himinhvolfið sem nokkur fugl getur hafið sig. Nei, þá er hægt að gefa penginga til góðgerðarmála án þess að standa í þessum ósköpum. En svona er það; ég er hræðilega gamaldags. Ég veit þó að glorhungruðu barni þykir matarskammtur mikið fallegri en flugeldur og fólki í nauð þykir hljóðið í snjósleða mikið fallegra en sprengingar á gamlárskvöld. Og enn hampa ég mínum gamaldags hugsunarhætti. Akkúrat í þessum orðum skrifuðum varð all mikil sprenging skammt frá hér í okkar annars friðsama byggðarlagi.
 
Ég leit á spána á sextavarpinu áðan. Ég fæ ekki betur séð en daginn hafi þegar tekið að lengja um þrettán mínútur hér á okkar svæði. Svo eykst hraðinn þegar lengra líður á janúar og það hyllir undir bjartari tíðir. Áramótin sem eru nú fáa tíma framundan eru þó það sem er í gangi núna. Hér á bæ eru engin áramótaheit en ég held að ég geti sagt fyrir okkur bæði að við viljum bæði taka skref framávið sem manneskjur þetta ár sem svo mörg önnur. Áramótin eru auðvitað tími til að íhuga hér eins og svo víða.
 
Hér erum við komin í áramótasparifötin og maturinn er kominn á borðið. Á veggnum yfir öxl Valdísar er loftvogin sem pabbi hennar fékk frá foreldrum sínum. Hún er því búin að lifa ein og önnur áramótin umfram okkur og spá fyrir um mikil veður, vafalaust frostaveturinn 1918 og trúlega líka einhver kuldaár fyrir næstsíðustu aldamót. En það má heldur ekki gleyma öllum góðviðrisdögunum sem þessi loftvog er búin að spá á þessari öld, þeirri síðustu og væntanlega þeirri næst síðustu. Valdís gengur oft að henni og bankar í glerið til að sjá á hvaða leið vísirinn er.
 
Nú skulum við borða sagði Valdís þegar við vorum búin að taka nokkrar myndir og maturinn var á borðinu. Og mjúk og safarík var léttreykta skinkan. Svo lumaði Valdís á heimagerðum ís í frystinum gerðum eftir uppsklrift sem hún er búin að nota fyrir jól og aðra stóra daga í ein 30 ár. Svo kom mánaðarlega kaupfélagsblaðið hér heim fyrir jól í því var þessi gamla uppskrift Valdísar. Þetta er svona eins og þegar gömul tíska kemur til baka eftir einhverja áratugi. Ég á útvíðar buxur sem eru þröngar um hnén en þó ennþá þrengri um lærin. En eitthvað hefur breytst, það hljóta að vera buxurnar, því að þær eru svo rosalega langt frá því að ná saman um mittið (komast reyndar alls ekki svo langt upp). Það verða engin áramótaheit um það mál, en trúlega verður hent úr jólakökudunkunum fljótlega eftir áramótin. Það er af sem áður var þegar ég gat borðað hauga af þessum kökum og drukkið mjólk með, en samt var ég með horstrenginn undir bringsbölunum. Nú er ég þar með grautlinan og ólánlegan vetrarforða sem aldrei þarf að nota. Mér þykir allt of vænt um lífið til að gera ekkert í því óheilla máli.
 
Það er margt að taka á og það er margt að lifa fyrir. Ég stalst út á Bjarg nokkru eftir að ég kom heim úr vinnunni. Þar einangraði ég nokkra metra af útvegg og þar úti hef ég allt til að einangra nokkra metra í viðbót. Síðan er Bjarg einangrað í lofti og á veggjum. Með hækkandi sól er brátt kominn tími til að velja tré sem falla eiga í valinn fyrir grisjun vetrarins. Svo er að fella þau, búta niður, flytja heim og kasta í haug til að byrja með. Þá verður kominn tími til að grafa nokkrar holur, fylla af góðri mold og flytja nokkur ungviði úr skóginum á staði til frambúðar. Það er af nógu að taka á nýju ári og það er allt skemmtilegt nema þá kannski helst að fella tré sem eru búin að vera augnayndi í mörg ár.
 
Svo óskum við Valdís gleðilegs árs og þökkum fyrir samverustundir bæði þessa árs og á síðustu áratugum.


Kommentarer
Anonym

Gleðilegt ár til ykkar beggja frá okkur Jóa.

Bestu kveðjur,

Þórlaug

Svar: Og okkar bestu kveðjur til baka.
Gudjon

2013-01-01 @ 13:33:30
Dísa gamli nágranni

Við Ottó óskum ykkur heilsu og gleði á nýju ári.
Kvðjur í Sólvelli

Svar: Takk sömuleiðis og alveg sérstaskar þakkir fyrir heimsóknina síðastliðið sumar.
Gudjon

2013-01-05 @ 00:00:13


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0