Vetrardagar

Eins og venjulega voru fyrstu frostdagarnir býsna kaldir. Það var eins og engin föt nægðu og kuldinn smaug lúmskur alveg inn á skinnið. Ég gaf mig ekki og fór inn og sótti meiri föt, aftur og aftur, og hélt áfram úti við og svo var eins og ég vendist frostinu.
 
Þessa mynd birti ég á Feisbókinni í gær en svo breytti ég henni svolítið. Stundum æfi ég mig í því að gera eitthvað öðru vísi en alltaf áður og ég tók neðan af þessari mynd til að gera húsin meira áberandi. Húsið þarna til hægri, húsið sem við köllum Bjarg, er ekki eins tilbúið og það kannski lítur út fyrir að vera. Það til dæmis vantar gerefti bæði á glugga og dyr. Svoleiðis kemur ekki fyrr en seinna þegar einangrun er komin í húsið og hægt verður að hita aðeins upp til að geta málað inni. Ekki set ég upp ómáluð gerefti. Vinnupallarnir hans Anders smiðs eru í haug þarna lengst til hægri. Hann er núna að vinna við næst næsta hús norðan við okkur og ætlar að nota vinnupallana þar, þannig að þeir fá að liggja þarna enn um sinn.
 
Næsti haugur, sá sem ber í bílskúrshurðina, er bekkur sem ég smíðaði undir vélsögina mína árið 2006. Haganlegur bekkur er það og hefur komið að miklu gagni en hann hefur alltaf verið úti og er nú orðinn hrumur af fúa. Við tækifæri ætla ég að smíða nýjan bekk, mikið minni, og hafa hann á tveimur hjólum þannig að ég geti ekið honum eins og hjólbörum þangað sem ég vil hafa hana hverju sinni. Þessi gamli bekkur fer á haugana fljótlega. Svo er kerran okkar þarna. Hún á að fá stæði við suðurgaflinn á Bjargi svona þegar vorar. Þá er komið að leikturninum hans Hannesar sem er fyrir miðri mynd. Að vori verður hann málaður í stíl við húsin og þá á hann að falla inn í umhverfið.
 
Svona er eitt og annað eftir og ég gæti haldið lengi áfram með að telja það upp. En hins vegar er það svo að þegar Bjarg verður komið í notkun, þá er full byggt á Sólvöllum. Annað verður svo frístundavinna framtíðarinnar ásamt því að hlú að skóginum. En að byggja Bjarg var stærra verkefni en svo að það gæti kallast frístundavinna. Annars var ég að byrja að einangra aftur í dag eftir að slíkt hefur legið í láginni í nokkrar vikur. Þegar ég var kominn í gang varð svo gaman að ég ætlaði ekki að geta hætt þegar kvöldmatartíminn gekk í garð.
 
Peysan sem ég er í þarna er frá síðari árunum sem við bjuiggum á Bjargi. Þá prjónaði Valdís hana. Ég er þarna í annarri peysu undir henni en hún nægði ekki. Þá var bara að bæta á og í þessari peysu varð mér loks almennilega hlýtt. Þá varð líka gaman að vinna. Ég á aðra sannkallaða vetrarpeysu, en þá peysu prjónaði Valgerður fyrir mörgum árum. Hún verður til taks ef annað þrýtur.
 
Í rökkurbyrjun tók ég þessa mynd. Hún er vetrarleg en vetrarlegra getur það orðið. Myndavélin réði ekki alveg við þetta og skógurinn var fallegri en fram kemur á myndinni. Ég hef oft sagt að upp koma augnablik eða stundir á veturna þegar ég get alveg spurt mig hvort sé fallegara sumar eða vetur. En þær stundir er skógurinn ennþá fallegri en nú. Þá er allt þakið hrími líka. Þegar sólin byrjar svo að skína við þær aðstæður á morgnana er umhverfið algerlega ólýsanlegt. Snjódýpið núna er 30 sm og aldrei slíku vant eru aðeins skaflar hér. Þar er snjódýptin vel upp í hálfan meter. Hálfur meter! Fleiri metrar var það í Hrísey forðum daga þegar margra daga stórhríð slotaði. Við söknum ekki þeirra skafla.
 
Á morgun er frídagurinn mikli. Þá förum við Valdís á revíu og þar eigum við að vera mætt í hádeginu. Takið nú eftir; í hádeginu. Svo verður revía fram eftir degi og þríréttaður matur borinn fram milli atriða. Svo komum við heim á kvöldmatartíma en þurfum væntanlega ekki að fá okkur að borða. Revíuhaldarinn kallar sig Hjalmar. Hann er maður rúmlega sextugur, giftur mikið yngri konu. Ég sagði um daginn að Kalli frá Orsa sé einhvern veginn þannig maður að þegar hann gengur fram á sviðið með hálf útbreiddan faðminn, þá bara verða allir glaðir. En Hjalmar hefir til að bera annan eiginleika. Þegar hann gengur fram á sviðið fara allir að hlæja. Honum verður á að hreyfa annan fótinn eitthvað öðru vísi, hálf hrasa um eitthvað, spyrja skrýtinnar spurningar, sjúga upp í nefið eða vera seinn að fatta, og hann einfaldlega gerir þetta á þann hátt að það verður hlægilegt. Eitthvað er það þegar fólk kemur hvaðanæva að úr landinu til að upplifa Hjalmar í Örebro og fá sér að borða.
 
Morgundagurinn verður góður dagur og við værum ekki að fara þetta akkúrat núna ef Valdís hefði ekki átt afmæli um daginn.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0