Brún terta, snjómokstur og gluggatróð

Það var löngu eftir að hann Mikki hafði rutt vegina hér á svæðinu snemma í morgun sem ég rölti af stað með snjóskófluna okkar og ætlaði að "byrja" snjómoksturinn. Ég setti mér að taka moksturinn í áföngum því að þá yrði ekki eins leiðinlegt að moka. Svo þegar ég var byrjaður hljóp mér kapp í kinn og ég lauk mokstrinum í einum áfanga. Ég varð glaður eins og barn en sá þó að það fyllti ótrúlega fljótt í slóðirnar aftur. Svo bar ég inn við til að fylla upp í skarðið eftir upphitun gærdagsins. Þegar ég var búinn að því var það fyrsta sem ég mokaði að hverfa undir nýja mjöll og Mikki var þá líka kominn af stað öðru sinni. Svo var hádegismatur.
 
Meðan ég var inni í mat bað Valdís mig að setja hrærivélina upp á eldhúsbekkinn. Ég renndi grun í hvað stæði til. Ég setti hrærivélina á eldhúsbekkinn og fór svo út á Bjarg að vinna. Þegar ég var búinn að vera þar svo lengi að mér var orðið kalt á höndunum fór ég inn. Það var eins og mig grunaði, hvítt krem í skál var á eldhúsbekknum og Valdís var að leggja fyrsta lagið í brúnu tertuna á bekkinn. Svo tók hún slatta af kreminu og setti í haug á lagið og byrjaði að jafna úr.
 
Ég veit ekki hvernig hún fór að því, en skammturinn af kreminu sem hún lagði á lagið passaði nákvæmlega. Á ég að hjálpa, spurði ég. Nei, svaraði hún og leit ekki upp. Þá var ég þegar búinn að taka mynd og kom mér á ný að verki úti í Bjargi. Svo seint og síðar meir kom pósturinn og ég mokaði slóðirnar á ný. Það eina sem var í okkar póstkassa var DAM, vikurit um einkalíf konungafólks. Nokkru eftir það fór Mikki þriðju umferðina um vegina.
 
Það eru margar vikur, næstum mánuðir síðan við Anders settum gluggana og hurðirnar í Bjarg. En það var fyrst í dag sem ég lauk við að ganga frá gluggatróðinu. Ég var áður búinn að einangra rúmlega helminginn af loftinu. Þegar ég hafði lokið við að ganga frá gluggatróðinu virti ég húsið fyrir mér innan frá og svo skrýtið sem það nú var, þá breyttist andrúmsloftið þar inni við þessa að gerð. Bjarg varð meira eins og hús og hljóð sem bárust inn í húsið dofnuðu og urðu öðru vísi. Það verður gaman þegar ég lýk við að loka loftinu. Annars er ég ekki í neinu kapphlaupi með þetta, en áfangar eru samt alltaf jafn skemmtilegir.
 
Ég giskaði nú á að Valdís væri búin að skera kantana á brúnu tertunni og fannst kominn tími fyrir eftirmiðdagskaffi. Ég fór inn. Akkúrat. Kantarnir lágu í lítilli skál á borðinu og Valdís var að ljúka við að pakka vænum terttubitum inn í plastfólí.
 
Mikið var gott að smakka á þessu. Eini gallinn var bara sá, eins og venjulega, að það var eins og það þyrfti að smakka svo mikið. Ég átti erfitt með að hætta.
 
Þegar ég tók efri myndina virti ég Valdísi fyrir mér. Það sem ég hugsaði var eitthvað á þá leið að hún var farin að líta alveg ótrúlega vel út eftir ómannúðlega geisla- og lyfjameðferðina í sumar. Samt segja læknar að það geti tekið heilt ár að endurheimta sig eftir þetta. Seinna, í eitt skiptið sem ég leit inn, var hún farin að þrífa veggflísarnar milli eldhúsbekks og efri skápa. Þá þáði hún aðstoð mína enda er stellingin við þetta óþægileg. Það verður ekki ofsögum sagt að hún er dugleg hún Valdís og ég þreytist ekki á að segja það.


Kommentarer
Auja

Ekki að spyrja að myndarskapnum í frúnni, Valdís lítur vel út og tertan líka

Svar: Hárrétt Auja, takk fyrir að taka eftir því. Kveðja til ykkar.
Gudjon

2012-12-05 @ 23:30:13
Björkin.

Hún er ekkert smá gyrnileg tertan. ummmmmmmmm knús í hús.

Svar: Og góð er hún.
Gudjon

2012-12-05 @ 23:35:25


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0