Vinarbragð

Þegar við Valdís komum heim úr Örebroferð nokkru eftir hádegi í dag var ég svolítið í sjöunda himni og orðin léku í höfðinu á mér. Ég var með ákveðið atvik í huga sem ég stofnaði til að yfirlögðu ráði og ég var glaður yfir uppátækinu. Ég hugsaði mér að blogga um það í kvöld.
 
Eftir að við komum heim var ýmislegt að sýsla, að ganga frá fullri kerru af einangrun sem ég kom með heim og setja umbúðir og allt mögulegt á kerruna aftur til að fara með í endurvinnsluna. Öðru hvoru leit ég inn í bæ og í eitt skiptið lyktaði af vöfflum. Þá tapaði ég sjálfsaganum og borðaði meira af vöfflum en ég vil segja frá. Í einni af þessum ferðum mínum inn spurði Valdís hvenær ég ætlaði að setja ljósið upp í forstofuna. Eitthvað herptist saman innan í mér og að ég hafði einhvern tíma keypt þetta ljós var alls ekki til í huga mér. Það var löngu gleymt og ég var viss um það að ég hafði ákveðið þegar ljósið var komið heim á sínum tíma að þetta sæi hann Patrik rafvirki um. Ég er ágætur við ýmislegt en að eiga við rafmagn á ég alls ekki að láta mér detta í hug að gera.
 
En ég sá spurninguna sem áskorun og svo fór ég í uppsetningu á þessu blessaða ljósi, gegn vilja mínum og með hálfgerðum hundshaus. Svo þegar rafmagnið allt í einu fór af húsinu sá ég mikið eftir því að hafa farið út í þetta. Andagiftin var nú með öllu horfin á braut og lífið var orðið grátt og tilgangslítið. Ljósið komst upp að lokum og ekki gat ég neitað því að það var býsna snoturt og passaði mikið betur í forstofuloftið en bráðabirgðalampinn sem hafði hangið þar allt of lengi. Svo fórum við að borða, Valdís alsæl yfir hálfum sviðakjamma og ég með gæðalax frá djúpum fjörðum í Noregi -en hundshausinn át frá mér lífsgæðin.
 
Það var barnaefni í sjónvarpinu og það fór að mestu leyti inn um annað og út um hitt en þó tók ég eftir orðinu "alkemist" -gullgerðarmaður. Svo fórum við að tala um orðið gullgerðarmaður. Ég sagði Valdísi frá bókinni Alkemisten -sem sagt gullgerðarmaðurinn- en í þessari bók var gullgerðarmaðurinn meira í hlutverki hins vísa manns. Fjárhirðir á Spáni óskaði sér að fara út í heim og því seldi hann féð sitt, tók sig yfir Gíbraltarsundið og hóf ferð um norðanverða Afríku. Hann lenti í ýmsum ævintýrum og fyrsta ævintýrið var að tapa öllum peningunum sem hann hafði fengið fyrir féð sitt. Hann var góður fjárhirðir en hann var hins vegar algerlega bláeygur fyrir hinum ókunna heimi.
 
Að lokum hitti hann gullgerðarmanninn sem einmitt var afar vís maður. Dag einn riðu þeir hestum í grýttri eyðimörk og nálguðust átakasvæði. Allt í einu sáu þeir tvo hermenn koma ríðandi og fjárhirðirinn sagði hræddur að nú yrðu þeir drepnir. Gullgerðarmaðurinn tók þessu með mikilli yfirvegun og sagði: Einhvern tíma deyjum við hvort sem er, er þetta nokkuð verri dagur til þess en einhver annar? Svo voru hermennirnir komnir til þeirra, þeir ræddust svolítið við og svo riðu þeir á braut á ný. Þeir höfðu engan áhuga á að drepa vísan gullgerðarmann og fjárhirði frá Spáni. Þegar fjárhirðirinn var búinn að hitta gullgerðarmanninn og sjá heiminn valdi hann starf fjárhirðis á ný, fór heim til átthaganna og eignaðist kindur á ný.
 
Þegar ég var búinn að segja Valdís frá þessu litla ágripi úr bókinni Gullgerðarmaðurinn var hundshausinn horfinn á braut. Hundshausinn nefnilega þoldi alls ekki svona umræður og atvikið sem ég stofnaði til í morgun tók völdin á ný. Það var nefnilega svo að við Valdís lögðum af stað héðan að heima klukkan rúmlega tíu í morgun. Valdís ætlaði í verslunarmiðstöðina í Maríeberg þar sem er að finna yfir 100 verslanir undir einu þaki á 4,5 hektara svæði. Þar fór hún úr bílnum en ég hélt áfram með ruslið í endurvinnsluna og síðan í BFs byggingarvöruverslun. Þar ætlaði ég að kaupa einangrun en fyrst að borga all háan reikning
 
Bert á þessa byggingarvöruverslun og ég komst svolítið í kynni við hann fyrir einum tíu árum. Þá byrjaði ég að koma þangað og hann var stundum við afgreiðslu á þeim tíma. Við áttum það sameiginlegt að ég haltraði með lélega mjöðm en Bert hlatraði með lélegt hné. Kannski var það þetta sem dró okkur saman á þeim tíma. Annars er það svo með Bert að hann hefur gengið í gegnum mikið og alvarlegt sjúkdómaferli síðustu 20 árin sem hefur oft hindrað hann í að vinna svo mánuðum skiptir. Í þessari verslun höfum við keypt ein 80 % af öllu efni í Sólvelli og enn sem komið er nánast allt efni í Bjarg. Seinni partinn í sumar voru peningarnir búnir og þá var um tvennt að ræða; að staldra við með framkvæmdir eða semja einhvers staðar. Ég valdi að fara til Berts með stóran reikning í hendinni og spyrja hann hvort hann gæti geymt hann í einhverja daga, en það var reikninginn sem ég borgaði í dag.
 
Ekkert mál svaraði Bert, 50 dagar er ekkert vandamál þó að það standi 30 dagar á reikningnum. Eftir 35 daga kom ég svo í verslunina og þá var bara haust, enn með reikninginn í hendinni, og sagði við Bert að nú ætlaði ég að borga hann. Hann eins og hálf skrúfaði sig til í stólnum og spurði hvort ég væri búinn að fá peninga. Nei svaraði ég, ég þarf að flytja peninga frá Íslandi en vegna gjaldeyrishafta get ég það ekki fyrr en eftir áramót. Ég sagðist ætla að borga með korti og láta það svo fljóta fram yfir áramótin þangað til ég gæti flutt peninga. Heyrðu, sagði Bert mjög ákveðinn, þú borgar þetta ekkert fyrr en um miðjan desember og nú förum við og tölum við stelpuna. Bert stóð upp og gekk mjög ákveðnum skrefum með reikninginn í hendinni og við lögðum af stað til að hitta stelpuna sem reyndar var kona um fimmtugt, kölluð Lotta. Hún sér um reikningagerð og innheimtu. Bert sagði henni að taka þennan reikning og plokka hann út úr dráttarvaxtakerfinu og að senda ekki áminngar. Svo sneri hann sér að mér og sagði: Haltu svo áfram með bygginguna ef þú vilt. Þú getur haldið áfram að kaupa hér.
 
Já, og hvað segir maður svo? Ég hef út af fyrir sig enga ástæðu til að opinbera fjárhag minn fyrir fólki, en ef ég vil segja frá vinarbragði verð ég að gera svo. Ég sagði Rósu dóttur okkar frá þessu og hún sagði að menn ættu erfiðara með að gera svona gagnvart mönnum. Svo útskýrði hún það nánar og mér fannst fróðlegt að heyra þá umfjöllun hennar. Ég ákvað að segja Bert frá þessu þegar ég mundi koma og borga reikninginn sem ég ákvað að gera þann 10. desember.
 
Svo var tíundi desember kominn, Valdís byrjuð að dunda sér í Marieberg og ég á leið til Berts í byggingarvöruverslunina. Ég gat gert upp reikninginn án þess að hitta hann en ég æltaði að standa við ákvörðun mína. Ég gekk upp á skrifstofuna hans og þarna sat þessi heilsuhrjáði maður við skrifborðið sitt. Hann var löngu hættur að koma nálægt afgreiðslu. Það er búið að vera honum um megn í nokkur ár. Þessi stóra kúla sem hann er með undir bringsbölunum er vegna kviðslits sem erfitt er að laga. Hann varð fyrri til að spyrja hvernig ég hefði það. Þegar ég spurði hann hvernig honum liði svaraði hann að hann hefði það "fjandi" gott. Hann veit að ég veit hvernig hann hefur það. Svo lagði hann hendi á stóru kúluna undir bringsbölunum og sagði að hann gæti ekki sagt að þetta væri skemmtilegt. Það dofnaði yfir andlitinu.
 
Ég tók upp reikninginn, sýndi honum, og sagðist vera kominn til að borga, en ég sagðist vilja segja honum dálítið áður en ég borgaði. Ég sagði honum að dóttir mín í Stokkhólmi væri mannfræðingur, til og með doktor í greininni, og hún hefði sagt mér að það væri erfitt fyrir menn að mæta mönnum á þann hátt sem hann hefði mætt mér í haust, en hann hefði gert það á svo sérstakan hátt og það hefði hjálpað mér mjög mikið. Fyrst varð honum orðfall. Svo sá ég hvernig augu hans urðu vot og einhver þakklátur gleðibjarmi fyllti andlitið. En ég get alveg gert svona sagði hann eftir stundarþögn. Já, það er þess vegna sem ég segi þér þetta, þú getur það en það geta alls ekki allir og ég segi þér þetta vegna þess að ég er þér þakklátur. Ég fullyrði núna að við Bert erum vinir. Óumbeðinn gerði hann mér greiða sem ég sé ekki sem viðskiptalegs eðlis, heldur sem vinarbragð. Ég reyndi að sýna honum vinarbragð á móti. Hann á að mæta hjá læknum þann 17. desember til að athuga kviðslitið. Ég vona að honum gangi vel.
 
Vinarbragðið gerði mér kleift að fara með 14 sekki af einangrun heim á kerrunni í dag og það er ekki fyrsti farmurinn. Ef ég hefði verið að skrifa þetta á sænsku hefði ég ekki gert það án þess að fá leyfi hjá Bert, en ég tel að það sé í lagi að segja það á íslensku.


Kommentarer
Valgerður

þá er hann Bert kominn í hóp fjölskylduvinanna, verst að það á ekki eftir að ferma neinn, við hefðum getað boðið honum.

Nei svona í alvöru talað þá er ekki hægt að segja annað en að hann Bert viorðist einstakt góðmenni.
VG

Svar: Já, hann er góður kall undir skrápnum og harðri röddinni.
Gudjon

2012-12-11 @ 09:54:40


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0