Hjartað slær fyrir Dalina

Það var fyrir jól sem hún Jensa hringdi til Valdísar. Hún er færeysk kona sem býr i Varberg en hún á dóttur og dótturdóttur í Falun. Jensa sagðist verða upp í Falun um jólin og á annan í jólum ætlaði hún til baka heim til Varberg. Hún færi þá fyrst með lest til Örebro og þar þyrfti hun að skipta um lest og bíða í rúman klukkutíma. Hún stakk upp á því við Valdísi að hittast þennan rúma klukkutíma og spjalla saman yfir kaffibolla. Þetta var samstundis ákveðið.
 
Hérna eru þær svo á járnbrautarstöðinni í Örebro þessar tvær konur sem drógust að hvor annarri uppi í Falun í sænsku Dölunum. Ég sat á móti þeim á brautarstöðinni og þegar kaffið og bollurnar voru búnar fannst mér rétta augnablikið fyrir myndatöku vera komið.
 
Þetta byrjaði upp í Svartnesi. Þegar ég kom þangað í ársbyrjun 1994 vann þar færeysk kona að nafni Súsanna. Hún talaði stundum um mömmu sína, hana Jensu. Svo var Svartnesi lokað. Við Valdís bjuggum í Svärdsjö tæpa 30 km frá Svartnesi eins og fjöldamargir aðrir Íslendingar sem unnu þar. Þegar frá leið þessari lokun og Íslendingarnir hurfu frá Svärdsjö hver af öðrum fór okkur Valdísi að finnast vistin þar dauf og lífið erfitt. Því fluttum við til Falun haustið 1995, en Falun liggur um 30 km sunnan við Svärdsjö. Mjög fljótlega eftir að við vorum komin í hus í Falun kom Súsanna með mömmu sína í heimsókn til okkar og það varð samstundis vinskapur milli Valdísar og hennar, vinskapur sem stendur enn.
 
Edit systir Jensu er gift Pétri Sæmundssyni í Keflavík. Þorgrímur bróðir hennar býr í Ólafsvík og Jakob bróðir hennar býr í Reykjavík. Edit og Valdís unnu saman í Keflavík 1959. Við höfum nokkrum sinnum farið upp til Falun með fólk sem hefur heimsótt okkur eftir að við fluttum til Örebro og gjarnan komið við hjá Súsönnu. Til dæmis fórum vi þangað með Dísu og Ottó þegar þau heimsóttu okkur fyrir all nokkrum árum og þau og Súsanna höfðu margt að spjalla um.
 
Falun er jú í sænsku Dölunum og ég verð að viðurkenna að ég hef aldrei losnað við Dalina úr hjarta mínu síðan við fluttum þaðan í ársbyrjun 1997. Það er ekkert skrýtið finnst mér þar sem við byrjuðum veru okkar hér í landi þar uppfrá. Við vorum í Dölunum þegar við urðum ástfangin af landinu sem við búum í. Það fer ótrúlega vel um okkur hérna þar sem við Valdís eigum heima, en það kemur fyrir ef við Valdís förum að tala um staðina þarna uppfrá, Falun, Svartnes, Svärdsjö og fleiri staði, að þá bara vil ég fara þangað með hraði. Ég finn alveg á Valdísi að þessi tilfinning blundar í henni líka.
 
Fyrir fáeinum árum var Rósa dóttir okkar að vinna í Falun og þá var henni gefinn kaffibolli sem á stendur: "Hjartað slær fyrir Dalina." Ég valdi það sem fyrirsögn fyrir þetta blogg. Þegar Jensa hringdi og talaði um að hittast á leiðinni norðan úr Dölum, nú þá fór í gang þessi Dalaþrá og hjartað fór að slá fyrir Dalina. Minningar úr Dölunum dönsuðu í huga mér og ég var þegar fyrir jól farinn að setja saman orð og setningar.
 
Súsanna bjó á jarðhæð í blokk í Norslund í Falun. Við bjuggum í næstu blokk neðar í brekkunni, beint fyrir neðan blokkina þar sem Súsanna bjó, og bjuggum þar á fjórðu hæð. Dóttir Súsönnu er Liv og ég giska á að hún hafi verið um fimm ára þegar hér var komið sögu. Þegar ég fór að vinna í Vornesi krafðist Valdís þess að ég fengi mér farsíma og svo gerði ég. Eitt sinn sátum við við matarborðið heima hjá Súsönnu og Liv sat við hliðina á mér. Heimasíminn þeirra stóð næstum við hliðina á Liv þar sem hún sat. Ég tók upp frsímann án þess að hún tæki eftir og hringdi í heimasímann þeirra. Lív svaraði og eftir nokkur andartök áttaði hun sig á því að það var ég sem hafði hringt. Hún skildi ekkert í þessu, starði á mig og fór svo að gráta. Ég sá eftir gerningnum.
 
Í annað skipti vorum við heima hjá þeim mæðgum og ég ætlaði að leika við Liv. Eitthvað var ég klunnalegur og hún datt og kom ónotalega niður og fór að gráta. Ég sá eftir klaufaskapnum. Nú er Liv fullvaxta kona sem vinnur í Stokkhólmi. En mínar minningar um þetta fólk tengist svo mörgu öðru en þessum tveimur óhöppum mínum. Þegar ég hugsa til þessara ára finn ég að vináttan og nábýlið við þetta fólk var sem hlýr og tryggur faðmur og auðvitað fannst fleira fólk ofið inn í þá mynd. Í dag býr Súsanna á sömu hæð og við áður og aðeins einn veggur aðskilur íbúðina hennar og þeirrar sem við bjuggum í.
 
Árin hafa greinilega ætt áfram. Örstutt þarna frá, í sömu brekku, bjó Jensa í all hárri blokk. Ég gæti trúað að hún hafi búið á fimmtu til sjöundu hæð, eða alla vega hafði hún alveg magnað útsýni yfir þann fallega bæ sem Falun er. Við Valdís höfðum líka alveg magnað útsýni yfir vatnið Runn sem liggur milli bæjanna Falun og Borlänge, all þétt setið skógi vöxnum eyjum og annesjum. Þegar við fluttum frá Falun var mér alveg ljóst að við Valdís fluttum frá því fegursta útsýni sem við nokkru sinni höfðum búið við eða áttum eftir að búa við. Þegar ég skrifa þetta hugsa ég til eyfirska fjallahringsins og skaftfellsku fjallanna. Þrátt fyrir það læt ég þessi orð standa.
 
Þegar við fluttum til Örebro vegna vinnu minnar í Vornesi bjó í mér draumur um að koma til baka til Falun og eða nágrennis. Sá draumur er löngu sofnaður en ekki er ég í vafa um að einhver gæti einhvern tíma vakið upp drauminn og ég alla vega látið eftir mér að dreyma hann enn einu sinni þó ekki væri nema til að eiga góða stund með honum svo sem einn góðviðrisdag. Jensa, þakka þér fyrir að vilja hitta okkur Valdísi og þakka þér fyrir að það fékk mig til að dreyma mig svolítið um nokkra eftirlætisstaði upp í Dölum.
 
 
Þegar við fluttum frá Svärdsjö höfðu örlögin gripið okkur með kuldaklóm sínum eftir að vinnan í Svartnesi brást og því var þessi litli bær kaldur í minningunni í nokkur ár. Í dag er Svärdsjö fyrir okkur litill fallegur bær i frábæru umhverfi með margar mjög góðar minningar.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0