Leyndarmálin í skápnum í horninu.

Í dag hef ég verið í jólaþrifunum sem byrjuðu á mánudaginn var. Þetta lætur kannski eins og grobb hjá mér en er það alls ekki. Ég hef reynt að halda Valdísi frá þessu undanfarið og hef sagt henni að ég mundi byrja þrifin á mánudaginn í þessari viku og við það stóð ég. En svo er það ekki allt þrif eins og ég kem að síðar. En það er erfitt að halda Valdísi í skefjum og í dag hefur hún bakað tvær tertur og svo allt í einu var hún farin að skipta um púða neðan á stólfótum. Eins og ég sagði um daginn; dálítil ótemja í henni.
 
Hluti af því sem ég var að gera í dag var að fara með ýmislegt í geymslu út á loftið á Bjargi (nýja húsið okkar). Ég opnaði "skápinn í horninu", eins og við köllum einn skáp í svefnherberginu okkar, til að taka þaðan fáeina litla pappakassa sem við geymum þar til að nota fyrir umbúðir þegar við þurfum að senda eitthvað með pósti. Þetta ætlaði ég að setja í stóran plastkassa til að fara með út á loft. Þegar Valdís varð vör við hvað ég var farinn að gera kom hún með í þetta.
 
Úr skápnum í horninu komu ekki fáeinir litlir pappakassar, helur einhver alveg ótrúlegur fjöldi af umbúðum sem óvart höfðu safnast þar fyrir á nokkrum árum. Valdís tíndi út úr skápnum og ég sorteraði og hirti nokkra kassa og setti niður í plastkassann. Þarna kom kassinn utan af rauða símanum sem við keyptum af Telia fyrir einum sjö árum vegna þess að hann var með svo stórum tölustöfum á hnöppunum og það átti að vera svo þægilegt fyrir þá sem eru aðeins farnir að eldast. Svo reyndist sá sími illa og það gekk heldur alls ekki að láta hann hanga upp á vegg eins og til stóð. Svo fannst fólki sem það heyrðist svo illa í okkur þegar við töluðum til Íslands.
 
Svo kom kssinn utan af fyrri símanum frá Tele2, þeim sem við fengum þegar við fluttum á Sólvelli fyrir þremur árum og fengum þráðlausan heimasíma. Af því að við vorum nýir kúnnar hjá Tele2 sögðust þeir senda okkur besta símann sinn. Svo varð hann óttalega lélegur og tveimur árum seinna sendu þeir nýja týpu af besta símanum sínum. Kassinn utan af honum var þarna líka. Hluti af lífsferli okkar byrjaði nú að líða hjá sem af myndbandi. Umbúðir utan af hinu og þessu sem við höfum keypt og fengið á einn og annan hátt sem meiningin var að gerði lífið léttara, gerði okkur glöð eða meira hamingjusöm. Nú var ég orðinn ótrúlega niðursokkinn í spurninguna hversu mikla hamnigju þessi plastvarningur allur hafði fært okkur. Eða hefðum við kannski orðið nákvæmlega mikið eða lítið hamingjusöm án þess mesta af honum. Ég held að á tímabili hafi ég ekki almennilega gert mér grein fyrir að Valdís var með í þessu bjástri líka. En alla vega; vegna þess að hún hafði hamast við að tína út úr skápnum var hann nú tómur. Mikið var.
 
Allt sem átti að fara út á loftið á Bjargi var nú komið fram í forstofu, mikið meira en það sem hafði verið í skápnum í horninu. Hluti af því átti líka að fara á kerruna og síðar í endurvinnsluna. Forstofan var eiginlega full. Ég var nú svo aldeilis hissa. Allt í einu datt mér Gunnar í hug. Hann hét að vísu alls ekki Gunnar en ég læt hann heita það núna. Það var á árunum sem við Valdís vorum hjá sjúkraþjálfaranum að við hittum Gunnar. Skilyrðið fyrir því að ég fengi nýjan mjaðmalið var að ég gengi fyrst til sjúkraþjálfara. Valdís var þá þegar hjá honum þessum. Við fórum þangað saman og Gunnar og konan hans komu þangað líka saman. Fyrst fór Gunnar inn til sjúkraþjálfarans og svo beið hann eftir konunni sinni. Við Valdís höfðum það þannig að Valdís fór fyrst og svo beið hún eftir mér.
 
Stundum lék Gunnar á alls Oddi og var skrafhreyfinn og fróður. Eitt sinn sagði hann frá því að hann sem ungur maður kom til Örebro vestan úr Värmland og fékk samnstundis vinnu. Hann  var duglegur, vann mikið og svo keypti hann bíl til að geta heimsótt af og til foreldrana vestur í Värmland. Eitt sinn kom vinnufélagi að máli við Gunnar og sagði honum að hann væri í byggingarfélagi sem væri að reisa nokkur raðhús í vesturbænum og hann spurði Gunnar hvort hann vildi ekki vera með í þessu, það væri einn hættur við og því væri ein íbúð laus.
 
Gunnar settist næsta föstudag inn í bílinn sinn og þaut vestur í Värmland. Þar sagði hann pabba sínum frá þessu og vildi ráðgast við hann hvað gera skyldi. Pabbinn bað hann að koma út að glugga og þar benti hann Gunnari á bílinn utan við og sagði að þarna væri hrúga af járni sem mundi ryðga niður og verða verðlaust á örfáum árum. En hús, Gunnar, hús standa í heila öld eða mikið meira. Það kallast fasteign. Byggðu húsið og þar geturðu svo búið alla ævi ef þú vilt. Ég stend við bakið á þér ef þú lendir í vanda. Gunnar byggði húsið þegar hann var rúmlega tvítugur og þegar við hittum hann vel yfir áttrætt bjó hann enn í húsinu. Hins vegar hafði hann slitið út mörgum bílum á þessari lífsleið sinni.
 
Dagurinn í dag hefur verið býsna mikið dagur hugleiðinga. Hvað er varanlegt og hvað tærist upp í höndum mínum og verður að engu, verður kannski aldrei að verulegu gagni og skapar kannski enga gleði eða þá hamingju sem sóst var eftir? Svo byrjaði ég að kasta hluta af pappakössunum í kamínuna, en þegar ég sá að eldurinn varð stundum grænn, stundum blár og stundum eldrauður þegar þeir brunnu, þá hætti ég að elda þá upp. Ég tróð þá niður undir fótum mínum til að þeir minnkuðu fyrirferð. Nú bíða þeir í plastpoka út á kerru og skulu þaðan á endurvinnslustöðina. Sumt af því sem þessir pappakassar innihéldu þegar þeir bárust til okkar liggur líka á kerrunni og skal eiga samleið með umbúðunum á endurvinnslustöðina. Yngasta barnabarnið kemur í heimsókn á föstudaginn og við viljum ekki eitra loftið hér fyrir honum með því að brenna hér heima menguðum umbúðunum utan af plastgræjunum sem við höfum fjárfest í
 
Klukkan sjö í kvöld fór ég svo á AA fund í Fjugesta og sagði þar frá því að ég væri ennþá bara ófullkominn maður. Hinir fundargestirnir könnuðust við þetta allt saman, en við áttum það líka sameiginlegt að geta talað um það og að við stefndum að því að verða betri.
 
Aftur um hann Gunnar. Stundum lék hann á alls Oddi eins og ég sagði áðan, en stundum var það ekki svo og þá var hann ekki til viðtals. Svo var það eitt sinn þegar ég beið eftir Valdísi. Þegar ég bauð honum góðan daginn í það skiptið heyrði ég eitthvað óljóst "uhm!" og svo var það alls ekkert meir. Þegar ég vissi að Valdís ætti eftir svo sem 15 mínútur fór ég í nuddstólinn sem stóð til boða. Þegar ég hafði setið þar stutta stund kom Gunnar inn til mín með blað í hendinni, benti á fyrirsögn og sagði að þetta væri athyglisvert. Svo kvaddi hann og óskaði góðs gengis. Ég vissi vel að það var ekki greinin sem þetta snerist um, heldur vildi hann segja fyrirgefðu á þennan hátt. Mér þótti vænt um hann þegar ég horfði á eftir honum og hugsaði að þetta tækist alls ekki öllum alltaf, ekki mér heldur.
 
 
 Fyrir neðan gefur að líta "skápinn í horninu" eftir tæmingu.


Kommentarer
Björkin.

óTRÚLEGT HVAÐ GETUR SAFNAST HJÁ MANNI,KNÚSSSSSSSSSSS

2012-12-20 @ 01:16:43


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0