Tíminn hefur flogið áfram

Það er þriðji í jólum og aðal hátíðinni er lokið. Á morgun fara líka jólagestirnir okkar. Tíminn hefur flogið áfram og þegar ég byrjaði að skrifa þessar línur hugsaði ég bara hvort ég hefði stuðlað nægjanlega að því að nota þennan tíma svo vel sem skyldi. Ég er ekki með reiðubúið svar við þvi en ég ætla heldur ekki að velta mér neitt upp úr því. Þetta er búinn að vera góður tími, það er alveg ljóst.
 
Í dag voru þau Rósa og Pétur inn í Örebro og við Valdís heima með Hannes. Ég var úti við að sýsla og svo datt mér í hug að athuga hvernig þeim Hannesi og ömmu kæmi saman. Þegar ég kom inn var samkomulagið eins og myndin sýnir. Þau voru að horfa á Dóru landkönnuð, en Valgerður hafði sent Hannesi nokkra þætti um jólin. Er nokkuð hægt að hugsa sér betra samkomulag en við sjáum þarna á myndinni?
 
Í gær vildi ég sýna hvað ég gæti. Nokkrum sinnum hlóð ég það sem ég kallaði eskimóasnjóhús í Hrísey. Ég reikna hins vegar með að eskimóar hefðu hlegið mikið að öllum mínum eskimóasnjóhúsum. Snjórinn hér var afar lélegur til þessa en húsið stóð af sér framkvæmdirnar, enda fór ég mjög gætilega því að ég gat ekki hugsað mér að það hryndi í höndunum á mér meðan það væri í byggingu. Svo settum við stórt kerti inn í það og svo frysti. Þá fékk það einhvern styrk. Þau komust sæmilega þarna fyrir Hannes og Rósa og ég hugsa að Hannes komi til með að muna eftrir þessu snjóhúsi einhverja daga og kannski þegar hann kemur hingað næst.
 
Ég sagðist hafa hlaðið svona hús nokkrum sinnum í Hrísey. Fyrri árin okkar á Bjargi var þokkalegur tími til að vera með börnunum og við gerðum sitt af hverju með þeim. Svo fórum við að byggja í Sólvallagötunni og ég reyndi að vera einn af þessum duglegu heimilisfeðrum sem unnu mikið að húsbyggingunni sinni og sköpuðu verðmæti. Kannski sköpuðust einhver verðmæti en önnur verðmæti töpuðust líka á móti. Það varð minni tími með börnunum, oft enginn. Það er alveg ljóst að Rósa fékk minni tíma en Kristinn og Valgerður. Til dæmis man Rósa ekki eftir neinu eskimóasnjóhúsi og ég man vel að ég hugsaði í nokkur ár að næsta vetur get ég hlaðið snjóhús handa henni. Svo varð þó aldrei.
 
En viti menn. Mannfræðidoktorinn Rósa er búin að fá snjóhúsið sitt. Hvað er eðlilegra en að mannfræðingur hafi áhuga á eskimóasnjóhúsi. Samkvæmt svip hennar á þessari mynd er hún ánægð með þetta þó að húsið hafi komið minnst 30 árum seinna en vilji minn stóð til á þeim tíma.
 
Það er þriðji í jólum sagði ég. Aðfaranótt annars í jólum vaknaði Pétur við einhverja skruðninga. Við vissum ekkert hvað þetta hafði verið fyrr en við litum út eftir morgunverðinn. Snjórinn hafði runnið að þakinu báðu megin á Bjargi. Ég hugsaði nú bara að þarna hefði ég fengið framtíðarvinnu svo lengi sem við búum hér, það er að moka mig gegnum þennan snjó í hvert skipti sem hrynur af þakinu á þessu húsi. Ég losnaði þó við það í þetta skiptið þar sem tengdasonurinn annaðist moksturinn. Rósa vinkar og Hannes fylgist með. Það var eftir að þessi mynd var tekin sem bygging snjóhússins byrjaði.
 
Það var svo í dag sem við fórum inn með bílinn einungis til að sjá hvernig hús og bíll kæmu út hvort á móti öðru. Hvar væri hægt að setja upp skápa og hvar væri hægt að geyma þetta og hitt. Við erum þarna tengdafeðgar að leggja á ráðin og mér sýnist að ég hafi sett upp allan þann spekingssvip sem ég bjó yfir á þeirri stundu.
 
Svo fórum við Rósa að einangra. Rósa vildi alls ekki fara frá Sólvöllum án þess að fá að prófa að einangra. Okkur gekk vel og ég fann vel hversu mikið betur verkið gekk þegar ég var ekki einn við það. Ég dunda mikið meira við verkin þegar ég er einn. Ég vil njóta þess að gera svona hluti, en þegar tveir vinna verður annar kraftur í verkinu og þá er líka hægt að njóta þess en þá á annan hátt.
 
Svo héldum við svolítið gamlárskvöld fyrir kvöldmatinn þar sem við Valdís verðum ein á gamlárskvöld. Valdís kom með stjörnublys frá því í fyrra og lét þau brenna upp utan á snjóhúsinu.
 
Pétur sendi upp loftbelgi. Svo var sagt frá því í fréttunum örstuttu seinna að það þarf leyfi fyrir að senda svona himnafyrirbæri á loft. Þá vitum við það. Hvað ætli fólk sem ekki veit að svona er til haldi þegar það sér svona ljós líða yfir himinhvolfið á náttmyrkrinu.
 
Klukkan er orðin tíu að kvöldi og Hannes er sofnaður. Það er mjög hljótt hér í sveitinni og ró í húsinu. Um hádegi á morgun höldum við á járnbrautarstöðina í Kumla og gestirnir okkar stíga upp í lestina þar. Svo verður ennþá hljóðlátara í sveitinni annað kvöld.


Kommentarer
Björkin.

Mikið hefur verið gaman hjá ykkur elsku hjón.Með ykkar frábæru Stokh.fjölskyldu.Knússss í hússssssssss.

2012-12-28 @ 22:38:45
Björkin.

Æðislegar myndir...

2012-12-28 @ 22:39:55


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0