Einföld jól

Íslenska lambalærið var í matinn á aðfangadagskvöld, í gær, mjög vel matreitt og bragðgott eftir því. Þau komu með þetta í sumar hún Árný mágkona mín og Gústi svili minn. Já, gott var það, en án minnar aðkomu þangað til farið var að borða það. Það er skrýtið þetta með matreiðslu. Valdís kryddar mat með ákveðnum kryddum og hann verður góður. Svo krydda ég mat með sömu kryddum og í sama magni að því er ég best veit, og hann verður ekki góður. Ég velti ekki fyrir mér hvers vegna þetta er svona, en ég veit hins vegar að það bara er svona. Svo væri ég ekki að bjóða upp á þetta með íslenska lambalærið sem frétt ef það hefði ekki verið utan íslensku landssteinanna sem það var framreitt.
 
Þau tóku að sér matargerðina Rósa og Pétur og árangurinn var sem sagt eins og ég var búinn að segja, íslenska lambakjötið var alveg frábært. Valdís kom auðvitað að þessu líka og það var þá sem ég tók myndina. Annars var hún búin að segja að matargerðin væri á Rósu og Péturs vegum. Ég hélt mig hinu megin við eldhúsbekkinn og  það fór best á því. Ég get vel soðið hafragraut, hellt á könnuna, soðið egg og eitthvað smávegis fleira, og svo get ég líka hitað upp mat. En bestur er ég við að ganga frá og geri það snyrtilega. Þetta er ekki bara grín hjá mér, það er alvara líka. Ég þarf ekkert að grínast með það að kokkur er ég lélegur.
 
Þau eru þarna búin að klæða sig í jólafötin, amma og Hannes, og biðu nú eftir jólamatnum. Afi og Hannes voru báðir með bindi en það þótti ekki öruggt að sá yngri væri tilbúinn að bera það. En það gerði hann fúslega og honum fór það vissulega vel. Afi er vanur bindinu og það er engin spurning fyrir hann að setja það upp við viss tækifæri og alveg sérstaklega á aðfangadagskvöldi.
 
Auðvitað fór Hannes fram fyrir spegilinn til að huga að útlitinu þegar bindið var komið upp, en honum leist vel á þetta og var ánægður með sitt bindi. Þessi spegill er heil skáphurð sem bara er spegill. Bakvið þessa skáphurð eru hleðslutæki fyrir öll tæki á heimilinu sem þarf að hlaða með jöfnu millibili. Kvöld eitt fyrir stuttu vorum við Valdís að fara inn til Örebro og var þá orðið rokkið. Þegar ég var kominn út mundi ég eftir farsímanum þar sem hann var í hleðslu. Ég sneri við og gekk með dálitlu hraði inn í herbergið til að sækja hann. Þar sem ég vatt mér snarlega fyrir horn og að skápnum, aleinn heima, vissi ég ekki fyrri til en maður snaraði sér á móti mér og varð mér talsvert hverft við. Skáphurðin var opin og ég gekk á móti sjálfum mér í rökkrinu.
 
Það var einfalt jólahald á okkar bæ. Þessi einfaldi góði matur og svo má greina pakka á borði þarna handan við Rósu og Hannes. Myndin er ekki góð en ég læt hana flakka samt, vona að þeir sem ekki eru ánægðir með hana fyrirgefi mér. Það var svolítið erfitt að fá Hannes til að sitja fyrir. Á næstu mynd á undan þessari stóð hann í stólnum og leit hressilega út, en þá var myndin af hinum verri. Hann lét reyndar pakkana í friði og þegar við hin opnuðum okkar pakka, þá vildi hann gjarnan hjálpa okkur að opna en var ekki svo æstur yfir sínum pökkum. Hins vegr lá honum á í morgun að byrja að setja saman legóbílinn sinn. Svo hefur hann verið talsvert í feluleik með afa og þá verður afi alveg yfir sig þreyttur á tiltölulega stuttum tíma. Í gær létum við klukkurnar á Íslandi hringja inn jólin fyrir okkur klukkan 18 að íslenskum tíma, gerðum það gegnum tölvu. Þá vorum við reyndar búin að borða en þá var okkar tími til að segja gleðileg jól. Við höldum ekki hefðbundin sænsk jól, heldur að mestu í íslenskum anda. Við höfum haft bæði íslenska og sænska jólatónlist og sjónvarpsmessuna hlustuðum við misjafnlega mikið á.
 
Við enduðum daginn á að senda upp tvo svona belgi, hálfgerða loftbelgimeð ljósi, og við lékum okkur svolítið að þvi að spá í hvað fólk héldi sem sá þessi ljós líða vestur yfir byggðina. Það er ekkert daglegt brauð að sjá svona ljós hér, en þau eru þó þekkt. Pétur er sem sagt ekki að biðja bæn, heldur að sleppa öðrum þessum belg á loft. Annar þeirra hafnaði í allháu birkitré sem stendur hér á lóðamörkunum við vegin. Þar barðist hann fyrir tilveru sinni í svo sem eina mínutu, en slapp þá frjáls og hélt þá í vesturátt móti Kilsbergen og Íslandi.
 
Svo komum við til dagsins í dag. Það snjóaði eina 10 til 15 sm í nótt og í morgun. Greinar jólatrésins hnigu undan snjónum en þegar svo Valdís kveikti á því í rökkurbyrjun, þá virkaði það eins og ekkert hefði í skorist. Það hefur verið töluverður snjómokstur í gær og í dag, en það hefur bara gert jólamatinn hollari. Gott var svo hangikjötið í dag, jóladag, og hress var fjögurra manna nágrannafjölskyldan sem heimsótti okkur í dag og þá kaffi og jólakökur hjá Valdísi.


Kommentarer


Kommentera inlägget här:


Namn:
Kom ihåg mig?

E-postadress: (publiceras ej)

URL/Bloggadress:

Kommentar:

Trackback
RSS 2.0